22.03.1937
Neðri deild: 24. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 96 í C-deild Alþingistíðinda. (1355)

82. mál, skiptameðferð á búi h/f Kveldúlfs

*Forseti (JörB):

Hv. 2. þm. Reykv. leggur mér nú í munn meira heldur en ég hefi sagt, er hann heldur fram, að ég hafi lofað sér að taka frv. til l. um skiptameðferð Kveldúlfs fyrir tiltekinn dag. Hinsvegar vil ég standa við það að taka málið fyrir eins fljótt og ég frekast get. Vil ég í þessu sem öðru taka tillit til óska manna eins og hægt er. Í fyrstu ætlaði ég að taka þetta mál fyrir eins fljótt og frekast var hægt, en þá hafði ekki verið óskað eftir útvarpsumræðum. Ætlaði ég að taka frv. á dagskrá á föstudaginn, en þá bað hv. 2. þm. Reykv. um að láta það bíða þar til upp úr helginni, og gerði ég það að sjálfsögðu fyrir hann. Nú kom ósk frá hæstv. fjmrh. um að fresta málinu lengur. Býst ég við, að hann hafi gildar ástæður fyrir þeirri ósk, og vil ég því gjarnan verða við tilmælum hans, en það er á engan hátt ætlun mín að tefja málið úr hófi fram eða beita hv. flm. neinum órétti. Eins og hv. flm. veit, eru hér mörg önnur mál, sem bíða afgreiðslu.