22.02.1937
Neðri deild: 7. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 49 í B-deild Alþingistíðinda. (137)

13. mál, Kreppulánasjóður

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Þegar gengið var frá l. um viðauka við kreppulánasjóðslögin 1936, um hjálp til handa bæjar- og sveitarfélögum, var gengið út frá því, að ónotað væri af handhafaskuldabréfum þeim, sem gefa mátti út samkv. lögum um kreppulánasjóð frá 1933, nokkuð yfir 1 millj., og að sá afgangur myndi duga til þess að fullnægja lánbeiðnum þeirra sveitar- og bæjarfélaga, sem sæktu um kreppuhjálp. En þegar til kom, var ekki meira eftir af þessum bréfum en 400000 kr. Stafaði þetta fyrst og fremst af því, að lánsheimild sú, sem sjóðurinn hafði samkv. lögum frá 1933, hafði ekki verið notuð að fullu. Í öðru lagi varð þetta sökum þess, að með lögum frá í fyrra var heimilað að greiða nokkra aukakreppuhjálp til bænda, við endanlega uppgerð á óveðtryggðum lánum þeirra.

Þegar þetta kom á daginn, var ekki nema um annað tveggja að gera, að fresta framkvæmd laganna, eða gefa út bráðabirgðalög til þess að ráða bót á þessu. Varð það svo úr, að leitað var álits ýmsra þm., sem til náðist, og í samræmi við álit þeirra gefin út bráðabirgðalög þau, sem hér liggja fyrir til umr.

Ég vil svo ennfremur geta þess, að ég hefi fengið skýrslu frá þeirri stjórn kreppulánasjóðs, er hafði með höndum lánveitingarnar til bæjar- og sveitarfélaga. Lánveitingunum var skipt í tvo flokka, lán til kaupstaða og lán til sveitarfélaga. Öllum kaupstöðum landsins, að undanteknum Reykjavíkurkaupstað, var veitt úr sjóðnum. Alls voru veitt 2585 þús. kr. lán, sem greidd voru með kreppulánasjóðsbréfum, þar af fengu 82 hreppsfélög 1085 þús. kr., en kaupstaðirnir 1500 þús. Lán til sveitarfélaga námu þó alls 1167 þús. Mismunurinn var greiddur í reiðu fé, sem aðallega var tillag ríkissjóðs til jöfnunar fátækraframfæri sveitanna.

Skuldir þeirra 82 hreppsfélaga, sem sóttu um og fengu lán úr kreppulánasjóði, námu áður en til samninga kom 2,4 millj., en verða eftir uppgerðina 1,1 millj. Lækkun þessi nemur þannig 1,3 millj. Auk þessarar raunverulegu lækkunar var ýmsum lánum hreppsfélaganna breytt í kreppulánasjóðslán, lánstíminn lengdur og vextirnir lækkaðir. Árleg gjöld þessara hreppsfélaga voru áður um 300 þús., en eru nú ekki nema 76 þús. Sparnaðurinn verður því um 300 þús. á ári, eða um 80% af byrði þeirra af skuldunum áður en uppgerðin fór fram.

Hvað bæjarfélögin snertir, þá taldi stjórn sjóðsins ekki ástæðu til að gefa þeim eftir af skuldum sínum. Hún leit svo á, að þau gætu staðið við skuldbindingar sínar, ef miðað væri við sæmilegt atvinnuástand. Hjálpin til þeirra er því fólgin í því, að dýrum lánum og óumsömdum var breytt í 30 ára lán með 5½% vöxtum. Hversu miklu sá léttir nemur að krónutölu, er ekki hægt að segja um á þessu stigi málsins.

Að síðustu vil ég geta þess, að Hafnarfjarðarbær sótti um meira lán en hægt var að veita honum af fé því, sem til kaupstaðanna var ætlað. Aftur á móti eru ónotuð 415 þús. af fé því, sem sveitarfélögin máttu fá, en það er ekki heimilt að lána af því til kaupstaðanna án sérstaks samþykkis Alþingis. Þetta atriði kemur því til athugunar nefndar þeirrar, sem frv. fær til meðferðar. Mun ég því láta henni í té skýrslu sjóðsstj., sem ég hefi hér með höndum.