24.03.1937
Neðri deild: 26. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 137 í C-deild Alþingistíðinda. (1374)

82. mál, skiptameðferð á búi h/f Kveldúlfs

*Stefán Jóh. Stefánsson:

Hæstv. fjmrh. taldi þessu frv. fyrst og fremst til foráttu, að gengið væri þar inn á nýjar brautir af löggjafarvaldinu og skapað hættulegt fordæmi, en þetta er ekki rétt fullyrðing hjá hæstv. ráðh. Hér er ekki um nýja breytingu að ræða, heldur má segja, að þingsagan hafi að geyma mál, sem kalla mætti fordæmi, og má þar nefna frv., sem borið var fram á þinginu 1930, þegar samþ. voru lög um Útvegsbanka Íslands h/f og Íslandsbanka, en í 1. mgr. 16. gr. þeirra laga er svo ákveðið, að ef Íslandsbanki verði ekki við skilyrðum 12. gr. þeirra sömu laga, „skal bú Íslandsbanka tekið til skiptameðferðar“. En Íslandsbanki var hlutafélag, sbr. l. nr. 66 10. nóv. 1905. Það er glöggt tekið fram, að bú Íslandsbanka skuli tekið til skiptameðferðar, ef það fullnægi ekki vissum skilyrðum. Sé ég ekki, að það sé mikill munur á Íslandsbanka og Kveldúlfi, þar sem Kveldúlfur hefir ekki um langt skeið goldið skuldir sínar við bankana og þannig viðhaft greiðsludrátt eða greiðsluþrot, sem er að mörgu leyti sambærilegt við mál Íslandsbanka. — Annað dæmi, sem mætti nefna, eru bráðabirgðal. þau, sem Tryggvi Þórhallsson, þáverandi formaður Framsfl., gaf út árið 1931 um skiptameðferð á búi síldareinkasölu Íslands. Í grg. fyrir þeim bráðabirgðal., nr. 84 9. nóv. 1931, um skiptameðferð á búi síldareinkasölu Íslands, segir, að síldareinkasalan hafi orðið fyrir svo miklum töpum og óhöppum, að hagur hennar standi þannig, að eigi sé annað fyrirsjáanlegt en að bú hennar hlyti bráðlega að verða tekið til gjaldþrotaskipta, og taldi rn. því óhjákvæmilegt að gera þegar í stað ráðstafanir í þessa átt. Segir svo í 1. gr. þessara laga, sem síðan voru afgr. á Alþingi 1932 sem l. nr. 21 23. júní 1932: „Bú síldareinkasölu Íslands skal tekið til skiptameðferðar.“ Síldareinkasalan var lögþvinguð samvinna síldarútvegsmanna, sbr. lög nr. 61 1929 og l. nr. 60 1931. Hér var um einkafyrirtæki að ræða, og voru þó sett um það sérstök lagaákvæði. Ríkisvaldið tók sig meira að segja til og gaf út bráðabirgðal. um skiptameðferð á því. Það kom fram í umr. á þingi 1932, að að öllu athuguðu þótti sýnt að einkasöluna mundi fara að reka upp á sker, og þá þótti sjálfsagt að gera ráðstafanir til, að það yrði á sem eðlilegastan hátt. Formaður Framsfl. þóttist sjá, að búið væri að reka upp á sker, en forstjóri síldareinkasölunnar taldi ekki ástæðu til að taka það til skipta. Böðvar Bjarkan lögfræðingur skrifaði, er bráðabirgðal. komu út: „Eins og þá stóð, þegar fulltrúafundurinn í Rvík veittist að einkasölunni, var ekki kominn fram í henni neinn bannvænn sjúkdómur, og fjárhag hennar alls ekki svo komið, að það eitt út af fyrir sig þyrfti að leiða til hins sviplega dauðsfalls hennar.“ En þótt jafngætinn maður og hann segði þetta, gaf Framsfl. út bráðabirgðal. um skipti búsins. Það eru því vissulega til fordæmi fyrir slíkri íhlutun. Í umr. 1931 kom það fram, að ástæðan til að taka bú síldareinkasölunnar til skiptameðferðar væri einkum sú, að fyrirtækið mundi skulda um eina millj. umfram eignir. Ég vil segja, að sé það rétt, megi færa sömu rök fyrir uppgjöri Kveldúlfs, þar sem skuldir hans eru taldar um 1½ millj. umfram eignir, eftir skyndimati óvilhallra matsmanna.

Bæði hæstv. fjmrh. og Ólafur Thors lögðu áherzlu á það, að bankarnir ættu að ráða. Ekki réðu bankarnir um gjaldþrotaskipti síldareinkasölunnar, og var þó Landsbankinn lánardottinn hennar. Eiga bankarnir þá að ráða fjármálum þjóðarinnar án nokkurra verulegra afskipta, — bankarnir, sem ekki eru annað en eitt af tækjum þjóðfélagsins til að halda við þjóðskipulaginu? Nei, þeir eiga að vera undir stjórn löggjafarvaldsins og ríkisstj. á hverjum tíma, en ekki hafa neitt einræðisvald. Og virðist löggjafar- og ríkisvaldinu ástæða til, hafa þau rétt til að taka til sinna ráða gagnvart þeim, ef þeir t. d. láta fyrirtæki fá fé, sem engin von er um, að fái viðreisn. Íslandsbanki réð lengi. Hann hafði þá aðferð, að kasta sparifé almennings ár eftir ár í ólífvænleg fyrirtæki. Ég sé ekki betur en að þeir, sem berjast gegn þessu frv. og halda fram valdi bankanna, vilji halda áfram hinni gömlu fjármálapólitík Íslandsbanka, en slíkt er fjarri Alþfl., en tími er ekki til að fara út í það atriði.

Hæstv. fjmrh. lagði mikla áherzlu á hin framboðnu veð Thors Jensens, en þau munu vera allt of hátt metin og nær ½ millj. kr. virði en 1 millj., og ef hér á eftir eiga að koma útgerðarlán, sem óvíst er, að fáist öll, getur farið svo, að skuldirnar verði orðnar miklu meiri en hin framboðnu veð, ekki sízt þar sem þau verða farin að ganga úr sér. Vil ég í því sambandi minnast á það, sem Ólafur Thors, hv. þm. G.-K., sagði, að ekkert gæti hindrað góðan rekstur Kveldúlfs annað en pólitískt ofbeldi. Þetta er fjarstæða. Fyrirtæki með slíka skuldahrúgu, að hver togari þarf að bera uppi árlega 60–70 þús. kr. í vexti af skuldum fyrirtækisins, án þess að rætt sé um fyrningar, getur aldrei haldið áfram til langframa án þess að hlaða upp auknum skuldum.

Þá sný ég mér að ræðu Ólafs Thors, hv. þm. G.-K. Kem ég þá fyrst að því, er hann veik sérstaklega að mér í ræðu sinni. Hann vildi halda því fram, að ég hefði misnotað stöðu mína sem bankaráðsmaður. Ég lýsi það hrein og bein ósannindi. Ég geri ráð fyrir, að þessi misnotkun, sem Ólafur Thors eigi raunverulega við, sé aðstaða mín í bankaráði Útvegsbankans, en þar hefi ég bæði fyrr og síðar verið að reyna að krefja inn vanskilaskuld Kveldúlfs við bankann, en það hefir því miður ekki tekizt, Þetta mun nú vera mín dauðasynd, sem ætti að hegna mér fyrir. Sami ræðumaður hefir margendurtekið: „Við eigendur Kveldúlfs“. En hverjir eru eigendur Kveldúlfs? Það er ekki Ólafur Thors og bræður hans. Þeir, sem eiga hann, eru sparifjáreigendur á Íslandi. Þjóðin á Kveldúlf. Sparifé hennar er það, sem hann er rekinn fyrir og mun verða rekinn fyrir um skeið, og það er sparifé þjóðarinnar, sem er í eignum Kveldúlfs. Það er þjóðin, sem ber ábyrgð á rekstri Kveldúlfs, og á hennar baki skellur tapið, og það er hún, sem á að stjórna honum. En hverjir stjórna Kveldúlfi? Það gera Thorsbræður. Þeir stjórna og hafa stjórnað í skjóli bankavaldsins, sem vill setja sig yfir ríkis- og löggjafarvaldið. Og um það er barizt nú, hvort þeir menn, sem hafa kallað þetta fyrirtæki sitt, en ekki er þeirra, eiga að halda áfram að stjórna því, eða þeir, sem réttinn hafa í raun og veru til þess. Höfuðatriði þessa máls er: Á bankavaldið að vera sett yfir ríkis- og löggjafarvaldið og á Kveldúlfur að stjórna bankavaldinu? Þeir, sem vilja fylgja Kveldúlfi, vilja, að Kveldúlfur stjórni bankavaldinu og bankavaldið ríkisvaldinu, en ég álít, að bankavaldið eigi að hlíta landslögum, en ekki öfugt.

Eitt gullkorn var í ræðu Ólafs Thors, sem mér fannst annars vera bragðdaufur harmagrátur, kryddaður svæsnum og ósönnum árásum á einstaka alþýðuflokksmenn. En gullkornið er þetta: Átökin um Kveldúlf er ljót saga, sem þó hefir farið vel. — Það er satt, sagan er ljót. Hún er saga um það, hvort ein fjölskylda eigi að fara með eftir eigin geðþótta 5 millj. af sparifé almennings, nota þetta fé til framfæris fjölskyldunni og til þess að kaupa sér pólitísk völd, sbr. ræðu hv. þm. A.-Húnv. á síðasta þingi, þar sem hann beinir því til hv. þm. Snæf., að þeir bræður hafi notað völd sín til að kaupa sér kjördæmi. En þessi ljóta saga hefir ekki farið vel. Til þessa er hún sorgarsaga um fjármálaspillingu og óreiðu. En sagan er ekki enduð. Þó að þetta frv. nái ekki fram að ganga, mun sögunni halda áfram, og Alþfl. mun berjast fyrir því, að sagan fari illa fyrir fjármálaspillingunni og einræðinu, en vel fyrir þjóðina. En þau sögulok mun hv. þm. G.-K. ekki þykja æskileg.