24.03.1937
Neðri deild: 26. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 139 í C-deild Alþingistíðinda. (1375)

82. mál, skiptameðferð á búi h/f Kveldúlfs

Pétur Ottesen:

Það fyrirbrigði, sem við horfumst í augu við, er að fram eru komnar till. um það á Alþingi, að taka alveg ráðin af stjórnendum beggja höfuðbanka landsins, Landsbankans og Útvegsbankans, bankaráðum og bankastjórum þessara stofnana, með því að það skuli fyrirskipað með lögum, að einn af viðskiptamönnum bankanna skuli, hvað sem tautar, verða gerður gjaldþrota og bú hans tekið til skiptameðferðar. Þetta fyrirbrigði, segi ég, er alveg einstætt í sinni röð.

Þetta fyrirbrigði er því undarlegra, þar sem það hefir verið ríkjandi skoðun á Alþingi, eins og löggjöf sú, sem sett hefir verið um rekstur bankastarfseminnar hér á landi, ber órækastan vottinn um, að svo sé bezt og heillavænlegast um þá hnúta búið, að pólitíska valdinu í landinu sé á hverjum tíma sem mest haldið frá því, að teygja fingur sína inn í bankareksturinn, því að það er vitanlega gagnstætt öllu skynsamlegu viti, að menn eigi í viðskiptum sínum við lánsstofnun slíka sem bankarnir eru, á nokkurn hátt að njóta þess eða gjalda, hverja pólitíska skoðun þeir kunna að hafa. Bankaviðskiptin eru allt annars eðlis.

Þá er þetta fyrirbrigði ekki síður alveg einstakt í sinni röð, og það svo, að því verður ekki til neins jafnað, — þegar það er skoðað í ljósi ýmsra opinberra ráðstafana, sem gerðar hafa verið hér á landi hin síðari ár og ég skal nú nokkuð drepa á.

Eins og alkunnugt er, hafa höfuðatvinnuvegir okkar Íslendinga, landbúnaður og sjávarútvegur, átt við mjög mikla erfiðleika að etja nú um nokkurt árabil, sem að langsamlega mestu leyti á rót sína að rekja til þess ósamræmis milli afurðaverðs og tilkostnaðar, sem þessir atvinnuvegir hafa búið við um alllangt skeið.

Árið 1933 var svo komið hag bændastéttarinnar, að það þótti og var alveg óhjákvæmilegt að gera á okkar mælikvarða stórfelldar ráðstafanir til þess að fyrirbyggja þann þjóðarvoða, að stór hópur bænda víðsvegar á landinu yrði að yfirgefa jarðirnar, sem þá hefðu orðið verðlausar og lagzt í eyði. Með kreppulánasjóðsstarfseminni fengu 2814 bændur lán úr sjóðnum, um 10 millj. kr., og af óveðtryggðum skuldum þessara bænda, sem voru alls 14100000 kr., voru felldar niður og afskrifaðar 8 millj. kr., eða 57%.

Á þessu sama ári og næsta ári fór fram athugun á hag og afkomu sjávarútvegsmanna, sem sýndi, að svo var nú hag þeirra komið, að allar eignir togaraútgerðarmanna voru 16219 þús., en skuldir 12481 þús. Skuldir 77% móti eignum. Allar eignir vélbátaeigenda hinsvegar 16200 þús. kr. Skuldir 14039 þús. Skuldir 86% móti eignum.

Á þinginu 1934 voru samþ. lög um skuldaskil vélbátaeigenda, og var fyrir síðustu áramót lokið uppgerð á hag þeirra bátaútvegsmanna, er sótt höfðu þá um lán úr skuldaskilasjóðnum, en þeir voru 122. Voru allar eignir þeirra rúml. 3,7 millj., en skuldirnar rúmar 6 millj. Af þessum 122 lántakendum voru það einir 5, sem áttu fyrir skuldum. En hinir 117 áttu ekki fyrir skuldum. Sá bezt stæði skuldaði 83% af matsverði eigna sinna, en hjá þeim, sem skuldaði hlutfallslega mest, voru skuldirnar 986% af eignum. Að meðaltali voru skuldirnar 158,38% af eignum. Niðurfelling eða eftirgjöf af skuldum þessara manna nam 2807499 kr. Minnsta útborgun til almennra kröfuhafa var 2%, mesta 54%, að meðaltali 6,40%. Svona var þá komið hag þeirra bátaútvegsmanna, er fengið hafa lán úr skuldaskilasjóði. Er nú í ráði að framlengja starfsemi skuldaskilasjóðsins sökum aðkallandi nauðsynjar.

Nú er í þann veginn að hefjast uppgerð á hag þeirra útgerðarmanna, er gert hafa út línuveiðagufuskip, og er útkoman þar víst sízt betri. Nefnd sú, sem athugaði hag útgerðarinnar, hafði einnig gert tillögur um, að þeir, sem að stórútgerðinni standa, það er botnvörpungaútgerðinni, fengju og nokkurn stuðning með sama hætti og smærri útgerðin, en þm. Ísaf. beitti sér fyrir því í sjútvn., að meiri hl. á Alþingi synjaði þessum hluta útgerðarmanna um nokkurn stuðning, þrátt fyrir það þótt rannsóknin sýndi, að stórtöp höfðu orðið yfirleitt á togaraútgerðinni þá um nokkurt skeið og að útgerðin stóð þar af leiðandi mjög höllum fæti.

Hin erfiða afkoma atvinnuveganna og hallarekstur landbúnaðar og sjávarútvegs á undanförnum árum hefir víðar sagt til sín en í greiðsluvandræðum þeirra, sem að atvinnurekstrinum standa. Sveitar- og bæjarfélögin hafa þar sína sögu að segja. Til þess að gera tilraun til að greiða fram úr vandræðum þeirra var stofnaður nýr kreppulánasjóður. Í þessum sjóði hafa öll bæjarfélögin, að Reykjavík einni fráskilinni, fengið lán til greiðslu á skuldum, sem nemur 1½ millj. króna. 80 hreppsfélög af rúmum 200 hafa fengið 1100000 kr. lán og afskrifað af skuldum sínum 1216 þús. kr., og voru í allmörgum tilfellum eigi greidd nema 2% af framfærsluskuldum.

Þegar þær ráðstafanir, sem ég nú hefi lýst og gerðar hafa verið af hálfu þess opinbera til þess að styðja einstaklingana í baráttunni við þá örðugleika, sem að atvinnurekstrinum steðja, og svo sveitar- og bæjarfélögin, eru bornar saman við hinar fólskulegu hamfarir gegn útgerðarfélaginu Kveldúlfi, þá held ég, að öllum megi vera það ljóst, að þar stingur mjög í stúf og að það er sízt ofmælt, sem ég sagði áðan, að þetta fyrirbrigði er alveg einstætt í sinni röð.

Með fyrrnefndum ráðstöfunum er verið að reyna að koma í veg fyrir það, að þeir atvinnurekendur, sem komnir eru í greiðsluþrot, þurfi að missa atvinnutækin, og þá jafnframt koma í veg fyrir það, að svo og svo mikið af skipum, bátum og fasteignum komi undir hamarinn samtímis, sem vitanlega á kaupgetuleysistímum mundi valda algerðu verðhruni á þessum eignum. Þá er það og alveg ljóst af uppgerð á hag bændanna í Kreppulánasjóði og bátaútvegsmannanna í skuldaskilasjóðnum og lánveitingum úr þessum sjóðum, að þeir, sem höfðu á hendi stjórn þeirra, hafa litið svo á, og það alveg réttilega, að atvinnurekstrinum væri þrátt fyrir allt í langsamlega flestum tilfellum bezt borgið með því, að hann væri áfram í höndum hinna sömu manna, en snögg og víðtæk eigendaskipti mundu vera óheppileg og sízt til bóta. Það leiðir líka af sjálfu sér, að sú þekking, sem menn afla sér með langri reynslu við atvinnureksturinn, hvort það er heldur í sveit eða við sjó, hlýtur að skapa nokkurt öryggi gegn því, að mistök eigi sér stað eða óhöpp, þau sem á annað borð við verður ráðið. Í stjórn skuldaskilasjóðs vélbátaeigenda eru menn úr öllum þremur stærstu stjórnmálaflokkunum, þar á meðal formaður Alþýðusambands Íslands, Jón Baldvinsson. Það verður ekki annað séð en að þeir hafi verið alveg sammála, um að fylgja þessari grundvallarstefnu í lánveitingum úr sjóðnum, sem meðal annars sést á því, að fjölmargir útvegsmenn fengu lán úr sjóðnum, þótt efnahagur þeirra leyfði ekki, að þeir greiddu kröfuhöfum nema 2% af óveðtryggðum skuldum. Þessir sömu menn fengu þá jafnframt fyrirheit um áframhaldandi rekstrarlán hjá bönkunum.

Með þessum ráðstöfunum, sem hér hefir verið lýst, og framkvæmd þeirra, er verið að gera tilraun til að veita viðnám, örva atvinnulífið, byggja upp, tryggja afkomumöguleika þjóðfélagsborgaranna.

Með hamförunum gegn útgerðarfélaginu Kveldúlfi er verið að rífa niður, höggva á erfiðum tímum og þegar verst gegnir skarð, stórt skarð, í atvinnu- og afkomumöguleika fjölda manna í þessu þjóðfélagi og þjóðarinnar í heild. Og svo gráðugur er vilji sósíalistanna í þessu efni og niðurrifsæðið skefjalaust, að þeir skirrast ekki við að ætla sér að taka fram fyrir hendur bankaráða og bankastjóra í báðum höfuðbönkum landsins og knýja þar fram verknað, sem brýtur svo gersamlega í bág við allt það, sem gert hefir verið með framangreindum ráðstöfunum til þess að draga úr því böli, sem leitt hefir af taprekstri atvinnuveganna undanfarin ár. Þeim er það og ljóst, þessum niðurrifsmönnum, sem bera fram frv. um að gera Kveldúlf gjaldþrota, hvert regindjúp er staðfest milli þess og fyrrgreindra ráðstafana. Þess vegna hafa þeir talið það nauðsynlegt að undirbúa jarðveginn um allangt skeið, en það hafa þeir gert með þrotlausum rógskrifum í blöðum sínum um Kveldúlf og þá menn, sem að honum standa. Þessi blaðaskrif, og yfirleitt öll þessi herferð gegn Kveldúlfi, eru eitthvert allra viðbjóðslegasta fyrirbrigðið í íslenzku stjórnmálalífi. Af þeim, sem nokkuð þekkja til, er þessu vitanlega mætt með hinni dýpstu fyrirlitningu, en með slíkum síendurteknum skrifum, sem trúin á mátt og verkanir rógs og blekkinga framleiðir, eru sjálfsagt miklir möguleikar til að villa þeim sýn í bili, sem ekkert þekkja til, enda er á það treyst.

Einn meginþátturinn í herferðinni á hendur Kveldúlfi í blaðaskrifum og yfirleitt alstaðar, þar sem þessar rógstungur hafa verið að verki, er það, að reyna að telja mönnum trú um, að félaginu hafi verið illa stjórnað og því eigi að jafna það við jörðu. Eftir þeim kunnugleik, sem ég hefi á þeim mönnum, sem að Kveldúlfi standa, þá veit ég það, að þeim er lítið um það gefið, að borið sé lof á þá. En það er heldur ekkert umfram það, að þeim sé unnað sannmælis, þótt sagt sé, að allt þetta tal um það, að Kveldúlfi hafi verið og sé illa stjórnað, er ósannindauppspuni einn og ekkert annað, því að sannleikurinn er sá, að því félagi hefir þvert á móti verið vel stjórnað. Nægir í því sambandi að benda á það, að félagið er í upphafi byggt upp á útgerð eins togara, sem keyptur var fyrir lánsfé. En það óx brátt og dafnaði, og það svo, að á þeim árum, sem annars voru fyrir hendi skilyrði til þess, að útgerð gæti borið sig og blómgazt hér á landi, þá tók þetta félag þeim risaframförum, að verða stærsta útgerðar- og fiskverzlunarfyrirtæki landsins, og hafði auk þess í mörg ár eigin skip í millilandasiglingum. Það er og gott dæmi þess, hve mikilsverður þáttur félagið hefir verið í atvinnulífi þjóðarinnar, að það hefir í 25 ár greitt í verkalaun milli 50 og 60 millj. kr. og 10 millj. kr. í skatta og útsvör á sama tíma. Þá ber það og ljósan vott um varfærni og hyggindi stjórnenda félagsins í afurðasölumálum, að árið 1919, þegar síldarútvegsmenn og síldarkaupmenn urðu fyrir mestu tjóni út af því, hvað þeir drógu lengi að selja síldina, þá var Kveldúlfur alveg sérstæður að því leyti, að hann var búinn að selja alla sína síld, áður en verðið féll. Kveldúlfur rak þennan áhættusama atvinnuveg síldarútgerðina, í 14 ár, án þess að verða nokkru sinni fyrir tapi. Þá voru og stjórnendur Kveldúlfs á þessum árum í fararbroddi um ýmsa nýbreytni í fiskverkun og fisksölu. Fyrstir Íslendinga urðu þeir til að reka síldarbræðslu. Þá urðu þeir fyrstir eða með þeim fyrstu til að taka upp húsþurrkun á fiski. Einnig urðu þeir fyrstir til að verka fisk fyrir Barcelonamarkað, en með þeirri verkunaraðferð fékkst 5–10 kr. meira fyrir hvert skippund fiskjar en ella. Það voru stjórnendur Kveldúlfs, sem urðu fyrstir þess hérlendra manna, að koma á sölu á fiski í Suður-Ameríku, sem féll að vísu aftur niður á tímabili sökum greiðslutregðu þar, en hefir nú verið endurreist af Sölusamlagi ísl. fiskframleiðanda. Fyrstu tilraunirnar hér á landi með hraðfrystingu fiskjar voru gerðar af Kveldúlfi og sölutilraunir með hann á erlendum markaði. Varði Kveldúlfur stórfé í þessar tilraunir, því að stjórnendur félagsins hafa frá öndverðu haft þá trú, að með þessum hætti væri opnuð leið til mikillar og hagkvæmrar fisksölu. Þegar harðnaði í ári fyrir útgerðinni, urðu þeir að draga saman seglin með þessar kostnaðarsömu tilraunir, en reynslan er alltaf að sýna það betur og betur, að þarna voru þeir á réttri leið. Nú er unnið að því af miklu kappi, að koma upp hraðfrystihúsum og vinna markaði fyrir fiskinn. Þá hefir Kveldúlfur sent út menn til að læra mál og nema háttu viðskiptaþjóðanna til fyrirgreiðslu við fisksöluna. Kveldúlfur var um mörg ár langstærsti fiskútflytjandi hér á landi og naut mikils trausts í því efni, þar á meðal S. Í. S., sem fól honum í fjöldamörg ár sölu á öllum fiski sambands kaupfélaganna. Sambúð stjórnenda Kveldúlfs og verkafólksins hefir frá því fyrsta verið hin bezta, enda er fjöldi af sama fólki ár eftir ár í þjónustu félagsins. Sýnir bezt álit ríkisstjórnarinnar á stjórnendum Kveldúlfs, að einn þeirra hefir verið valinn til að taka þátt í flestum milliríkjasamningum undanfarin ár.

Mér hefir nú þótt ekki einasta rétt, heldur sjálfsagt að láta þetta, sem ég nú hefi sagt um starfsemi Kveldúlfs, koma hér fram í þessum umr., því að í sannleika sagt hefir þýðing og gildi þessa félags fyrir ísl. atvinnulíf verið allt annað og meira en svo, að það verðskuldi ekkert annað en róg og níð og hverskonar svívirðingar. Og það verð ég að segja, að það kemur sannarlega úr hörðustu átt, að fyrir þessari rógs- og niðurrifsherferð skuli standa þeir menn, sem eru að reyna að telja sjálfum sér og öðrum trú um, að þeir séu velunnarar og forsvarsmenn verkalýðsins í landinu.

Þó að hagur Kveldúlfs hafi þrengzt stórum og þar orðið örðugleikar sökum stórtapa á útgerðinni, þá er það síður en svo, að þetta sé nokkurt einsdæmi með Kveldúlf. Þannig er þessu og farið með önnur togarafélög, togaraútgerðina í heild, og þá ekki síður aðra útgerð, eins og ég hefi áður lýst. Þetta er sorgarsaga útgerðarinnar hér á landi hin síðustu ár. En að ætla sér að kveða upp þann áfellisdóm yfir þeim, sem fyrir útgerðinni standa, að þeir séu óhæfir í þessari stöðu, þótt svona hafi farið, það nær vitanlega engri átt; það er bull og vitleysa.

Það er töluvert eftirtektarvert í fari þeirra eigenda Kveldúlfs, hvernig þeir snúast við þeirri auknu skuldasöfnun, sem leiðir af rekstrartapi útgerðarinnar; þá bjóða þeir fram sem viðbótartryggingu fyrir hinum auknu skuldum allar eignir föður þeirra. Þetta er ljós og órækur vottur um ábyrgðartilfinningu þeirra gagnvart lánveitendunum, og hér fara þeir mjög ólíkt að og sagt er, að þm. Ísaf., Finnur Jónsson, hafi ætlað að gera, þegar hann sá, að það fór að halla undan fæti hjá samvinnufélagi Ísfirðinga. Það er sagt, að hann hafi ætlað að smeygja af sér beizlinu, en það sé vafasamt, hvort það hefir tekizt. En söm var hans gerð.

Þær ástæður, sem niðurrifsmennirnir bera fram og fóðra herferð sína á hendur Kveldúlfi með, eru upplognar frá rótum og einkisvirði. Hinar raunverulegu ástæður fyrir þessari niðurrifsherferð eru allt aðrar. Þær reyna þeir að vísu að dylja, en það er tilgangslaust.

Ástæðurnar eru tvær:

Eins og ég gat um áðan, beitti hv. þm. Ísaf., Finnur Jónsson, sér fyrir því á Alþingi, að ekkert skyldi gert, er togaraútgerðinni mætti að haldi koma. Nýjar og nýjar skattaálögur voru það, sem henni henti bezt. Þetta var allt að yfirlögðu ráði gert. Sósíalistarnir vilja allan einkarekstur feigan. Þeir vilja þjóðnýta hvern kopp og hverja kyrnu. Togarana fyrst og fremst. Þess vegna var það fangaráð, að þjarma að útgerðinni. Reyna að ganga af útgerðarmönnunum dauðum. Það gerði hægara fyrir um að koma ríkisrekstri á togarana. Ráðast fyrst á stærsta vígið. Þegar það var unnið, þá var hægara um vik síðar með það, sem minna var, en allt skyldi það fara sömu leiðina.

Þetta er nú önnur ástæðan.

En auk þessa þurftu niðurrifsmennirnir að beina skeytum sínum að þm. G.-K., Ólafi Thors, af öðrum ástæðum, sem sé þeim, að hann er nú Ólafur Thors, og svo af því, að hann er formaður Sjálfstfl. Þessar ástæður eru runnar af pólitískum rótum eingöngu — að ryðja braut ríkisrekstri togara og von um að geta gert Sjálfstfl. óleik.

Þetta er hin ástæðan.

Þá er að lokum rétt að athuga, hvaða menn það eru hér á Alþingi, sem standa fyrir þessari rógs- og niðurrifsherferð á útgerðarfyrirtækið Kveldúlf. Þar er í fararbroddi 2. þm. Reykv., Héðinn Valdimarsson, stólfótahertoginn frá 9. nóvember hérna um árið. Hvað hefir hann nú gert fyrir útgerðina? Hefir hann bætt fé sínu í útgerð til þess að afla lifibrauðs fyrir fólkið? Það fer víst lítið fyrir því. Hefir hann þá ekkert gert fyrir útgerðina? Jú. Hann hefir leigt sig erlendu okurfélagi til þess að mergsjúga vélbátaútgerðina með olíuokrinu. Skjólstæðingar hans og taglhnýtingar þora ekki opinberlega að bera blak af honum. Skipuð nefnd. Stakk henni svefnþorn — svaraði með nýrri hækkun á olíuverðinu. Þetta eru nú afrek hans í þarfir útgerðarinnar og þess mikla fjölda manna, sem á líf sitt og afkomu undir henni. Annar í röðinni er þm. Hafnf., Emil Jónsson. Hann hefir nú verið í þeirri aðstöðu í nokkur ár, að hann hefði átt að geta sýnt yfirburði bæjarútgerðarinnar á togurum fram yfir einkaútgerð. Hver er svo munurinn? Gulu seðlarnir eru máske órækasta dæmið, og svo það, að Emil Jónsson er sjálfur að leika hlutverk rottunnar, sem flýr hið sökkvandi skip. Þriðji í röðinni er 6. landsk., Jónas Guðmundsson. Hans reynsla af bæjarútgerðinni á togaranum í Neskaupstað er nú ekki eins löng og reynsla flokksbróður hans í Hafnarfirði, en þó máske nógu löng til þess að færa honum heim sanninn um það, að það er hægara að dæma aðra fyrir ónytjungshátt í þessum efnum en að sanna það með bættri rekstrarafkomu undir bæjarútgerðarfyrirtæki. En Jónas Guðmundsson hefir verksmiðjurekstur umfram Emil. Hann flytur nú frv. um, að ríkið taki að sér greiðslu á 60 þús. kr. af láni, sem á verksmiðjunni hvíli, auk vaxtagreiðslu af því sem eftir er. Fjórði er þm. Ísaf., Finnur Jónsson. Hann er nú fyrirmynd allra fyrirmynda í útgerð og síldarsölu og svo því, að banna mönnum að veiða síld. Hann brýzt nú fastast um, næst stólfótahertoganum, í bjástrinu við að koma Kveldúlfi fyrir kattarnef, gera hann gjaldþrota. Sjálfur er þm. Ísaf., Finnur Jónsson, nýbúinn að fá uppgerð í skuldaskilasjóði fyrir sitt útgerðarfélag, þannig að hann hefir fengið 38500 kr. eftirgefnar og afskrifaðar af skuldum félagsins. Svo getur maður haldið áfram að telja liðið alla leið að hinum væntanlega guðfræðidósent, Sigurði Einarssyni, 9. landsk.

Ég hefi nú dregið upp dálitla mynd af þeirri bardagaaðferð, sem hér er viðhöfð, og sýnt fram á, hver er tilgangurinn með þessu alveg einstaka tiltæki. Það er nú sýnt, að sá stjórnmálaflokkur á Alþingi, sem að undanförnu hefir látið sósíalistana teygja sig langt úr hófi fram til fylgilags við sínar þjóðnýtingar- og ánauðaroksstefnur, ætlar nú að veita viðnám í þessu máli og spyrna fótum við þessari óhæfu, og er það vel farið.