24.03.1937
Neðri deild: 26. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 150 í C-deild Alþingistíðinda. (1377)

82. mál, skiptameðferð á búi h/f Kveldúlfs

*Hannes Jónsson:

Herra forseti! Það er áberandi við þessar umr., hvað stóru flokkarnir leggja mikið kapp á að átelja hver annan fyrir það mikla tap, sem orðið hefir í atvinnurekstri þjóðarinnar. Jafnaðarmenn átelja sjálfstæðismenn fyrir það tap, sem hefir orðið í einstaklingsrekstri, en sjálfstæðismenn átelja aftur jafnaðarmenn fyrir það tap, sem hefir orðið í samvinnuútgerð á Ísafirði og togaraútgerð í Hafnarfirði. Þessir flokkar hafa að því leyti alveg rétt fyrir sér, að atvinnuvegirnir hafa verið að tapa. En það hefir verið nær ómögulegt að aftra því, með hvaða fyrirkomulagi sem var, að slík töp kæmu fram. Og að því leyti hafa þessir flokkar rangt fyrir sér, þegar þeir gefa í skyn, að fyrirkomulagið hjá hverjum fyrir sig sé það, sem orsaki tapið. Slíkt þarf að hverfa úr stjórnmálalífi okkar Íslendinga. Við verðum að taka á málunum með meiri alvöru, reyna að finna hinar raunverulegu orsakir fyrir þeim töpum, sem orðið hafa í atvinnurekstri okkar, og útrýma þeim. Það er það eina heilbrigða stjórnmálalíf, sem við getum verið þekktir fyrir að styðja.

Ég hefi vikið að gengismálinu í þessum umr., og ég hefi á undanförnum þingum vikið að því, hve geysileg áhrif það hefir haft á afkomu atvinnuveganna, hversu ranglátlega hefir verið farið með gengisskráninguna. En eins og allir vita, þá er gengisskráningin þannig framkvæmd um langt skeið, að krónan hefir verið látin fylgja enska pundinu, án tillits til, hvernig enska pundið breytti gildi gagnvart gullinu. Enska pundið hefir verið fallandi síðan 1931. Englendingar ætluðu sér að halda pundinu rólegu gagnvart gullinu. Og þeim tókst það um tíma. En smátt og smátt kom í ljós, að það var atvinnuvegum þeirra ofurefli, og þá hættu þeir óðara og skráðu það eftir afkomu atvinnuvega þjóðarinnar. Þetta var það eina rétta. Við höfum farið öðruvísi að. Við höfum aðeins hugsað um að láta krónuna halda sér gagnvart enska pundinu. En alveg eins og gullgildi var ekki réttmætt mat á pundinu, getur krónan heldur ekki verið rétt metin, að miða hana bara við pundið. Við verðum eins og aðrar þjóðir að haga skráningu okkar gengis í samræmi við þá aðbúð, sem atvinnuvegirnir verða að búa við. Í þessu gengismáli hafa smátt og smátt opnazt augu alþjóðar fyrir því, að ekki megi lengur við þetta ástand una. Sérstaklega er þetta áberandi hjá þeim, sem mestan hita og þunga bera af atvinnurekstri þjóðarinnar. Og síðastl. ár hafa komið fram mjög háværar raddir, meðal annars frá útgerðarmönnum, um það, að breyta gengi krónunnar, lækka hana, svo að atvinnuvegirnir geti borið sig. Samskonar krafa hefir einnig legið fyrir frá bændum landsins. Og annar stjórnarflokkurinn, Framsfl., hefir annað veifið látið skína í það, að hann væri því samþykkur, að á þessu sviði væri létt af atvinnurekendum þeim byrðum, sem ranglát skráning krónunnar skapar þeim. En þeir hafa ekkert aðhafzt í þessu máli fyrr en nú á allra síðustu stundu, að því er séð verður, eða a. m. k. eru miklar líkur til, að þeir muni hrökklast úr völdum. Og þá fyrst borin fram brtt. um, að fjmrh. sé heimilt — ekki að honum skuli það skylt — að fela þeirri n., sem ætlazt er til, að skipuð verði til að rannsaka löggjöf landsins um banka og sparisjóði, að taka til sérstakrar athugunar, hvernig verðskráning ísl. krónu verði bezt fyrir komið eða að slíkri n. skuli það heimilt. Þarna reynir hæstv. stj. að láta það vera sem allra tvíræðast, hvernig afstaða Framsfl. er gagnvart þessu máli. Þar sem aðeins er um heimild að ræða til að taka þetta mál til athugunar, þá má svo að segja ganga út frá því sem gefnu, að ef það samstarf, sem nú hefir staðið um stund milli Framsfl. og sósíalista, ætti að endurnýjast eftir nýjar kosningar, þá yrði n. ekki falið að gera neitt. Og þótt henni yrði falið að gera till. í þessu máli, þá myndi fara svipað og áður, þegar menn hafa verið skipaðir til slíkra starfa. Meðal annars er ekki dult farið með það í nál. Rauðku, sem kölluð er, að eina ráðið til viðreisnar sjávarútveginum sé leiðrétting á þessu ranga verðgildi krónunnar.

Annars er það að segja um málið, sem hér liggur fyrir, uppgjör Kveldúlfs, að það er nú augljóst orðið, að hér er ekki um neitt alvörumál að ræða. Það kom fram í ræðu hæstv. forsrh. áðan bending um það, að samstarfsflokkurinn mundi ekki vera á einu máli um afgreiðslu þessa máls. Og ég geri ráð fyrir, að honum sé nokkuð kunnugt um þær heimilisástæður, sem þar eru. Þetta fer líka saman við það, sem ég hefi áður haldið hér fram, að framkoma þessa frv. væri ekkert annað en skollaleikur, kærkomið tækifæri hjá þessum mönnum til þess að losna við ábyrgð á því, sem er að gerast í þjóðfélaginu, eða ef þeir tækju að sér að leiða þau mál til lykta, þá hefðu þeir 4 ár fyrir höndum, svo að ekki væri hægt við þeim að hrófla.

Afstaða Framsfl. er, eins og ég hefi bent á, alleinkennileg í þessu máli. Fram að þessum tíma hafa þeir haldið fram, að Kveldúlf ætti að gera upp, og enginn ærlegur maður léti hafa sig til þess að standa í vegi fyrir slíku uppgjöri. Hv. þm. S.-Þ. talaði í seinustu grein sinni meðal annars um það, að þetta æfintýri Jensenssona verði að enda eins og hið aldanska æfintýri Landmandsbankans, en það endaði, eins og allir vita, á þann hátt, að aðalbankastjórinn skaut sig, og aðrir bankastjórar og bankaráðsmennirnir voru dæmdir til hegningar. Hvort þessum orðum formannsins er beint til bankastjóranna og formanns bankaráðs, sem sýnist standa næst, eða einhverra annara, þá skiptir það út af fyrir sig ekki miklu máli, en þau sýna aðeins, hversu ríka áherzlu hann leggur á það, að Kveldúlfur verði gerður upp. Og mér sýnist, að það sé augljóst, eftir það sem fram er komið af hálfu stjórnarflokkanna, að þetta er aðeins leikur einn, — leikur, sem aðeins ábyrgðarlausir stjórnmálaskúmar geta leyft sér að heyja. Ef þjóðin er ekki búin að fá nóg af óstjórn og siðspillingu ráðandi meiri hl., þá ætti meðferð þessa máls að verða nægileg til þess, að hún veitti þeim hvíld og fæli öðrum að fara með stjórn landsins.

Ég mun fylgja þessu máli til n., því að ég treysti því, að við meðferð þess í n. komist menn enn betur að, hvernig ástatt er um fjárhagsafkomu atvinnuveganna, og að nauðsynlegar ráðstafanir verði að gera til að ráða þar bót á. En að öðru leyti mun ég ekki leggja lið til, að þessum skollaleik um þetta mál verði haldið áfram hér á Alþingi.

1378

Forseti (JörB): Við þriðju umferð verður jafnað ræðutíma milli flokkanna. Alþfl. hefir hingað til notað 57 mín., Sjálfstfl. 63 mín., Framsfl. 58 mín. og Bændafl. 58 mín. Flokkarnir hafa því yfir að ráða í næstu umferð: Alþfl. 18 mín., Sjálfstfl. 12 mín., Framsfl. 17 mín. og Bændafl. 17 mín.