24.03.1937
Neðri deild: 26. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 152 í C-deild Alþingistíðinda. (1379)

82. mál, skiptameðferð á búi h/f Kveldúlfs

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Herra forseti! Góðir tilheyrendur! Út af ræðu hæstv. forsrh. rétt áðan vildi ég segja það eitt, að það verður náttúrlega að fara sem fara vill um það, hvort skammt eða langt verður til kosninga. En ég þóttist kenna það á mæli hæstv. ráðh., að hann væri farinn að fá glímskjálfta nokkurn og kosningahroll. Honum varð tíðrætt um einhverjar kosningabombur af hálfu Alþfl. Hann getur a. m. k. huggað sig við það, að hann hefir ekki lagt til lítið af innmatnum í þær bombur. — Þá talaði hæstv. ráðh. um samkomulagið og sambúðina innan Alþfl. Vil ég gefa honum eitt gott ráð, og það er að hugsa um sín heimkynni og sitt heimili. Við í Alþfl. munum sjálfir gera út um sambúð og samvinnu þar.

Hann sagði í sambandi við það frv., sem hér er um að ræða, að ekki mundi Héðinn hafa slegið hendi á móti þeirri milljón, sem hér er í boði. Hygg ég svo, ef um milljón var að ræða. En ég býst við, að hæstv. forsrh. myndi ekki hafa verið fús til að gjalda eina milljón króna fyrir það, sem hér var í boði. Annað gefur ræða hans mér ekki tilefni til að taka fram, og ekki heldur ræða hv. þm. V.-Húnv., sem síðast talaði. Líkræðustúfurinn, sem hv. þm. Borgf. flutti yfir Kveldúlfi, líktist gamaldags líkræðu og gefur ekki sérstakt tilefni til andsvara, ekki heldur óhróðurinn, sem hann bar á flm. frv.

Því hefir verið haldið fram, ég ætla af tveimur mönnum í umræðunum, hv. þm. G.-K. og hæstv. fjmrh., að nú þegar væri búið að veita eða lofa byggingarleyfi fyrir verksmiðju á Hjalteyri. Þetta er fullkomið ranghermi, og er báðum kunnugt, að svo er. Kveldúlfi var lofað byggingarleyfi fyrir síldarverksmiðju á Hjalteyri, ef tilskilin gögn og skilríki væru fyrir hendi 28. febr. síðastl. En það reyndist ekki. En nú nýlega tjáði félagið, að skilríkin væru fyrir hendi og gæti það lagt þau fram. Þá var fram komið á þingi frv. um skiptameðferð Kveldúlfs, og svar mitt til félagsins var það, að meðan ekki væri ráðið um framtíð félagsins, sæi rn. ekki ástæðu til að taka tillit til beiðninnar. Og leyfið hefir ekki verið veitt.

Hv. þm. G.-K. heldur því fram í andmælum sínum, að um pólitíska ofsókn sé að ræða, sem sé algerlega án tilefnis, að því er snertir fjárhagsafkomu í rekstri Kveldúlfs, — félagið eigi vel fyrir skuldum, það bjóði nýjar stórtryggingar fyrir skuldunum, þrátt fyrir það þótt nægilegar eignir séu til fyrir þeim; yfirleitt sé starfsemin með mesta myndarskap og í ágætu lagi. Hverjum þykir sinn fugl fagur, og get ég skilið þessi orð af hálfu hv. þm. sem eins af eigendunum. Til samanburðar hefir hann svo tekið samvinnufélag Ísfirðinga og bæjarútgerð Hafnfirðinga, sem séu glögg dæmi þess, hversu takist stjórnin, þegar aulabárðar, sem enga „sérþekkingu“ hafa, eru að fást við útgerð; þar fer allt norður og niður, ef það er ekki farið það fyrir löngu. Hann sagði, að samvinnufélag Ísfirðinga hefði fengið eftirgefið af skuldum yfir 390 þús. kr., og útgerðin í Hafnarfirði skuldaði 500 þús. kr. á togara, hefði tapað 600 þús. kr. og eigi ekki fyrir skuldum. Hvað er nú sannleikurinn í þessu? Samvinnufélag Ísfirðinga fékk við skuldaskil ekki eftirgjöf á 397 þús. kr., heldur 378 þús. kr. En af þessum 378 þús. voru 84 þús. kr. framlög frá félagsmönnum sjálfum. Eftirgjafir voru því ekki nema 294 þús. kr., að meðreiknuðum vöxtum, eða ? af því, sem Kveldúlfur, sem ekki hefir getað greitt vexti af skuldum sínum, hefir lánað Thorsbræðrum, sjálfum eigendunum. Af þessum 294 þús., sem skorti á, að samvinnufélagið greiddi að fullu skuldir sínar, ásamt öllum vöxtum, voru 118 þús. krónur skulda við Ísafjarðarkaupstað, sem að langmestu leyti var hluti af leigu eftir fasteignir, sem vafasamt er, hvað annars hefðu gefið af sér. Þar sem allt atvinnulíf á Ísafirði hrundi í rústir undir stjórn sjálfstæðismanna, þá varð að koma þar upp nýjum atvinnufyrirtækjum, til þess að fólkið gæti lifað.

Ég hygg, að samanburður við þetta félag sé ekki Kveldúlfi í vil, þegar þess er gætt, að Kveldúlfur sat að gróða veltiáranna, þegar samvinnufélagið hóf starfsemi, og var að dómi hv. þm. G.-K. stórauðugt félag á árunum 1924–'28, og allt var rekið með „sérþekkingu“ og hinum mesta „myndarskap“ og „manndómi“. En samvinnufélag Ísfirðinga byrjaði á þeim tíma, þegar erfiðleikar útgerðarinnar voru að byrja að marki. Þegar skuldirnar tóku fyrir alvöru að hlaðast á Kveldúlf, þá var samvinnufélag Ísfirðinga stofnað og með allt í skuld. Bátar félagsins, sjö að tölu, kostuðu um 420 þús. kr. auk allra annara nauðsynja til útgerðarinnar. Þær 176 þús. kr., sem lánardrottnar samvinnufélagsins, aðrir en Ísafjarðarkaupstaður, hafa tapað á félaginu, virðast vaxa hv. þm. G.-K. mjög í augum. Þetta er þó tap sjö báta í níu ár. Hygg ég, að hv. þm. G.-K. myndi þykja hagur Kveldúlfs góður, ef tapið hefði ekki numið meira að tiltölu á skipum Kveldúlfs þessi ár, úr því að honum finnst nú svo smátt til um skuldasúpu Kveldúlfs, svo mikil sem hún er og miklu hærri að tiltölu en hjá þessu félagi.

Um bæjarútgerð Hafnarfjarðar er það að segja, að togarar hennar voru keyptir á árunum 1931–'34 og hafa því starfað eingöngu á mestu erfiðleikaárum útgerðarinnar. Þar er skuldin nokkuð yfir 900 þús. kr. eða um 470 þús. kr. á togara. Tilsvarandi skuld hjá Kveldúlfi með sína sjö togara væri, eftir því sem mér reiknast, 3,2–3,3 millj. kr. Hygg ég, að það félag myndi einnig í því tilfelli þykjast vel stætt, ef skuldir þess væru ekki meiri en það, að viðbættu verði annara arðberandi eigna þess, svo sem Hesteyrarverksmiðjunnar. Það er grunur minn, að skuldir félagsins séu talsvert á þriðju milljón umfram þessa upphæð. Tap bæjarútgerðarinnar í Hafnarfirði sagði hv. þm., að hefði orðið 600 þús. kr. En þetta er ekki rétt. Þetta voru hin allra verstu ár útgerðarinnar, eins og ég hefi þegar tekið fram, og félag þetta, sem byrjaði eingöngu með lánsfé, tapaði í allt á þessum tveimur skipum 285 þús. kr. Ég hygg, að framkvæmdastjórar Kveldúlfs þættust stjórna með myndarskap sínu fyrirtæki, ef tapið hefði ekki verið meira á skip þeirra á þessum árum. Ég hygg þessi samanburður verði greinilega óhagstæður fyrir Kveldúlf, en ekki fyrir þá, sem hv. þm. G.-K. ber Kveldúlf saman við. Um laun forstjóra bæjarútgerðar Hafnarfjarðar er það að segja, að þau eru aðeins 6 þús. kr. á ári og ekkert þar fram yfir. Stjórn bæjarútgerðarinnar tekur engin sérstök laun.

Hv. þm. G.-K. hefir allmjög kvartað yfir því, að Kveldúlfur hafi verið rægður og affluttur af blöðum og fleirum undanfarið. En mig minnir nú, að stundum hafi sungið eitt og annað í blöðum „Íhaldsflokksins“ um bæjarútgerðina í Hafnarfirði og samvinnuútgerðina á Ísafirði. Hafa slík skrif a. m. k. ekki orðið til þess að styrkja kredit þessara fyrirtækja (nema kannske hjá þeim, sem taka ekkert mark á þessum blöðum). Það er víst, að starfsemi þessi, sem var neyðarráðstöfun, eftir að íhaldið var búið að leggja allt atvinnulíf í rústir, hefir verið rógborin meir en nokkur önnur fyrirtæki. En þessi félög hafa birt sína reikninga og ekki getað leynt þeim, eins og Kveldúlfur felur sína reikninga.

Þá hefir Ólafur Thors og fleiri viljað gera samanburð á skuldaskilauppgerð bænda og smáútgerðarmanna annarsvegar og því, ef Kveldúlfur væri tekinn til skiptameðferðar, hinsvegar. Annarsvegar er um að ræða að hjálpa þúsundum manna til þess að balda starfstækjum sínum, svo að þeir geti haldið áfram að skapa sér og sínum atvinnu. Ef atvinnutækin væru af þeim tekin, væri hvergi bjargar að leita fyrir þá, og væri það hin mesti hnekkir fyrir þjóðfélagið í heild. Því voru þessar kreppuráðstafanir gerðar, og það var rétt að gera þær. Um togaraútgerðina gegnir allt öðru máli. Það er ekki minnsta ástæða til að gera slíkar ráðstafanir til þess að tryggja atvinnumöguleika Thorsbræðra, til dæmis að taka. Þetta eru svo vel gefnir menn og prýðilega undir lífið búnir, að þeim ætti engin skotaskuld að verða úr því, að vinna sæmilega fyrir sér og sínum. Það, sem mest á ríður, er, að ekki truflist rekstur atvinnufyrirtækjanna, svo að fólkið, sem við þau vinnur, geti unnið fyrir sér. Það á að tryggja. Ég er reiðubúinn að taka upp samvinnu við hvern sem er um að veita togaraútgerðinni sem slíkri þá hjálp og fjárhagslega hreinsun, sem nauðsynlegt er, til þess hún komist á heilbrigðan grundvöll. En það á ekki að gera með því, að gefa núverandi eigendum togaranna allt að 5 milljónum, eins og gert var ráð fyrir í skuldaskilafrv. Sjálfstfl. Það er ekki þjóðfélagsleg nauðsyn, að Kveldúlfur og Alliance reki skipin, heldur er það þjóðfélagsleg nauðsyn, að skipin séu rekin til hagsbóta fyrir almenning, en ekki látin liggja við hafnargarðinn, þegar eigendunum þóknast. Ólafur Thors talaði um, að atvinnuvonir mörg hundruð eða jafnvel þúsund manna væru bundnar við það, að Kveldúlfi verði leyft að starfa, og fleiri hafa rætt um, hvað verkalýðurinn ætti Kveldúlfi mikið að þakka fyrir það, hvað hann hefði veitt mikla atvinnu. Þetta gefur mér tilefni til nokkurra athugana. Ég hefi hér skýrslu um úthaldsdaga Kveldúlfstogaranna á saltfisk, ísfisk og síld árið 1936. Samkvæmt henni virðast þessir 7 togarar hafa gengið samtals 1212 daga á árinu, eða til uppjafnaðar 173½ veiðidagur á hvert skip. Ég tek önnur 7 skip úr togaraflotanum, ekki þau hæstu, en þau, sem eru þó með þeim hærri. Þessi 7 skip hafa samtals 1920 úthaldsdaga, eða meira en hundrað veiðidögum fleira á hvert skip heldur en Kveldúlfstogararnir. Þessum skipum hefir þannig verið til jafnaðar haldið úti 3? mánuði lengur yfir árið heldur en Kveldúlfstogurunum. Ég veit, að þeir, sem til þekkja, vita það, að afkoma þessara skipa hefir ekki verið verri heldur en Kveldúlfstogaranna, heldur sennilega heldur betri. Þetta sýnir, hvað mikil áherzla hefir verið á það lögð af þessu félagi, að halda uppi sem mestri atvinnu fyrir verkalýðinn.

Ég átti von á, að Ólafur Thors mundi gera grein fyrir fjárhag Kveldúlfs. En í stað þess tók hann þann kostinn, að skamma Héðinn Valdimarsson fyrir olíuokur og stirt skaplyndi, sem raunar er engin ný bóla. Hitt voru mér meiri vonbrigði, að hæstv. fjmrh. skyldi líka skjóta sér undan þessu. Hvorugur þessara manna mælti á móti þeim upplýsingum, sem Héðinn Valdimarsson gaf um skuldir Kveldúlfs, né því, sem um þetta segir í grg. frv. Má þess vegna ganga út frá, að skuldir Kveldúlfs séu ekki undir 5½ millj. króna nú. Þrátt fyrir þessa geysilegu skuld, sem nú er ráðgert að auka enn um eina til 1½ millj., eru andmælendur frv. á einu máli um, að óeðlilegt sé og ótækt, að hið opinbera, ríkisvaldið, hafi afskipti af þessu máli. Þeir segja, að þetta sé mál bankanna; þeir eigi einir að gera út um það, því að þeir hafi til þess mesta þekkingu og bezta aðstöðu, enda eigi þeir líka mest á hættu. Ég skal játa, að hér er um nokkuð óvenjulega leið að ræða, en hér er einnig um óvenjulegt fyrirbrigði að ræða, þar sem Kveldúlfur er. Það er ákveðið í landslögum, að ríkissjóður megi ekki skulda Landsbankanum meira en 1200000 kr. En það er víst, að Kveldúlfur skuldar Landsbankanum þrefalda eða fjórfalda þessa upphæð. Og einmitt einn af forstjórum Kveldúlfs er í bankaráði Landsbankans, settur þar af Sjálfstfl. Það má ekki heldur horfa eingöngu á erlendar venjur í þessu efni, því að þar eru bankarnir yfirleitt einkaeign og hætta því sínu eigin fé. Hér eru aftur á móti bankarnir að mestu leyti ríkiseign, og ríkið ber ábyrgð á öllum fjárreiðum þeirra. Þess vegna er eðlilegt og sjálfsagt, að ef hinu opinbera finnst of gálauslega farið af bönkunum, þá noti það vald sitt til þess að taka í taumana, ekki sízt þegar þess er gætt, að þjóðin hefir nú þegar fengið að kenna á því, hvernig það gefst, að láta stóru skuldunautana stjórna bönkunum og svo aftur bankana að miklu leyti fjárhagsafkomu landsins. Það hefir oft verið talað um það, að ríkisskuldirnar væru orðnar þungbærar, og það með réttu, þar sem komnar eru hátt á þriðju milljón kr. árlegar greiðslur vaxta og afborgana. Það er því ekki úr vegi að athuga, hvernig allar þessar skuldir eru til komnar.

Árið 1921 var tekið lán í Englandi, 500 þús. sterlingspund, sem með núverandi gengi nemur um 11 millj. ísl. kr. Þar af fékk Landsbankinn 1960 þús. kr. og Íslandsbanki 6180 þús. kr., samtals 8140 þús. kr. Eftir var handa ríkissjóði 2860 þús. kr. Árið 1930 var svo aftur tekið lán í Englandi, að upphæð 540 þús. sterlingspund + 70 þús. sterlingspunda smálán, eða um 12 millj. ísl. kr. Af því fór til Búnaðarbankans 3600 þús. kr., Landsbankans 300 þús. kr. og til Útvegsbankans 1500 þús. kr., eða samtals til bankanna 8100 þús. kr. Hlutur ríkissjóðs nam þannig 3900 þús. Loks var enn tekið 500 þús. sterlingspunda lán í Englandi árið 1935, og af því fóru 3500 þús. kr. til Útvegsbankans upp í lán, sem ríkissjóður stóð í ábyrgð fyrir. Auk þessa voru á árunum 1926–'27 tekin 6½ millj. kr. lán í Danmörku til kaupa á bankavaxtabréfum, sem vegna fjárskorts bankanna þurfti að kaupa. Alls hefir ríkissjóður lagt fram til bankanna sem stofnfé, lán og önnur framlög 27 millj. 590 þús. kr., auk þeirrar 6½ millj. kr., sem fór til kaupa á bankavaxtabréfum. Þetta fé hefir ríkissjóður látið úti næstum allt síðan 1921 og að langmestu leyti vegna þeirra tapa, sem bankarnir hafa orðið fyrir á viðskiptamönnum sínum. Til þess að sýna, á hverjum aðaltöpin hafa orðið, má benda á, að þegar Íslandsbanki fór á hausinn, skiptist tapið þannig samkvæmt mati:

Á 4 mönnum tapaðist yfir eina

millj. kr., samtals............................ 7,2 millj. kr.

Á öðrum fjórum mönnum tapaðist

500–1000 þús. kr., samtals............ 3 — —

Á 9 mönnum tapaðist 200–500

þús. kr., samtals.............................. 2,8 — —

Og á 7 mönnum tapaðist 100–200

þús. kr., samtals.............................. 1 — —

Alls tapaði Íslandsbanki þannig

á 24 mönnum………….................. 14 millj. kr.

En alls eru töp bankanna talin orðin um 35 millj. króna.

Þetta sýnir, að töpin hafa að langsamlega mestu leyti orðið á stærstu viðskiptamönnum þeirra — viðskiptamönnum, sem bankarnir hafa dregið von úr viti að gera upp í von um einhvern æfintýragróða þeim til bjargar eða af ótta við að láta töpin koma fram, þangað til þessir skuldunautar voru orðnir bönkunum sjálfum ofjarlar. Eitt slíkt fyrirbrigði virðist Kveldúlfur nú orðinn. Það lítur út fyrir, að bankarnir kveinki sér undan því leiðindaverki, að gera hann upp.

Það, sem Kveldúlfi er sérstaklega fundið til foráttu, er, að dregið hefir verið út úr atvinnurekstrinum stórfé, auk þess sem stjórn fyrirtækisins hefir verið óhæfilega dýr. Um þetta getur ekki farið tvennum sögum. Ólafur Thors hefir á Varðarfundinum 24. jan. metið Korpúlfsstaðaeignina með tilheyrandi verðmætum þannig:

Ræktað land......................................... 600–700 þús. kr.

Annað landverð jarðarinnar................. 400–600 — —

Hlöður og fjós...................................... 700 — — —

Gripir.................................................... 150–200 — —

Vélar og verkfæri................................. 100 —- — —

Mjólkurbú og mannaíbúðir.................. 200 — — —

Alls samkvæmt lægsta mati

hv. þm. ........................................... 2150 þús. kr.

Hvaðan hefir allt þetta fé verið tekið? Um það þarf ekki að spyrja. Það hefir vitanlega verið tekið úr Kveldúlfi, eins ½ milljónin í eftirlaun handa Thor Jensen, ½ milljónin, sem eigendurnir hafa lánað sjálfum sér, og það fé annað, sem þeir hafa tekið sér og sínum til afnota.

Ég sé að tími minn er búinn, og verð ég því að láta hér máli mínu lokið.