24.03.1937
Neðri deild: 26. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 157 í C-deild Alþingistíðinda. (1380)

82. mál, skiptameðferð á búi h/f Kveldúlfs

*Pétur Halldórsson:

Herra forseti! Hv. þdm. hafa nú hlýtt á umr. um þetta undarlega lagafrv. og mega vissulega teljast margs vísari af þeim. Þó er eitt, sem öðru fremur hefir orðið alveg ljóst af umr., og það er, að þetta frv. er flutt gersamlega að ófyrirsynju. Í fyrsta lagi er hér ekki um að ræða mál, sem getur eftir eðli sínu verið löggjafaratriði. Í öðru lagi liggur það ljóst fyrir, að þótt þessu væri ekki til að dreifa, þá er frv. þarflaust og fyrirfram dauðadæmt og ætti að takast út af dagskrá d., þar sem efni þess á ekki að neinu leyti við; það er tilefnislaust. Í þriðja lagi er það ljóst, að það er ekki tilgangur flm., að frv. verði gert að lögum. Það er framborið aðallega til þess að geta rutt úr sér fúkyrðum, og sá tilgangur er ekki heimill í sölum Alþingis. Það má segja, að það sé einstök misnotkun á tíma hv. d., að frv. er tekið til meðferðar. Það getur ekkert réttlætt þessa umr. annað en það, ef takast mætti að ljúka upp augum þeirra, sem sjá vilja, og eyrum þeirra, sem kunna að vilja heyra, fyrir ýmsu, sem nú er að gerast í þjóðlífinu og varðar alla landsmenn. Hvað er að gerast? Það er fyrst og fremst að gerast þetta, að þjóðin er, þrátt fyrir allar framfarirnar og vaxandi afskipti stjórnarvaldanna, sem hétu henni að sjá um velferð hennar með opinberum afskiptum og skipulagningu á öllum sviðum henni til hagsbóta, að verða fátækari og fátækari með hverju árinu sem líður. Henni líður ver með hverju árinu, sem líður frá því hin nýja stefna var upp tekin árið 1927. Hagur landsmanna og fyrirtækja þeirra versnar, og það svo ört síðustu árin, að það hlýtur að fara að valda hæstv. ríkisstj., Alþingi og öllum, sem vilja málefnum þjóðarinnar vel, hinni mestu áhyggju. Hver er hagur framleiðendanna í þessu landi? Hver er hagur bændanna? Þeir hafa barizt með þrautsegju við strit og áhyggjur, sem fara vaxandi ár frá ári, þar til svo var komið, að við sjálft lá, að mikill hluti bændastéttarinnar í landinu teldi baráttuna við erfiðleikana vonlausa. Og það er ekki nokkur vissa fyrir því, að sú hjálp, sem átti að veita bændum með kreppulöggjöfinni, komi að nokkru haldi. Hver er hagur útgerðarmannanna, hinna smærri? Þeir komust allflestir á vonarvöl undir verndarvæng þessarar skipulagningarstjórnar, og engar líkur virðast vera á því, að sú aðstoð, sem átti að veita þeim með l. um skuldaskilasjóð vélbátaeigenda, komi þeim að haldi, nema kannske rétt í bili.

Á allt þetta hefir þingmeirihlutinn hingað til horft með hinu mesta jafnaðargeði. Það vantar þó ekki, að það hafi verið bent á það á þessum árum, hvert stefnir, og margar tilraunir hafa verið gerðar til þess að benda ráðandi þingmeirihluta á, hvaða leiðir væru hugsanlegar úr þessum vanda. Nú á, að ráði sósíalista, ef þetta frv. nær fram að ganga, að svíkjast að þeim mönnum, sem staðið hafa undir þunganum af rekstri stærsta atvinnufyrirtækisins og glæsilegasta í landinu, og koma í veg fyrir, að þessi gróðurvænlegi vöxtur í atvinnulífi þjóðarinnar fái staðizt. Sósíalistarnir eru þó þeir menn í landinu, sem sízt hafa skeytt um eða krafizt þess, heldur miklu fremur staðið fastast gegn því, að atvinnufyrirtækin í landinu verði rekin með hagnaði. Ef það er nú vilji allra stjórnmálaflokka, eins og þetta bendir til, sem hér er að gerast, að nú verði tekin upp ný stefna og engum fyrirtækjum haldið uppi, sem ekki sýna hagnað, þá kann vel að vera, að hér sé rétt stefnt. En það skyldi enginn halda, að þessari kröfu verði fullnægt með því, að leggja stórfyrirtækin í landinu að velli. Ef einhver kann að halda þetta, þá er hann blindaður af vanþekkingu. Um það fyrirtæki, sem þessu frv. er stefnt að, er það á margra vitorði, að því hefir frá upphafi verið betur stjórnað en flestum slíkum fyrirtækjum í landinu. Þeir, sem því eru kunnugir, vita, að framkvæmdasamari, röskari og framsýnni forstaða hefir ekki þekkzt við stjórn fyrirtækis á þessu landi. Um þetta mætti nefna fjölda dæma, en þau eru svo almennt kunn, að þarflaust er að fara að rekja þau hér. Þetta fyrirtæki hefir stuðlað að almennri velmegun, ekki sízt hér í Reykjavík, um 25 ára skeið, og bæjarmönnum er vel kunnugt um það. Nú er því haldið fram, að ekki þurfi að óttast stöðvun á rekstri atvinnutækjanna vegna aðgerða þeirra, sem frv. fer fram á, að félagið verði með valdboði gert gjaldþrota. En þetta er hin argasta blekking. Það er örugglega víst, að ef það tekst, sem flm. þessa frv. hafa í huga, að stöðva fyrst útgerð Kveldúlfs og síðan annara stórútgerðarfyrirtækja í landinu, þá hverfa skip þessara fyrirtækja úr landi. Það fullyrði ég. Íslendingar munu þá ekki hafa af stórskipaútgerð til fiskveiða að segja fyrr en eftir langan tíma, jafnvel áratugi, þegar vesöld landsmanna og skortur hefir á ný kennt þeim að sameina vilja og krafta allra um það, að gera lífvænleg atvinnuskilyrði fyrir þessi tæki. En áður en að því kemur, að landsmenn hafa lært þetta að nýju, ef þeir hafa áður hrakið þennan atvinnurekstur úr landi, þá mun verða þröngt fyrir dyrum hjá mörgum í landinu, en þá fyrst og fremst í höfuðborginni, Reykjavík.

Ég veit, hvað Reykvíkingar segja um alla þessa herferð á hendur stórútgerð bæjarmanna. Ég þykist vita, að bæjarmönnum sé það öllum ljóst, að líf og velferð Reykjavíkurbæjar er að mjög verulegu leyti undir því komin, að hér verði hægt að halda áfram togaraútgerð. Og ég er viss um það, að allir þeir, sem unna velferð Reykjavíkurbæjar, hafa fundið til þeirrar alvöru fyrir bæjarfélagið, sem augljós varð, þegar svo var komið, að líf eða dauði helztu atvinnufyrirtækja bæjarbúa var að verða leiksoppur pólitískra loddara og fjandskaparmál geðofsamanns vegna pólitísks haturs hans á einum bæjarmanni. Þó að þetta tilræði við atvinnulíf bæjarins sé stöðvað nú, af því að ekki eru nægilega margir sem fórna vilja heill bæjarfélagsins að óþörfu, þá vita Reykvíkingar af þessu, að þeir eiga framvegis yfir höfði sér þá hættu, sem hér var afstýrt um sinn. Þeir vita, að allra bragða mun verða neytt til þess að leggja höfuðatvinnuveg bæjarbúa í rústir. Landsmenn, og þá sérstaklega Reykvíkingar, verða að gera sér það ljóst, að takmark nokkurs hluta þeirra stjórnmálamanna, sem hér ríkja og heima eiga í þessum bæ, er að kosta því til, sem kosta þarf, jafnvel þótt það kosti fátækt, armæðu og erfiðleika fyrir alla bæjarbúa, til að fella þær stoðir, sem nú standa sterkastar undir atvinnulífi Reykvíkinga. Eina vonin er sú, að Alþingi, sem hér ber stóra ábyrgð, sjái það, að ef Reykjavík fellur, þá er um leið ríkið sjálft fallið.