24.03.1937
Neðri deild: 26. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 159 í C-deild Alþingistíðinda. (1381)

82. mál, skiptameðferð á búi h/f Kveldúlfs

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég heyri, að menn eru almennt hættir að kenna þm. við kjördæmi sín samkvæmt þingsköpum, og mun ég því einnig nefna þá nöfnum sínum við þessa umr.

Hannes Jónsson hefir haldið hér tvær ræður. Fyrri ræðuna álít ég bæði honum sjálfum og flokki hans til hneisu, að því leyti sem nokkuð getur orðið þeim flokki til hneisu. Ég ætla að minna hann á, að það er ekki langt síðan Ólafur Thors lýsti með fögrum orðum, að það væri Sjálfstfl. og þar með Kveldúlfsmenn, sem ætti hann sem þm., af því að hann kom honum inn á Alþingi. Þessi hv. þm. er samkvæmt því sennilega eina eign Kveldúlfs, sem ekki er veðsett, og þannig eina eignin, sem þetta hlutafélag getur ráðstafað án íhlutunar annara.

Hv. 2. þm. Reykv. spurði hér áðan, hvort fjmrh. og dómsmrh. vildu bera ábyrgð á því, að Kveldúlfi yrði lánað áfram og engin ranasókn færi fram á rekstri þess fyrirtækis. Skildist mér hann í því sambandi gera ráð fyrir, að félagið sviki undan skatti. Ég verð að segja um þetta, að mér finnst nokkuð langt gengið, ef á að gera fyrirtæki upp aðeins til þess að geta komizt í bækur þess og litið eftir, hvort það hefir svikið undan skatti. Til þess er einfaldari leið, sem hv. þm. þekkir sem meðlimur í yfirskattanefnd Reykjavíkur. Honum ber að vaka yfir því, að ekki sé svikið undan skatti hér í bænum, og hafi hann rökstuddan grun í þessu efni, er skylda hans að senda kæru um það, og mun þá ekki verða á hana lagzt fremur en annað í því efni.

Það hefir verið vikið að afstöðu Jónasar Jónssonar í þessu máli, og vilja sumir telja þá niðurstöðu, sem fengin er í málinu í bili, í ósamræmi við skrif hans. Ég vil benda á það, að enginn einn maður í landinu hefir unnið eins mikið að því, að sukk Kveldúlfs er nú stöðvað, eins og einmitt Jónas Jónsson. Enginn einn maður hefir unnið eins mikið að því, að koma upp og koma í veg fyrir fjármálaóreiðu í landinu yfirleitt eins og hann. Hvað hefði verið sagt um Jónas Jónsson, ef hann hefði á sínum tíma unnið að því, að Gísli Johnsen, Sæmundur í Stykkishólmi og þeirra nótar fengju í friði að sitja eftir með stórar eignir, þegar fyrirtæki þeirra voru gerð upp, — eignir, sem þeir ella hefðu viljað bjóða fram upp í skuldir sínar? En það er einmitt þetta, sem þeir berjast nú fyrir, sem eru á móti afstöðu Framsfl. í þessu máli, að óreiðumönnunum sé leyft að komast undan með eignir, sem þeir hafa dregið út úr fyrirtækinu. Hvað mundi hafa verið sagt um Jónas Jónsson, ef hann hefði barizt slíkri baráttu fyrir þessa menn, sem hann er frægur fyrir afskipti sín af? En einmitt þessu eru þeir að berjast fyrir, sem eru á móti Framsókn í þessu máli, að óreiðumennirnir komist undan með þær eignir, sem þeir hafa ætlað sér að draga undan.

Þá hefir Alþfl. þótzt vera að bera kvíðboga fyrir því, að við værum ekki á línu flokksþingsins, sem haldið var í vetur, í þessu máli. Sannleikurinn er sá, að á flokksþingi Framsóknar voru engar samþykktir gerðar um þetta mál, en hinsvegar talsvert um það rætt, og þar kom fram einlægur vilji flokksmanna á því, að sukkið væri stöðvað. Ég lét þar svo um mælt, að ef haldið yrði áfram að lána Kveldúlfi án frekari trygginga, eða félaginu gefið eftir af skuldum þess, myndi Framsókn grípa til þingvalds síns til þess að stöðva óreiðuna. Þetta er alveg í samræmi við framkomu flokksins í málinu hér á þingi. og Alþfl. þarf engan kvíðboga að bera fyrir því, að við getum ekki gert kjósendum okkar full skil fyrir gerðum okkar í þessu máli. Enginn á flokksþingi Framsóknar mun hafa verið á þeirri skoðun, að rétt væri að leyfa Kveldúlfi að sleppa við eina milljón til þess eins, að hægt væri að gera hann upp nú þegar.

Hv. 1. landsk. og hæstv. atvmrh. sögðu, að við framsóknarmenn héldum okkur fast við einræði bankanna. Mín ræða gaf ekkert tilefni til slíkra ásakana. Ég sagði, að Alþingi ætti að hafa áhrif á stjórn bankanna gegnum fulltrúaval í bankaráð, en taldi hinsvegar ekki viðeigandi, að Alþingi sjálft færi beinlínis að taka að sér þau skuldaskipti, sem bönkunum ber að annast. Afstaða mín í þessu máli er því ekki sú, að ég álíti, að bankarnir eigi að hafa algert einræði yfir fjármálunum, heldur sú, að ég hefi ekki séð ástæðu til þess að beita valdi mínu gegn þessari lausn þessa máls, vegna þess að ég álít hana rétta. Hér liggur því alls ekki fyrir að fara að draga inn í umræðurnar ágreining um vald Alþingis og bankanna.

Hv. 1. landsk. sagði, að ýms fordæmi væru fyrir því, að Alþingi hefði gripið fram fyrir hendur bankanna í svipuðum tilfellum. Hann nefndi sem dæmi uppgjör Íslandsbanka og Síldareinkasölunnar. En hvorugt þetta dæmi er hliðstætt. Íslandsbanki hafði lokað; lánardrottnarnir biðu við dyrnar, og bankinn gat ekki opnað aftur án ríkishjálpar. Síldareinkasalan var stofnuð af Alþingi, og því var það réttur aðili til að gera hana upp, hvenær sem var. (SE: Hver hefir stofnað Landsbankann?) Alþingi hefir ekki stofnað Kveldúlf.

Hæstv. atvmrh. vék að þeim orðum mínum, að loforð hans um að veita Kveldúlfi leyfi til að reisa síldarverksmiðju á Hjalteyri samrýmdist ekki stefnu Alþfl. í þessu máli nú. En mér skilst það alveg augljóst, að ef Kveldúlfur er sú ófreskja 22. marz, að óhæfa sé að veita slíkt leyfi, þótt fé sé fyrir hendi, þá geti hann ekki hafa verið neitt betri 28. febr. Það ber því allt að sama brunni um, að það eru þjóðfélagslegar en ekki fjárhagslegar ástæður, sem ráða afstöðu Kveldúlfs í þessu máli.

Hæstv. atvmrh. gaf hæstv. forsrh. það ráð að skipta sér ekki af högum Alþfl. Við erum ekki vanir að njósna um hagi annara flokka eða skipta okkur af heimiliserjum þeirra. En þegar málgagn flokksins kallar okkur glæframenn og svikara, þá verður okkur varla láð, þótt við segjum frá þeim sannleika, að ýmsir beztu menn flokksins hafa verið okkur sammála í þessu máli.