24.03.1937
Neðri deild: 26. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 161 í C-deild Alþingistíðinda. (1382)

82. mál, skiptameðferð á búi h/f Kveldúlfs

*Hannes Jónsson:

Hæstv. fjmrh. minntist enn á kosningu mína í Vestur-Húnavatnssýslu, enda virðist sú kosning hafa farið svo á heilann á honum og samherjum hans, að þeir geta ekki um annað talað, þegar þeir eiga orðastað við mig. En ég get í þessu sambandi látið nægja að benda á það, að ég hefi undanfarið verið kosinn af meiri hluta kjósenda í kjördæmi mínu, af því að ég hefi fylgt þeirri stefnu, sem þeim hefir fallið betur í geð en stefna hæstv. fjmrh. og ég veit, að hann á enn eftir að reka sig á það. — Hæstv. fjmrh. sagði, að ég væri það eina, sem Kveldúlfur ætti nú eftir óveðsett. En ég held, að hæstv. fjmrh. ætti að tala sem minnst um veðsetningar, þar sem öllum er kunnugt, að hann er veðsettur upp fyrir haus, nema hvað kannske bláeyrun standa upp úr, svo að kommúnistar geti brugðið marki sínu á þau.

Hæstv. ráðh. svaraði engu orði því, sem ég sagði um ástand atvinnuveganna, né lét svo lítið að minnast á það, hvað hægt væri að gera til að kippa tveim aðalatvinnuvegum þjóðarinnar á heilbrigðan grundvöll. Hvílíkur fjmrh.! Hann veit nú að vísu, að hann er á förum úr sessi sínum fyrir fullt og allt. En í von um að finna náð fyrir augum sósíalista eftir kosningar, talar hann til þeirra í þessu máli eins og hann sé að biðja fyrirgefningar á því, að hann er til. Ég veit ekki, hversu líknsamir sósíalistar eru, en ég veit, að þeir fá ekki tækifæri til að sýna hæstv. fjmrh. þá linkind, að styðja hann eftir kosningar, hversu fegnir sem þeir vilja.

Um mat Pálma Einarssonar á eignum Kveldúlfs er það eitt að segja, að það er framkvæmt eftir beiðni bankastjórnarinnar, og hann mun bráðlega gera fulla grein fyrir áliti sínu. En það er full ástæða til þess að ætla, að mat hans sé ekki fjarri sanni, þegar miðað er við það, að hæstv. fjmrh. hefir sjálfur metið eina á, sem er eign Kveldúlfsbræðra, á 150 þús. kr.

Hæstv. atvmrh. hélt því fram, að sambærileg væru skuldaskil smábátaeigenda og bænda og uppgjör Kveldúlfs. Jú, það er rétt, að töp atvinnurekenda koma í ljós á báðum stöðunum, þótt Kveldúlfur verði auðvitað ekki gerður upp á sama hátt. En ég fæ ekki séð, að það verði fært bönkunum til ámælis, þótt þeir skirrist við að gera upp svo stór atvinnufyrirtæki sem Kveldúlfur er, ekki einungis vegna verkalýðsins í landinu, heldur einnig vegna hins erlenda gjaldeyris. Hann kvaðst vilja hjálpa rekstri togaranna í landinu, en ekki eigendum þeirra. Ég fæ ekki skilið, hvernig þetta má verða, nema hann vilji koma rekstri togaranna undir ríkið, enda mun sá vera tilgangurinn. Þess vegna halda sósíalistar og samherjar þeirra kreppunni við í landinu með ranglátri gengisskráningu, því að á annan hátt treysta þeir sér ekki til þess að sannfæra þjóðina um nauðsyn eða réttmæti ríkisrekstrar. Þess vegna róa þeir að því öllum árum að eyðileggja einstaklingsframtakið á þennan hátt.

Hún er annars harla skopleg sú afstaða stjórnarflokkanna, að bregða hvor öðrum um fylgi við Kveldúlf á kostnað þjóðarinnar. Auðvitað er þetta ekkert annað en skollaleikur til þess að villa fólki sýn og reyna að græða á honum við kosningarnar. En þjóðin mun skynja af slíkum aðferðum máttleysi og úrræðaleysi stjórnarflokkanna til þess að bjarga atvinnuvegunum frá algerðu hruni og fela öðrum að gera það.

Hæstv. forsrh. hélt því fram, að ef Sjálfstfl. kæmist til valda við næstu kosningar með stuðningi Bændafl., myndi afleiðingin verða sú, að Kveldúlfi yrði veittar stórkostlegar eftirgjafir á skuldum hans. En afstaða Bændafl. í þessu máli er sú, og engin önnur, að hann vill láta togaraútgerðina borga skuldir sínar og trúir því, að hún geti það. En hann vill, að þessum atvinnurekendum sem öðrum verði sköpuð skilyrði til þess að standa við skuldbindingar sínar, jafnframt því sem nýrri og aukinni framleiðslu verður gert kleift að þróast í landinu. Bændafl. lítur svo á, að auka þurfi atvinnureksturinn í hlutfalli við fjölgun fólksins, og þó heldur meira, til þess að bæta og jafna kjör fólksins í landinu. En nú hafa atvinnurekendum verið sköpuð þau kjör, að enganveginn helzt í horfinu, og því kjósa æ fleiri og fleiri þeirra að hverfa frá atvinnurekstri sínum og lifa á erfiði annara. Slíkt öfugstreymi hlýtur áður en langt um líður að leiða til algers hruns atvinnuveganna, sem ekki má verða og þarf ekki að verða, ef þjóðin grípur í taumana í tíma.