24.03.1937
Neðri deild: 26. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 163 í C-deild Alþingistíðinda. (1383)

82. mál, skiptameðferð á búi h/f Kveldúlfs

*Flm. (Héðinn Valdimarsson):

Ég vil fyrst víkja nokkrum orðum að ræðu hv. þm. G.-K. Hann reyndi að vísu ekki að svara mér neinum röksemdum, fremur en hans var von, en réðst á mig persónulega fyrir það, að ég hefði ekki vald á skapsmunum mínum, fyrir óhóf í einkalífi mínu o. s. frv. Það mun nú hafa komið fram í ræðum okkar, hvor beitti meiri fúkyrðum og sýndi meiri vanstillingu á skapsmununum, og ber ég það óhræddur undir almenning. Ég hefi enga tilhneigingu til þess að fara að bera saman einkalíf okkar, en vil aðeins varpa fram þeirri spurningu, að ef allt það fé, sem dregið hefir verið út úr Kveldúlfi til Kveldúlfsfjölskyldnanna, hefir ekki farið í óhóf — hvert hefir það þá farið? Ég sýndi fram á það, að fjárstraumurinn úr félaginu hefði runnið þangað jafnt og þétt öll árin, hvort sem félagið hefir grætt eða tapað. Þessar tölur verða birtar á prenti, og hreki hv. þm., ef hann treystir sér til.

Hv. þm. sagði, að ég hefði í yfirskattanefnd lagt á hlutafé félagsins og því talið það til eigna. Þetta er með öllu ósatt, því að ég taldi hlutaféð vera einskisvirði eins og nú. En benda má á það, að auk þeirra skulda Kveldúlfs, sem ég taldi upp, má telja allar þær ábyrgðir, sem Kveldúlfsbræður hafa gengið í fyrir pólitíska vini sína og velunnara, og dregið hafa stórfé út úr bönkunum.

Hv. þm. sagði að af uppgjöri Kveldúlfs hefði leitt stöðvun togaraflotans í vetur. Þetta er ekki annað en blekking, því að málið mátti afgreiða hér á þingi á 18 klukkustundum, og uppgjörið mátti framkvæma á örstuttum tíma, eins og bezt sást, er Íslandsbanki var gerður upp, af skilanefnd, sem ekki hafði dregið sér fé út úr fyrirtækinu.

Þá vil ég víkja nokkuð að þeim hæstv. forsrh. og fjmrh. Ég held, að þeim verði erfitt að sannfæra kjósendur sína eða aðra um það, að þeir hafi ekki tekið mál þetta vettlingatökum og að þeir séu hér að fylgja fram stefnu flokks síns. Þeir verja sig með því, að hér hafi náðst 1 millj. króna í viðbót að veði fyrir skuldum Kveldúlfs. En hvað er nú raunverulegt verð þessara veða? Enginn maður með fullu viti vill kaupa Korpúlfsstaði fyrir 940 þús. kr. Þar getur enginn rekið bú nema með miklu fjármagni, sem þá yrði að teljast tapað. Ég efast jafnvel um, að nokkur maður vildi taka við jörðinni, þótt honum væri gefin hún með áhvílandi skuldum. Og svo kemur hin mikla áhætta að lána fé fyrirtæki, sem allir vita, að tapað hefir síðan 1930 sem svarar andvirði eins nýtízkutogara á ári. Þetta er ranglæti gagnvart þeim mönnum, sem atvinnu hafa við togaraveiðar. Við höfum álitið, að ekki sé hægt að haga yfirstjórn fyrirtækisins eins og verið hefir, og að fyrst og fremst verði að koma Kveldúlfi á slíkan grundvöll, að reksturinn geti borið sig.

Hæstv. fjmrh. er kunnugt um, að ekki hefði stoðað að bera málið undir Landsbankann, því að sjálfstæðismennirnir hefðu getað neitað að mæta á fundum n. og gert alla fundi hennar ólögmæta, svo að ekki hefði verið önnur leið en að leggja út á löggjafarbrautina, ef ekki hefði verið gengið að tilboðinu. Ráðgjafar Framsóknar höfðu áður undirbúið, að það yrði gert og Kveldúlfur gerður upp, eins og Alþfl. hafði krafizt. En þeir runnu á því, hvað sem valdið hefir, og er það skoðun okkar, að þar hafi komið til greina innra samband, sem er til milli Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins.

Þá gaf hæstv. fjmrh. í skyn, að ég hefði talað um skattsvik Kveldúlfs eða framkvæmdastjóra hans. Ég hefi ekki minnzt á skattsvik. En ég sagði, að eftir tölum, sem menn hefðu getað komizt að um skattgreiðslur þeirra annarsvegar, en hlutabréfasölu og þvílíkt hinsvegar, hefði ekki verið hægt að láta þessu bera saman. Var því sjálfsagt að rannsaka, hvaðan fjárflótti sá stafar, sem orðið hefir.

En hæstv. fjmrh. veldur því, að þessu er ekki svo komið sem vera ætti, og er það því undarlegra, sem hann var áður skattstjóri og þekkti þessa reikninga og hafði tækifæri til að rannsaka þetta, eins og skylda hans var. Hann hefir enn tækifæri til þess.

Þá minntust þeir hæstv. fjmrh. og hv. þm. V.-Húnv. á kosningar. Við heyrum það nú hvarvetna af landinu, að Alþfl. hefir fylgi landslýðsins í þessu máli. Við höfum meira að segja heyrt, að margir framsóknarmenn og sjálfstæðismenn fylgi honum að þessum málum. Þjóðin fylgir stefnu Alþfl., sem er lýðræði í þessum málum, en ekki það ástand, að sambræðsla helztu manna framsóknar og sjálfstæðismanna ráði þar öllu.