24.03.1937
Neðri deild: 26. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 169 í C-deild Alþingistíðinda. (1386)

82. mál, skiptameðferð á búi h/f Kveldúlfs

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Út af síðustu ræðu hv. þm. G.-K. vil ég lýsa yfir því, að hann fór með algerlega rangt mál, og hv. þm. veit sjálfur, að hann sagði rangt frá. (ÓTh: Ég veit, að það er satt).

Það er eftirtektarvert, að á þeim sex klukkustundum, sem þessi mál hafa verið rædd hér, hafa engar tilraunir verið gerðar til að hrekja rök þau, er ég hafði fært fram fyrir því, að rétt hafi verið að láta sér lynda samninga bankans og Kveldúlfs.

Hv. 2. þm. Reykv. sagði, að ég hefði lagt til grundvallar mat Steingríms Steinþórssonar á eigum Thors Jensens, sem ekki væri miðað við rekstur og væri því of hátt. En Steingrímur Steinþórsson segist einmitt hafa metið Korpúlfsstaðabúið með hliðsjón af því, hvort líkur væru til, að það gæti svarað vöxtum af fé því, er í það hefir verið lagt, ef það sé rekið á hagfelldan hátt. Hann miðar því mat sitt við búrekstur. En ég tók það líka fram, að þetta væri allt miðað við núverandi mjólkurverð.

Hvernig sem þetta er togað til eða frá, er ekki hægt að mótmæla því, að ef gera hefði átt Kveldúlf upp, hefðu bankarnir orðið að neita tilboði, sem þeim var hagstætt.

Þá talaði hv. þm. um stefnubreytingu Framsfl. í þessu máli. Það er rangt, að hér sé um nokkra stefnubreytingu að ræða. Það hefir alltaf verið stefna flokksins, að stöðva sukk Kveldúlfs. En síðan það kom í ljós, að Thorsbræður vildu leggja að veði eignir föður síns, hefir alltaf verið gengið út frá því, að ganga yrði að slíku tilboði.

Hv. 2. þm. Reykv. sagði, að ég hefði haft tækifæri til að taka til athugunar skattamál Kveldúlfs, þegar ég var skattstjóri. Mér skildist það hafa átt að vera árin 1924 og '25, sem eitthvað hafi ekki verið hreint í pokahorninu hjá Kveldúlfi. Ég var ekki skattstjóri þá, heldur árin 1930–33. En ef hv. þm. álítur sig hafa ástæðu til þess, getur hann kært yfir þessu, og mun fjmrn. ekki leggjast á málið.

Ég get skilið, að hv. þm. G.-K. sé gramt í geði. Það er ekki ánægjulegt fyrir hann, að sannað hefir verið, að þeir Kveldúlfsmenn hafa verið hraktir þrep af þrepi og svo að síðustu algerlega króaðir inni. Ólafur Thors vildi gefa það í skyn, að ég og hæstv. forsrh. hefðum farið rangt með fyrra tilboðið, er þeir vildu láta eignir Thors Jensens upp í skuldir Kveldúlfs, þótt fyrir liggi sú staðreynd, að Landsbankinn átti að greiða um 2 millj. króna, og með þeim skilmálum átti Kveldúlfur að afhenda þessar eignir. Ég er ekkert hissa á því, þótt hv. þm. G.- K. þyki ekki gaman að láta hrekja sig þrep af þrepi af þessu tilboði, og verða að beygja sig undir þær kröfur, sem bankinn gerði, að þeir ekki einungis þurftu að láta allar þessar eignir að veði, heldur allar þær eignir, sem út úr fyrirtækinu höfðu verið dregnar. Það skiptir ekki einni heldur fleiri milljónum króna sá mismunur, sem er á þeirri lausn, sem Thorsbræður létu sér sæma að bjóða bönkunum, og þeirri lausn, sem Framsfl. knúði fram, og þótt Ólafur Thors sé ánægður með það, sem gerzt hefir, og sé ánægður með mismuninn á fyrsta og síðasta tilboðinu, þá vita allir, að það hefir orðið að rekja þetta mál skref fyrir skref til að ná þeirri niðurstöðu, sem nú er fengin. — Ólafur Thors vill láta líta svo út, að þetta fyrra tilboð hafi verið borið fram í gamni. Nei, því verður aldrei trúað, þótt einhverjir haldi því fram eftir á, að það sé í gríni gert.

Mér virðist allt orðið benda til þess, að kosningar muni fara fram í vor, og út af því vildi ég segja að lokum, að í þeim kosningum verður ekki hægt að kjósa um stefnu okkar framsóknarmanna og Alþfl. í þessu máli, af því Alþfl. hefir ekki möguleika til að ná hreinum meiri hluta. En það er aðeins kosið um stefnu framsóknarmanna annarsvegar og hinsvegar stefnu sjálfstæðismanna og fylgiflokks þeirra, er nefnir sig Bændafl., í þessu Kveldúlfsmáli. Það er aðeins tvennt að athuga í þessu sambandi, hvort eigi að hafa Kveldúlf á þeim stað, sem við höfum sett hann, eða hvort eigi að sleppa honum með eftirgjöfum, eins og gert mundi vera, ef Sjálfstæðisfl. kæmist í meiri hluta á Alþingi undir forustu þeirra Kveldúlfsmanna. Ef kosið er um Kveldúlf á þessum grundvelli, eins og ágreiningurinn liggur fyrir milli Alþfl. og Framsfl., þá getur það ekki orðið að almennu kosningamáli. Allir eru sammála um, að það verður aðeins kosið um það, hvort Sjálfstfl. með stuðningi Bændafl. eigi að fá meirihlutaaðstöðu á Alþingi eða hvort Framsfl. ætti að ná oddaaðstöðu á þingi, eins og verið hefir undanfarin 2 ár. Það er gefið mál, nú eins og við síðustu

kosningar, að kosningaúrslit mundu velta á því, hversu Framsfl. tækist að vinna í hinum einstöku kjördæmum sínum. Við vitum það vel, að ekki mátti út af bera við síðustu kosningar, til þess að Sjálfstfl. næði ekki meirihluta, og þannig mun það verða aftur, að kosningaósigur Sjálfstfl. og Bændafl. er kominn undir sigri Framsfl. Og þó menn slái harða brýnu um lausn Kveldúlfsmálsins, má enginn gleyma því, að hættan vofir alltaf yfir, að Íhaldsfl. nái meirihlutaaðstöðu á Alþingi. Þessu má enginn gleyma í kosningunum, þótt hrundið verði út í þær t. d. í sambandi við þetta mál eða eitthvert annað mál. Þetta er aðalatriðið í þessum kosningum, sem nú standa fyrir dyrum, hvað sem verður um þetta mál. Þá skulum við framsóknarmenn vera tilbúnir og við erum tilbúnir. Við kjósum á grundvelli þeirrar samþykktar, sem flokksþingið gekk frá í vetur. Við kjósum á grundvelli þeirra atvinnumála, sem hrundið hefir verið í framkvæmd á síðasta kjörtímabili.