24.03.1937
Neðri deild: 26. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 171 í C-deild Alþingistíðinda. (1387)

82. mál, skiptameðferð á búi h/f Kveldúlfs

Hannes Jónsson:

Þar sem ég er síðasti ræðumaður hér í kvöld, skal ég reyna að stilla orðum mínum svo í hóf, að enginn þurfi að kvarta. Ég hefi í þessum umræðum bent á, að með þessu frv. er þessu Kveldúlfsmáli kippt úr höndum réttra aðilja. Ég hefi einnig upplýst, að töp Kveldúlfs eru bein afleiðing af gengi sjávarútvegsins á undanförnum árum, sem hin óeðlilega kyrrstaða hefir skapað. Ég hefi bent á ósamræmið í starfi framsóknarmanna og afstöðu þeirra til þessa máls, þótt fjmrh. vilji halda því fram, að um það verði barizt, hvort eigi að gera Kveldúlf upp eða ekki, eða hvort hann verði hafður á þeim grundvelli, sem framsóknarmenn hafa sett hann. Þá vil ég minna á það, að fyrst og fremst á núverandi stjórn sök á því, að atvinnuvegirnir geta ekki starfað á heilbrigðum grundvelli, með því að láta undir höfuð leggjast að gera þær ráðstafanir, sem nauðsynlegar voru, til þess að atvinnuvegirnir gætu borið sig.

Ég hefi bent á óheilindi sósíalista í flutningi þessa frv. Þjóðin fær nú væntanlega tækifæri til að segja álit sitt um hæfileika núverandi stjórnar til að rétta við atvinnuvegi þjóðarinnar og meta gerðir þeirra í þessu máli.

Kjósendur munu sjá gegnum þá grímu, sem stjórnarflokkarnir hafa brugðið á sig til þess að dyljast við næstu kosningar, þótt Framsfl. biðli til beggja handa um kosningar. Bændafl. mun berjast fyrir hagsmunum framleiðenda bæði til lands og sjávar, og það er ljóst, að á velgengni þeirra byggist framtíð þjóðarinnar.

Kjósendur verða við því búnir að láta núv. stjórnarfl. fá hvíld frá störfum, ef til kosninga kemur í vor, því að þeir munu gera allt, sem þeir geta, til þess að útrýma þeim ágreiningi, sem nú hefir risið milli þeirra, til þess að geta verið við völd eitt árið enn. Ég sé ekki annað, ef til kosninga kemur í vor út af þessu máli, en að þá geti kosningin ekki gengið í þá átt, að til mála geti komið, að núverandi stjórnarflokkar geti setið lengur við völd. Þótt Bændafl. telji sér að meira eða minna leyti skylt að vinna fyrir framleiðendur, þá hafa hagsmunir þeirra ekki fengið að njóta sín undir forustu þessara flokka. Það er öllum kunnugt, að valdatilvera núverandi stjórnarflokka fékkst með hlutkesti norður í Skagafirði, og það væri ástæða til, að menn gættu þess, að slík óhamingja gæti ekki endurtekið sig í okkar þjóðfélagi, að þeir menn séu látnir hafa völdin, sem skilja við atvinnumálin í öðru eins flagi eins og þau nú eru í.