03.03.1937
Neðri deild: 13. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 50 í B-deild Alþingistíðinda. (139)

13. mál, Kreppulánasjóður

*Frsm. (Bergur Jónsson):

Allshn. hefir athugað þetta frv. og leggur til með shlj. atkv., að það verði samþ. Eins og menn sjá, er hér um bráðabirgðal. að ræða, sett 28. okt. 1936, og munu þau hafa verið sett með samþ. allra stjórnmálafl. Alþ. Ástæðan til þess, að setja varð þessi bráðalbirgðal., var sú, að í l., sem samþ. voru á Alþ. 1935, og eru nr. 35 1. febr. 1936, þar sem þau ákvæði voru sett inn í l. um kreppulánasjóð, sem ætluð voru til að bæta úr fjárhagsástandi bæjar- og sveitarfélaga, var gert ráð fyrir því, að um 1½ millj. kr. — eða a. m. k. 1 millj. kr. — mundi verða eftir af handhafaskuldabréfum kreppulánasjóðs, eftir að lánveitingum til bænda væri lokið samkv. l. nr. 78 19. júní 1933. En þegar til átti að taka og búið var að auglýsa um 82 hreppsfélög til uppgerðar samkv. l. frá 1936, þá kom í ljós, að ekki nema 300–400 þús. kr. voru eftir af bréfum, sem gefin höfðu verið út eftir bændalögunum. Þess vegna varð annaðhvort að gefa út bráðabirgðal. til þess að heimila kreppulánasjóði að gefa út handhafaskuldabréf, sem gat ekki verið minni upphæð en 1½ millj. kr., til þess að l. kæmu að gagni, eða að fresta algerlega framkvæmdum í þessu efni. En vegna þess að þörfin var svo mjög aðkallandi hjá hreppsfélögunum á að fá þessa hjálp kreppulánasjóðs og sérstaklega að fá uppgerð vegna framfærsluskulda og vondra lána, sem flest þeirra höfðu tekið, til lagfæringar og breyt. í hagfelldari lán, þá var þessi leið valin, með samþ. allra hlutaðeigenda.

Ég vil geta þess, að allshn. hefir fengið í sínar hendur skýrslur þessara bæjar- og sveitarfélaga, sem fengið hafa uppgerð, og þá sér maður, hvert gagn hefir orðið af þessum l. um bæjar- og sveitarfélög nr. 35 1. febr. 1936.

Þessu er skipt í tvo kafla. Í öðrum eru bæjarfélög, en í hinum hreppsfélög. Bæjarfélögin voru fyrst tekin fyrir. Var það 1½ millj. kr., sem sjóðurinn notaði til þeirra þarfa, sem sé á þann hátt, að breyta erfiðustu lánum kaupstaðanna, sem voru stutt og með háum vöxtum, í lengri og hagkvæmari lán. Afleiðingin varð sú, að í staðinn fyrir það, að áður hvíldi á þeim 25000 kr. í vöxtum og afborgunum, þá er það nú rúmlega 100 þús. kr., svo að vaxta- og afborgunarbyrðin hefir létzt hjá þeim um 150 þús. kr. á ári.

Þá voru það hrepparnir. Alls sóttu 82 hreppar um aðstoð. Skuldir þeirra hreppsfélaga voru samtals 2384726,31 kr. Af þessu var eftirgefið 1217384,71 kr., en greiddar af sjóðnum 1167341,60 kr., þar af í kreppubréfum 1085010 kr., og með fátækrajöfnunarfé 82331,60 kr., eða samtals 1167941,60 kr. Raunverulegar skuldir þessara sveitarfélaga voru áður en þau leituðu aðstoðar sjóðsins kr. 2384726,31, en eru nú kr. 1085010. Hefir því hagur þeirra batnað um 1,3 millj. kr.

Þá eru eftir um 100 sveitarfélög sem hafa ekki komið til skuldaskila, og er það að einu leyti óheppilegt, sem sé vegna þess, að með uppgerðinni á þessum 82 hreppum fengust gerðar upp að fullu allar fátækraskuldir þeirra í milli, en þær höfðu áður valdið miklu vafstri bæði í hreppum og bæjarfélögum. En eins og áður var sagt, voru ekki allir hreppar gerðir þarna upp, og út af því tekur sjóðsstjórnin fram, að mjög væri æskilegt, að gangskör væri gerð að því, að þessi 100 sveitarfélög væru skylduð til að gera upp fátækraskuldir sínar.

Samkv. þeim l., sem sjóðsstjórnin starfaði eftir, og bráðabirgðalögunum frá 28. okt., hafði sjóðsstjórnin heimild til að gefa út handhafaskuldabréf fyrir 3 millj. kr. Bréfin eru í 6 flokkum, og vextir eru 5½%. Lánveitingar, sem þegar eru um garð gengnar, hafa numið í kreppubréfum 1500000 kr. til bæjarfélaga og 1085010 kr. til sveitarfélaga.

Það var ekki heimild til að veita seitarfélögum meiri óveðtryggð lán en 5000 kr., en víðast voru til fasteignir fyrir nokkrum hluta lánsins, og aldrei var veitt stærra óveðtryggt lán en 5000 kr.

Þetta yfirlit sýnir, að þessi l. hafa gert ákaflega mikið gagn, bæði sveitar- og bæjarfélögum, og komið fjárreiðum þeirra á miklu betri grundvöll en áður var.

Þá væri einnig rétt að athuga það, þó að ekki komi till. fram um það við þessa umr., hvort ekki væri rétt að fara eftir þeim bendingum sjóðsstjórnarinnar, að gera upp framfærsluskuldir þeirra sveitarfélaga, sem eftir eru, svo að hægt sé að losna til fulls við þennan draug, sem hefir fylgt þessu síðan sveitfestisákvæðið setti mestan glundroða í mál sveitarfélaganna.