30.03.1937
Neðri deild: 27. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 172 í C-deild Alþingistíðinda. (1393)

82. mál, skiptameðferð á búi h/f Kveldúlfs

Forseti (JörB):

Ég býst við, að í þessu máli, og reyndar mörgum fleiri málum, sem borin eru fram í þinginu, kynni að vera hægt að koma með spurningar ámóta þeim, sem hér hefir nú verið varpað fram, svo að það kynni að leika nokkur vafi á þátttöku hv. þm. í atkvgr., ef fara ætti að viðhafa þesskonar athugun út í yztu æsar, og mér finnst þess vegna, að fyrirspurn hv. 2. þm. Reykv. að því er þetta mál snertir sé óþörf, því að þetta mál snertir ekki hv. þm. G.-K. og hv þm. Snæf. meira en ýms mál hafa fyrr og síðar snert ýmsa hv. þm., og sízt þegar athugaðir eru málavextir þessa máls, sem hér liggur fyrir, án þess að ég ætli nokkuð nánar að skilgreina það. Ég hirði því ekki um að fara frekar út í rökstuðning út af þessari fyrirspurn og vísa henni algerlega frá að öðru leyti en því, að ég tel þá hv. þm., sem hér um ræðir, eiga rétt á að greiða atkv. um þetta mál, eins og hv. þm. verða yfir höfuð að gera, þó að mál kunni að einhverju leyti að snerta þm. Það vita allir hv. þdm., að mörg mál, sem borin eru fram á þingi, snerta þm. meira og minna, og þó hefir engum dottið í hug hingað til að meina mönnum að taka þátt í atkvgr. um þessi mál, svo framarlega sem málefnin varða menn ekki sérstaklega, þannig að þau snerti fjármuni þeirra, og um slík tilfelli geta ákvæði þingskapa átt við, en ekki um það, sem hér um ræðir. Mitt álit í þessu efni er því það, að þessir tveir hv. þm. hafi fullkominn rétt til að greiða atkv. í þessu máli.