19.04.1937
Neðri deild: 43. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 180 í C-deild Alþingistíðinda. (1402)

82. mál, skiptameðferð á búi h/f Kveldúlfs

*Hannes Jónsson:

Ég var með því, að þetta frv. gengi til n., og var sú afstaða mín byggð á þeim grundvelli, að ég vonaðist eftir, að í gegnum störf n. yrði alþjóð það þó frekar kunnugt, hve mikil og brýn nauðsyn væri á því að rétta við nokkuð atvinnuvegi landsmanna. Ég skal nú ekki segja, að hve miklu leyti þetta hefir unnizt. En í þeirri dagskrártill., sem hér liggur fyrir, er það þó orðið ákveðið, að Alþ. á ekki að blanda sér inn í þetta mál á þann hátt, sem hv. flm. frv. ætluðust til, og ennfremur gefst nú tækifæri til að breyta þeirri ákvörðun, sem mér skilst, að hæstv. atvmrh. hafi verið búinn að taka viðkomandi leyfisveitingunni til síldarbræðsluverksmiðjubyggingarinnar. Þetta hefir, þótt lítið sé, miðað í þá átt, að standa ekki í vegi fyrir því, að þetta atvinnufyrirtæki geti komið upp heilbrigðri starfsemi hjá sér, sem að nokkru leyti geti lagzt undir starfsemi félagsins að öðru leyti. En í sambandi við þetta vil ég víkja þeirri fyrirspurn til hæstv. atvmrh., hvað hann ætli að sitja lengi í ráðherrastóli, eftir að Alþ. er búið að hafa þau gersamlegu endaskipti á hans afstöðu og ákvörðunum í þessu máli, sem það gerir með því að samþ. þessa rökst. dagskrártill., því að ég verð að telja, að hún sé þegar samþ. eða að þegar liggi fyrir samþykkt á henni, þar sem 2 aðalflokkar á Alþ. standa að henni. Ætlar hæstv. atvmrh. að láta sig það engu skipta, hvernig farið er með mál hans, hvernig farið er með ákvarðanir hans, hvernig svo sem þetta er keyrt ofan í hann? Ætlar hann samt sem áður að sitja áfram í ráðherrastóli og hirða laun sín með góðri lyst?