19.04.1937
Neðri deild: 43. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 180 í C-deild Alþingistíðinda. (1403)

82. mál, skiptameðferð á búi h/f Kveldúlfs

*Finnur Jónsson:

Ég er ekki á sama máli og sumir hv. þm., sem talað hafa um þetta mál, að ekki sé ástæða til að ræða þetta mál, vegna þess að því séu þegar ákveðin forlög af 2 stærstu stjórnmálaflokkum þingsins. Ég álít þvert á móti ástæðu til að bæta nokkuð við þær útvarpsumr., sem fram fóru á dögunum um þetta mál, af því að þessu máli hafa verið ákveðin forlög af 2 stærstu stjórnmálaflokkum Alþ.

Ég álít, að þegar stærsta fjársvikamálinu, sem komið hefir verið upp hér á Íslandi, er ráðið til þeirra lykta, sem gert hefir verið, með samningum á milli 2 stærstu stjórnmálaflokka Alþ., þá sé ástæða fyrir þá, sem sjá óheilindin í þessu ráðabruggi, að leysa verulega frá pokanum, og að ekki sé einasta ástæða til þess, heldur skylda þeirra þm., sem sjá, hvílíkt ódæði hér er verið að fremja, að láta álit sitt í ljós. Það er vert að minna á það, að í umr. um þetta mál, var því alltaf haldið fram í blöðum Framsfl. hér í bænum, að úrslit þess væru algerlega í höndum Alþfl., í fyrsta lagi gegnum bankaráð og bankastjóra Útvegsbankans. En svo þegar fara á að reka endahnútinn á þá samninga, sem Framsfl. og Alþfl. höfðu gert með sér í þessu máli, –hvað gerist þá? Þá er fulltrúi Framsfl. ásamt Magnúsi Torfasyni látinn ganga í lið með íhaldinu og bankastjórum Landsbankans um það, að ráða niðurlögum málsins. M. ö. o., þau sigurmæli um það, að úrslit þessa máls lægju í höndum alþýðuflokksmanna í Útvegsbankanum hafa sýnt sig að vera skrök ein og ekkert annað.

Þá var sagt, að samningarnir gætu strandað á því, að ekki fengist leyfi til að byggja síldarverksmiðju. Þá var og sagt, að það væri í höndum Alþfl. En hvað kom svo á daginn? Sameiginleg dagskrártill. frá Framsfl. og Sjálfstfl. um að leysa þetta mál með þingvaldi. M. ö. o.: Allar viðbárur Framsfl. um það, að úrslit þessa máls lægju í höndum Alþfl., hafa frá upphafi ekki verið neitt annað en hinar auvirðilegustu blekkingar, því að þegar Alþfl. vildi ekki standa með Framsfl. að þessu fjármálahneyksli, þá hefir Framsfl. tekið málið í sínar hendur í bankaráði Landsbankans og Útvegsbankans og nú síðast hér á Alþ. Það hefir verið sagt af hæstv. fjmrh. og hv. 2. þm. Skagf., að það væri óréttlátt að taka þetta mál fyrir á Alþ., af því að það heyrði undir umboðsvald bankanna. En mér er spurn: Hvað mikil þarf fjármálaspillingin að verða hjá bönkunum, til þess að ástæða sé til þess, að áliti hæstv. fjmrh., að ríkisvaldið taki í taumana? Álítur hæstv. fjmrh., að engin sú fjármálaspilling geti verið til í bönkunum, að ástæða sé fyrir ríkisvaldið að taka í taumana? Ég veit ekki, hvernig hæstv. fjmrh. svarar þessari fyrirspurn, hvort hann svarar henni með eintómri loðmullu, eins og fyrirspurn hv. 2. þm. Reykv. Ég fyrir mitt leyti skil ekki í því, að hæstv. ráðh. standi hér upp aftur og segi, að það sé alveg sama, hvaða fjármálahneyksli bankarnir geri, Alþingi eigi ekki og megi ekki taka í taumana. Það vita allir, að eins og hv. 1. landsk. benti á, þá var þetta mál afgert fyrst og fremst af stjórnmálaflokkunum, en ekki bönkunum. Bankarnir tóku engar afgerandi ákvarðanir, fyrr en búið var að bera málið undir hæstv. fjmrh. fyrst og fremst, og það er vitað, að Framsfl. hélt bæði þingmannafundi og miðstjórnarfundi til þess að gera út um þetta mál. Málið var því fyrst og fremst afgreitt á pólitískum grundvelli, þótt hæstv. fjmrh. sýni ekki þann drengskap, að kannast við það. Það þarf enginn að segja mér annað en að þurft hafi átök innan Framsfl. til þess að knýja hv. þm. S.-Þ. til að bjarga Kveldúlfi og fórna til þess heiðri sínum og flokksins. Það þarf ekki að segja mér, að ekki hafi þurft átök til þess að fá hv. þm. N.-Þ. til þess að fylgja þessari sömu ráðstöfun í bankaráði Útvegsbankans, því að engir hafa haft eins sterk orð í þessu máli eins og þessir tveir hv. þm. Þeir hafa sagt í blaði sínu, að enginn heiðarlegur maður gæti verið á móti því, að skip Kveldúlfs skiptu um eigendur og að skuldasöfnun þessa fyrirtækis hjá Landsbankanum hætti. Ekki fyrst og fremst af peningaástæðum, heldur vegna þess siðferðilega ástands, sem af þessu leiddi. Og það er líka e. t. v. höfuðatriði þessa máls, sú óreiðukennd, sem áreiðanlega hlýtur að festast í vitund almennings, þegar óreiðumönnunum gengur bezt að fá lán í bönkunum. (TT: 5%!). Ég býst við, að hv. þm. Snæf. eigi við það, að Samvinnufélag Ísfirðinga greiddi skuldheimtumönnum sínum 5% við uppgjör skuldaskilasjóðs. En þetta var sú almenna greiðsla, sem eigendur vélbátanna greiddu kröfuhöfum. Og þó allir Kveldúlfsseppar gelti hér framan í mig (Forseti hringir), þá stöðva þeir mig ekki í því, sem ég ætla að segja um þetta mál. (ÓTh: Því er hv. þm. svona rauður í framan?). Af því að ég gekk á Kjöl í gær. — Ég vil benda á það, að Samvinnufélag Ísfirðinga var stofnað sem atvinnubótafyrirtæki á þeim tíma, er íhaldsmenn voru búnir að lýsa yfir, að ekki væri lengur hægt að reka útgerð á Ísafirði. Það hefir engin góðæri fengið til þess að safna sjóðum, og ekkert fé hefir verið dregið út úr því fyrirtæki í villubyggingar handa framkvæmdastjórum eða til þess að flytja til útlanda. Og allar skuldir samvinnufélagsins, sem strikaðar voru út, námu ekki eins mikilli upphæð eins og þessir skuldugustu framkvæmdastjórar skuldugasta fyrirtækisins á landinu skulda sínu félagi. Það hefir verið sagt hér á þingi hvað eftir annað, án þess að því hafi verið mótmælt, að Thorsbræður skuldi Kveldúlfi 500 þús. kr., en allar skuldir Samvinnufélags Ísfirðinga, þessa atvinnubótafyrirtækis, nema ekki einu sinni eins hárri upphæð og skuld hvers hinna þriggja framkvæmdastjóra Kveldúlfs, ef skuldin skiptist jafnt á milli þeirra. Og svo eru þeir að hamra á skuldum samvinnufélagsins, þessir mestu skuldaþrjótar í skuldugasta fyrirtæki landsins.

Út af því, sem hæstv. fjmrh. segir um fjármálahneyksli, langar mig til þess að segja það, að Framsfl. hefir bundizt föstu bræðralagi við Sjálfstfl. um það, að samþ. í gegnum pólitíska starfsemi það mesta fjármálahneyksli, sem gert hefir verið á Íslandi.

Það er greinilegt af því, sem nú er fram komið, að þegar þetta mál á sínum tíma var lagt fyrir flokkana, voru ekki öll kurl komin til grafar, því að nú upplýsir hv. 1. landsk., að erlenda lánið til hinnar nýju síldarverksmiðju á Hjalteyri megi ekki nota til annars en kaupa á erlendu efni og erlendum vélum. Af því er auðsætt, að það eru ekki 150 þús. kr., sem Landsbankinn verður að leggja fram til þessa fyrirtækis, heldur a. m. k. þrisvar sinnum 150 þús. kr. Það þýðir ekki að telja neinum trú um það, að ef keypt er efni og vélar í síldarverksmiðju utanlands frá fyrir 900 þús. kr., þá fari innlent efni og vinna ekki yfir 450 þús. kr. til slíkrar verksmiðjubyggingar. Af þessu er það auðsætt, að það er ekkert smáræðis fé, sem Landsbankinn verður að hætta þarna ofan á alla súpuna, sem fyrir er. Það er margsannað, að sú milljón, sem framsóknarmenn tala alltaf um í þessu sambandi, er ekki annað en blekking. Það vita allir, að Korpúlfsstaðaeignin rentar sig ekki fyrir meira en þær 350 þús. kr., sem á henni hvíla, og hinar eignirnar eru heldur ekki mikils virði (TT: 5%!). — Það getur vel farið svo, að Kveldúlfur greiði ekki einu sinni 5% af skuldum sínum, þegar hann loks verður gerður upp. — Ég álít, að Framsfl. sé þarna að gera að veruleika gamansögu, sem bankastjóri einn norður á Akureyri sagði einu sinni einum af viðskiptamönnum bankans. Hann sagði, að maður hefði komið inn í bankann og beðið um 250 kr. víxil. Ég spurði manninn svona hinseginn, sagði bankastjórinn, hvaða ábyrgð hann hefði, þótt mér dytti ekki í hug að lána honum neitt. Hvað haldið þið, að maðurinn hafi sagt? Hann var svo ósvífinn að segja: Leggur ekki bankinn ábyrgðina til?

Þessa gamansögu um ósvífni eins norðlenzks sveitamanns er Framsfl. nú að gera að veruleika. Hann lætur Landsbankann leggja ábyrgðina til fyrir stærsta og skuldugasta atvinnufyrirtæki landsins (TT: 5%!). Ég veit ekki, hvað lengi hæstv. forseti ætlar að leyfa hv. þm. Snæf. að stagast á þessum 5%. Ég vildi mælast til, að hæstv. forseti veitti þessum hv. þm. áminningu, ef hann heldur áfram að trufla ræðu mína. (TT: 5%! — Forseti: Ég vil biðja hv. þm. að gefa hljóð og vera ekki að grípa fram í fyrir ræðumanni). Ég hélt, að hæstv. forseti leyfði ekki hv. þm. Snæf. að haga sér hér eins og hann væri á skrílsamkomu eða nazistafundi. (TT: 5%! — Forseti hringir). Það þykir ósvífni, ef sveitamaður kemur í Landsbankann og biður um 250 kr. víxil án trygginga. En það þykir svo sjálfsagt, að Framsfl. myndar um það fast bræðralag við Sjálfstfl., að landið í heild leggi til ábyrgðina fyrir skuldugasta fyrirtæki landsins. (TT: 5%!).

Ég verð að segja, að ég tel það illa farið, að Framsfl., sem hefir flokka mest látið skrifa um þá fjármálaspillingu, sem átt hefir sér stað í landinu, skuli í heild sem flokkur hafa lagt samþykki á þá mestu fjármálaspillingu, sem Alþingi ennþá hefir veitt samþykki sitt. (TT: 5%). Til upplýsingar fyrir þá hv. þm., sem kynnu að vita ekki, hvað kreppulöggjöfin hvílir þungt á bönkunum, skal ég benda á það, að kreppubréfaeign Landsbankans nemur 4–5 millj. kr. Það er mikið talað um, hvað kreppuhjálpin hafi orðið þungbær fyrir lánstofnanirnar, og með réttu. En allur þungi sveitakreppunnar og kreppu sveitar- og bæjarfélaga á landinu, sem á Landsbankanum hvílir, er þó ekki eins mikill og skuldir skuldugasta fyrirtækisins eins við Landsbankann. (TT: 5%!).

Því er haldið fram af Framsfl., að með því að veita Kveldúlfi leyfi til að reisa síldarverksmiðju á Hjalteyri hafi Alþfl. lagt dóm á það, að þetta fyrirtæki ætti að halda áfram að starfa. Þetta er alls ekki rétt. Þegar þetta mál var sent verksmiðjustjórn síldarbræðsluverksmiðja ríkisins til umsagnar, kom hún sér saman um það, að fyrirtæki, sem hefði eins mörg veiðiskip undir höndum eins og Kveldúlfur, væri nauðsyn á að eiga síldarverksmiðju á Norðurlandi. Ég fyrir mitt leyti, sem formaður verksmiðjustjórnarinnar, mælti með þessu leyfi, af því að ég lít svo á, að þótt skip Kveldúlfs og önnur atvinnutæki skiptu um eigendur, þá næði ekki neinni átt að tvístra þeim, heldur yrði fyrirtækið að halda áfram sem stórfyrirtæki, og þá væri því nauðsynlegt að hafa síldarbræðslu á Norðurlandi. Mín afstaða miðast því aðeins við það, að svona stórt útgerðarfyrirtæki eigi að hafa síldarverksmiðju, án tillits til, hver á það. En nú lít ég svo á, að með þeirri dagskrártill., sem nú sýnir sig, að hefir verið með í samningnum um að halda Kveldúlfi lifandi, sé gengið útfyrir þær till., sem verksmiðjustjórnin gerði í þessu máli, því að í dagskránni er stærð verksmiðjunnar aðeins takmörkuð við útlenda lánið, og getur hún því þýtt leyfi fyrir allt að 4000 mála verksmiðju. Ég fyrir mitt leyti mundi ekki telja fyrirtæki á stærð við Kveldúlf þurfa líkt því svo stóra verksmiðju, og ég býst við, að ef dagskrártill. er samþ., gæti farið svo, að bræðsluaukningin yrði helzt til mikil á einu ári, og Framsfl. sé þannig að koma hér upp hættulegum keppinaut fyrir síldarverksmiðjur ríkisins. (TT: 5%!). Ég mun því leggja fram brtt. á þá lund, að á eftir orðunum „af þeirri stærð, sem lánið hrekkur til“ komi: Þó ekki stærri en svo, að hún vinni úr 2500 málum síldar á sólarhring. — Ég veit ekki, hvort búið er að binda menn svo flokksböndum, að samþ. verði dagskrártill. óbreytta, en ég vil alvarlega vara framsóknarmenn við því, að samþ. dagskrána, án þess að stærð verksmiðjunnar sé þar hæfilegum takmörkum bundin. (TT: 5%!). Ég veit ekki, hvað hv. þm. Snæf. hefir tekið mörg % af því, sem Kveldúlfur skuldar umfram eignir, til sinna persónulegu þarfa, en það er áreiðanlega meira en 5%. (ÓTh: Sjáum til!) Ég sé ástæðu til að beina nokkrum orðum til hv. þm. Snæf., úr því að hæstv. forseti gerir það ekki, þótt hann sé nú orðinn svo viti sínu fjær af reiði, að varla sé á það bætandi. (ÓTh: 5% mætti nú bæta á!).

Ég vil, áður en ég lýk máli mínu, endurtaka það, að þetta mál hefir verið leyst á pólitískum grundvelli. Og ég vil ítreka þá spurningu til hæstv. fjmrh., — hvað mikil á fjármálaspillingin að vera í landinu, til þess að Alþingi hafi ástæðu til að grípa í taumana? (TT: 5%!).