19.04.1937
Neðri deild: 43. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 184 í C-deild Alþingistíðinda. (1405)

82. mál, skiptameðferð á búi h/f Kveldúlfs

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Mér heyrist á hv. þm. Ísaf. og fleiri jafnaðarmönnum hér í d., að þeim finnist þörf á að rétta sinn hlut eftir þær umr., sem farið hafa fram opinberlega um þetta mál, og get ég ekki legið þeim á hálsi fyrir það. Það er í rauninni ekki undarlegt eftir þær fréttir, sem borizt hafa víðsvegar af landinu um álit manna um afstöðu þeirra í Kveldúlfsmálinu. Það eru ekki aðeins framsóknarmenn, sem eru sammála lausn Framsfl. á þessu máli, heldur einnig fjöldi þeirra manna, sem öðrum flokkum fylgja, ekki sízt Alþfl. (HV: Þetta er ósatt, það munu kosningarnar sýna).

Hv. þm. Ísaf. gerði hér einkennilegan eldhúsdag á mig út af þessu máli, og ætla ég ekki að láta það fara þegjandi framhjá mér. Hann byrjaði með því að segja, að þetta væri stærsta fjársvikamál, sem nokkurntíma hefði fengið meðferð á Alþingi, og lausn þess væri ódæðisverk. Samkv. þessu er ég, eftir þær yfirlýsingar, sem ég hefi gefið í þessu máli, fjársvikari og ódæðismaður. Út frá þeim ummælum hans verður það, sem ég segi nú um þennan hv. þm.Hv. þm. segir, að nálægt þessu fjársvika- og ódæðismáli hafi enginn alþýðuflokksmaður komið. Ég vil þá benda honum á það, sem allir vita, að Jón Baldvinsson, forseti Sþ. og bankastjóri í Útvegsbankanum, var sem bankastjóri samþykkur þeirri lausn málsins, sem gerð var, þótt hann af flokksástæðum gerði ekki sérstaka till. um hana innan bankans. Hann getur því fengið sömu heiti og ég hjá hv. þm. Ísaf.

Þá hefir hv. þm. talað þannig um þetta mál, að mér skilst hann telja Kveldúlf þannig vaxið fyrirtæki, að það megi ekki á nokkurn hátt líta á það eins og annað atvinnufyrirtæki, þar sem það sé fjársvikafyrirtæki. En hvernig fór þá þessi hv. þm. að því, að mæla með því við atvmrh., að þetta fyrirtæki fengi að reisa síldarbræðslu á Hjalteyri, — þá verksmiðju, sem í dagskrártill. er gert ráð fyrir að veita leyfi fyrir? Í hans augum hefir þetta fyrirtæki þá ekki verið meiri ófreskja en það, að hann teldi forsvaranlegt að veita því þetta leyfi.

Eins og áður er sagt telur hv. þm. Ísaf. þetta mál stærsta fjársvikamál, sem nokkru sinni hefir komið hér fyrir, og hið mesta ódæðisverk, að mér skilst, að láta skuldasamning þann, sem bankarnir gerðu, ganga fram, án þess að Alþingi gripi í taumana. Nú hefi ég fyrir löngu lýst því yfir, að ég tek fyrir mitt leyti fulla ábyrgð á þeirri lausn þessa máls, sem fengizt hefir. Þess vegna hefir hv. þm. Ísaf. síðan stutt þann mann í ráðherrasæti, sem hann telur hafa framið hið versta ódæðisverk og staðið að fjársvikum. Hvernig stendur á þessu? Hvers vegna styður Alþfl. ráðh., sem tekur ábyrgð á stærsta fjársvikamáli, sem nokkurntíma hefir hlotið samþykki Alþingis? (HV: Hann hefir ekki verið studdur). Ekki hefi ég nú orðið var við annað. Að vísu hefir Alþfl. ákveðið samvinnuslit við Framsfl., en hafa menn tekið eftir því, að honum þykir ekki nægilegt að hafa þetta „fjársvikamál og ódæði“ til þess að byggja á samvinnuslitin, heldur er að telja mönnum trú um, að þau byggist á allt öðru, viðreisnarmálum sjávarútvegsins o. fl.? því eru alþýðuflokksmennirnir að burðast við að tína til ýmislegt annað? Eru ekki fjársvik og ódæði nægileg ástæða til að slíta samvinnu við flokk, sem ábyrgð tekur á slíku?

Það þýðir lítið að viðhafa slík stóryrði, sem hv. þm. Ísaf. hafði hér áðan, en sýna jafnframt í verkinu, að þau eru ástæðulaus. Ég vil bara benda mönnum á það ósamræmi, sem kemur fram í gerðum þessa hv. þm. annarsvegar, og þeim orðum, sem hann leyfir sér að viðhafa um þetta mál og mig hér í d. hins vegar.