20.04.1937
Neðri deild: 44. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 190 í C-deild Alþingistíðinda. (1410)

82. mál, skiptameðferð á búi h/f Kveldúlfs

*Form. minni hl. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Ég get látið mér nægja stuttan ræðutíma, því að ég hefi ekki mikið fram að færa út af þeim umr., sem hér hafa orðið um þetta mál.

Þegar ég kvaddi mér hljóðs í annað sinn, var það aðallega til þess að gera áréttingu út af ræðu hæstv. fjmrh., en ég sé, að hann er ekki staddur hér í d., svo að ég get því að mestu leyti sleppt því. Auk þess fékk ég í ræðu hv. þm. G.-K, nokkrar upplýsingar um það atriði, sem mér þótti á skorta hjá hæstv. fjmrh. Það var um það, að fá ákveðið og skýrt fram í sambandi við byggingu síldarverksmiðjunnar á Hjalteyri, hvort ekki sé rétt, sem ég hefi heyrt, að brezka lánið hafi verið þeim skilyrðum bundið, að það væri eingöngu notað til kaupa á aðfluttum vörum til verksmiðjunnar. Ef svo væri, sem ég þykist hafa staðfestingu fyrir, þá hafði ég hugsað mér, að beina því til hæstv. fjmrh., hvort hann vildi stuðla að því sem yfirmaður Landsbankans, að hann lánaði það, sem á myndi vanta, til þess að verksmiðjan kæmist upp. Má gera ráð fyrir, að það yrði allmiklu meira en gert var ráð fyrir í upphafi. Nú hefir hv. þm. G.-K. upplýst, að Landsbankinn hafi lofað 150 þús. kr. láni til verksmiðjunnar og gefið vilyrði fyrir meira láni. Ætla ég, að með því sé sýnilegt, að Landsbankinn ætli að lána það, sem á vantar. En ég þykist þess fullviss, að það muni vera allmiklu meira en 150 þús. kr., ekki sízt eftir þeim upplýsingum að dæma, sem hv. þm. G.-K. hefir gefið, sem eru þær, að tollur á aðfluttum vörum, sem eiga að greiðast af ísl. lánum, muni nema tugum þúsunda. Brezka lánið yrði hart að 900 þús., og þá má mikið vera, ef ekki þyrfti að fá innanlands um 200–300 þús., en þá myndi um leið, eins og við alþýðuflokksmenn höfum alltaf búizt við, skuldir Kveldúlfs við Landsbankann vaxa allverulega. Ég vildi aðeins undirstrika þetta atriði, en tel ekki þörf á að fara inn á það frekar.

Ég skal geta þess, að hv. þm. G.-K. endurtók það við þessa umr., sem hann hafði sagt í útvarpinu um daginn við 1. umr., að ég hefði síðastl. ár farið utan til þess að reyna að fá erlent lán fyrir ríkisstj., sem næmi 50–60 millj. kr., og að því er mér skildist, átti aðalatriðið af minni hálfu að vera það, að reyna að fá mér 100 þús. kr. sem þóknun. Í viðurvist allra hlustenda lýsti ég því yfir, að þetta væri uppspuni frá rótum. Hæstv. fjmrh. staðfesti þessa sögusögn mína, en þrátt fyrir það heldur hv. þm. G.-K. þessu enn á ný fram í þingsölum. Ég endurtek það aðeins, að þessi saga er uppspuni frá rótum, og ég hefi ástæðu til að ætla, að hún sé vísvitandi uppspuni. Sú eina afsökun, sem hv. þm. getur haft fyrir þessum sögusögnum, er sú, að

hann sé búinn að endurtaka þessi ósannindi svo oft, að hann sé farinn að trúa þeim sjálfur. Annars hirði ég ekki um, eins og hv. þm. var að tala um, að vitna til guðs um mína frásögn í þessu máli. Ég tek hv. þm. ekki svo alvarlega, að slíks gerist þörf.