20.04.1937
Neðri deild: 44. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 204 í C-deild Alþingistíðinda. (1424)

82. mál, skiptameðferð á búi h/f Kveldúlfs

*Héðinn Valdimarsson:

Hv. þm. G.-K. hefir lokið máli sínu, en ekki máli sínu um Kveldúlfsmálið, því að í ræðu sinni kom hann ekki

nálægt málinu, heldur var hann að tala um, hvernig litarhátt andstæðingar hans hefðu og fleira þessháttar, sem ég sé ekki, að komi þessu máli við.

Hæstv. fjmrh. var enn með þá blekkingu, að eina deilumálið milli flokkanna hafi verið Kveldúlfsmálið. Frá þessu hefir verið skýrt opinberlega, en þó held ég, að ég verði að endurtaka lítið eitt um það.

Það fóru fram samtöl milli n. úr báðum flokkum, eftir að sambandsþingi Alþýðusambandsins var lokið, um áframhaldandi málefnasamning milli beggja flokkanna, en fékkst ekki samkomulag um þau atriði, sem við alþýðuflokksmenn bárum fram, sem aðallega var viðreisn sjávarútvegsmálanna og uppgjör togaranna, þar á meðal Kveldúlfs, sem var skuldugasta félagið og mest reið á, að gert yrði upp, en engu síður hinna félaganna. Það var ósk Alþfl., að allt yrði tekið í eitt frv., uppgjör Kveldúlfs og hinna félaganna, því að hann áleit vera hægt að taka það allt í eitt frv., en þá gerði Framsfl. þá kröfu, að Kveldúlfur yrði tekinn sérstaklega, og var það aðallega vegna þess, að þeir héldu fram, að hvað sem öðrum togarafélögum liði, þá væri Kveldúlfur gjaldþrota. Síðan hefir málið gengið sinn gang, sem kunnugt er, og þetta er ástæðan til, að fyrst varð opinberlega kunnur ágreiningurinn milli flokkanna um Kveldúlfsmálið. En við vildum ekki láta hæstv. fjmrh. og flokk hans komast hjá að sýna, að ágreiningurinn var ekki eingöngu um Kveldúlfsmálið, heldur um sjávarútvegsmálin í heild. Þar af leiðandi höfum við haldið þessu máli áfram til þess að neyða Framsfl. til að taka afstöðu til raka sinna í þeirri n., sem hafði farið með þetta mál. Það er nú líka þannig komið, að það hefir sýnt sig, að ágreiningurinn hefir ekki verið um Kveldúlfsmálið eitt.

Ég vænti, að þessi stutta frásögn hafi flett ofan af blekkingarvef hæstv. fjmrh., svo að ekki þýði fyrir hann að fara að reyna að vefa hann á ný.