24.02.1937
Neðri deild: 8. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 213 í C-deild Alþingistíðinda. (1447)

10. mál, aðgerðir á fólki, er koma í veg fyrir, að það auki kyn sitt

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Ég mun verða stuttorður um þetta mál, þó ekki vegna þess, að hér sé ekki um merkilegt mál að ræða, heldur sakir þess, að svo glögg grg. fylgir því, að þar er litlu við að bæta. Þess eins vil ég þó geta, að ég hefi heyrt ýmsa, sem málinu eru fylgjandi, halda því fram, að hér sé svo skammt gengið, að lítið verði bætt úr frá því, sem er. Þetta tel ég ekki allskostar rétt, og mér finnst, að þegar um slíkt nýmæli er að ræða sem þetta, þá sé réttara að ganga fyrst frekar of skammt en of langt.

Frv. er samið af landlækni, og hefir verið borið undir Læknafélag Íslands, sem ekkert hefir tjáð sig hafa við það að athuga. Jafnframt hefir það, vegna hinnar formlegu hliðar, verið borið undir einn lögfræðiprófessorinn, sem einnig hefir talið það í bezta lagi hvað þá hlið snertir. — Að öðru leyti en þessu vísa ég til grg. þeirrar, sem frv. fylgir, og vænti þess, að n. sú, sem málið fær til meðferðar, leiti til landlæknis áður en hún afgreiðir það frá sér.