20.03.1937
Efri deild: 24. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 214 í C-deild Alþingistíðinda. (1453)

2. mál, tekjuöflun fyrir ríkissjóð

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Fjhn. hefir athugað frv. þetta og borið það saman við lög þau, sem vísað er til í grg. frv., og eru þær tilvitnanir, sem vísað er til, réttar. Tveir nm., ég og hv. 4. landsk., mæla með því, að frv. verði samþ., en þriðji nm., hv. 1. þm. Reykv., mun leggja á móti málinu, enda þótt hann hafi skrifað nafn sitt undir nál. Við, þessir tveir, sem leggjum til, að frv. verði samþ., lítum svo á, að ríkissjóður megi ekki við því, að missa þær tekjur, sem hér er um að ræða. Þó að við tveir nm. mælum með frv., þá höfum við þó fyrirvara um 5. gr. þess og áskiljum okkur rétt til þess að bera fram brtt. við hana til 3. umr.

Þessi 5. gr. er um benzínskattinn og skiptingu hans á milli veganna. Í frv. eru gerðar nokkrar breyt. um skipt. á honum, frá því sem er í núgildandi fjárlögum, og það alveg án þess að nokkur grein sé gerð fyrir breytingunni. Þannig er t. d. tillagið til Austurlandsvegarins hækkað um 10 þús. kr., frá því sem nú er, tillagið til Geysisvegar er lækkað um 5 þús. kr., og sömuleiðis er lækkað um 5 þús. kr. tillagið til vega út frá Akureyri. Aftur á móti eru 2 nýir vegir teknir upp með 5 þús. kr. hvor, en það eru Vopnafjarðarvegur til Möðrudals og Ljósavatnsskarðsvegur.

Þetta tel ég ekki rétta skiptingu á þessu fé, því að ég lít svo á, að það ætti að ganga til þeirra vega, sem hafa almenna þýðingu fyrir stóra hluta af landinu, eins og t. d. Suðurlandsbraut og vegurinn yfir Holtavörðuheiði. Eða þá að öðrum kosti að láta það ganga til vega í nágrenni við þá staði, sem mikið benzín kaupa, eins og t. d. Rvík og Akureyri, ef á annað borð, að sett eru inn í þessi lög ákvæði um skiptingu þessara peninga, sem ég hefði talið eðlilegast, að ekki væri gert, heldur væri í þessum lögum aðeins ákveðið, að féð skyldi ganga til þjóðvega, og því svo skipt samkv. ákvörðun fjárlaganna. Má því vel vera, að ég beri fram brtt. um þetta við næstu umræðu, og falli þá frá að bera fram brtt. um skiptingu fjárins í greininni.

Mér þykir verra, að hæstv. stj. skuli ekki vera hér viðstödd, því að það hefði verið gott að fá upplýst, hvernig á því stendur, að breytt hefir verið til um skiptingu fjárins, frá því sem er í gildandi fjárlögum.