23.02.1937
Sameinað þing: 3. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 251 í C-deild Alþingistíðinda. (1475)

1. mál, fjárlög 1938

*Jónas Guðmundsson:

Ég skal ekki þreyta hv. þingheim með því að endurtaka hina glöggu skýrslu hæstv. fjmrh. Í skýrslunni kom það greinilega fram, að fjárlfrv. þetta er að öllu leyti í aðalatriðum eins byggt og fjárlfrv. fyrir árið 1937, sem sett var með fullu samkomulagi stjórnarflokkanna. Heildartekjur ríkissjóðs eru áætlaðar um 100 þús. kr. lægri en í fyrra, og heildarútgjöld eru áætluð um 200 þús. kr. lægri. Er því ekki um verulegar breyt. að ræða. Vil ég því ekki eyða tíma í að ræða einstakar gr. frv. En ég vil nota þær fáu mínútur, sem mér eru ætlaðar, til að minnast á nokkur atriði í ræðum tveggja síðustu ræðumanna, hv. þm. Vestm. og hv. 10. landsk.

Bæði í blöðum andstöðuflokka stj. og eins nú við þessar umr. hefir starfsmannaskrá ríkisins verið talin bera vitni um, að meira sé greitt í kaup fyrir störf við ríkisstofnanir síðan núv. stj. tók við. Ég skal taka fram, að sú nýbreytni, að láta starfsmannaskrá fylgja fjárl., var tekin upp með fullu samkomulagi núverandi stjórnarflokka. Eru þessar skýrslur í alla staði sjálfsagt plagg með fjárl. til að sýna, hve miklu fé er eytt í launagreiðslur. Er það því ekki ámælisvert, heldur ættu allir að vera stj. þakklátir fyrir að hafa tekið upp þessa skýrslugerð. Meðan

sjálfstæðismenn voru við völd, vantaði slíka skrá, og varð því að fara óraveg til að fá upplýsingar um þetta mál.

Hv. síðustu ræðumenn töldu, að um 5 millj. kr. væru nú greiddar af ríkinu í ýmiskonar starfslaun, og er þetta rétt, svo langt sem það nær. En vitanlega ber að flokka þessa upphæð eftir stofnunum. T. d. fer 1 millj. og 345 þús. til stofnana, sem eru óháðar ríkinu í raun og veru, og náttúrlega voru flestar þessar stofnanir til, áður en núv. stj. tók við, og greiddu þær þá meira í starfslaun en nú. Stærst þessara stofnana er landssíminn.

Þá eru önnur fyrirtæki, n. ýmsar og stj., sem núv. stjórnarflokkar hafa að nokkru leyti sett á laggirnar, en hafa líka að nokkru leyti verið til áður, eins og t. d. síldarbræðsla ríkisins. Er því algerlega villandi að halda því fram, að núv. stj. hafi hækkað launagreiðslurnar upp í 5 millj. kr. Mér þykir t. d. skorta á, að ekki skuli vera til skrá yfir launagreiðslur fisksölusamlagsins, sem í starfi sínu er sambærilegt við mjólkursölusamlagið, t. d. En það veldur því, að stj. hefir þar ekki með launagreiðslur að gera. En þar eru starfslaun upp undir 200 þús. kr. Af því sést, hvað er að byggja á skrafi sjálfstæðismanna um að þeir óski eftir niðurfærslu á launagreiðslum ríkisins.

Þá minntist hv. þm. Vestm. á, að Alþfl. hefði talað um það fyrir kosningar, að lækka tolla á nauðsynjavörum, en hækka beinu skattana. Hann komst að þeirri niðurstöðu, að annað atriðið hefði flokkurinn þó ekki svikið, að hækka beinu skattana, því að þeir væru hér hærri en í nokkru öðru Evrópulandi, þar sem hann þekkti til. Hann sagði, að flokkurinn hefði ætlað sér að lækka tolla á nauðsynjavörum, og er það rétt. En Alþfl. er ekki svo blindur að setja þá kröfu ofar því, sem á hverjum tíma er nauðsynlegt þjóðarheildinni, því að stjórnarflokkarnir verða að gera sér far um að tryggja þjóðarbúskapinn svo vel, að þjóðarheildin bíði ekki tjón. Þó að flokkurinn hafi orðið að slá nokkuð af þeim kröfum, sem hann hefir sett fram í pólitískri agitation, mun hann síðar þegar tímarnir batna, ekki síður vinna að því að lækka tollana en hann hefir nú unnið að hækkun beinu skattanna.

Þá minntist hv. þm. á hinar voðalegu fjármálaráðstafanir stj. Hæstv. fjmrh. benti á, að heildartekjur ríkissjóðs eru nú hærri en þegar stj. tók við. Og hann sýndi fram á, að þjóðin borgar ekki eyri meira í tolla og slíkt nú en áður. Að vísu stendur þjóðin verr að vígi nú en þá, en þó er ekki meira af henni tekið. Þetta er því skraf út í loftið. En stjórnarflokkarnir hafa hinsvegar notað skatta þá, sem ríkissjóður hefir tekið, til að vinna gegn hinu mikla böli, atvinnuleysinu. Þeir sjá, að það er engin leið til að lækka skattana nema því aðeins, að skornar séu niður opinberar framkvæmdir eða lækkaðir ýmsir styrkir til slíkra framkvæmda. Sjálfstæðismenn hafa oft verið beðnir að benda á, hvað þeir vilji, að lækkað sé af álögum þessum, en þeir hafa aldrei getað bent á neitt, sem máli skipti. Brtt. þeirra við fjárl. hafa nær eingöngu verið um lækkun á framlagi til verklegra framkvæmda, því að enginn treystir sér til að leggja til, að lækkað verði framlag til heilbrigðismála, menntamála eða dómgæzlu og lögreglustjórnar, enda gerðu sjálfstæðismenn á sínum tíma tilraunir til að auka þann kostnað að verulegum mun. En þetta eru aðalútgjöld ríkissjóðs, auk verklegra framkvæmda. Þeir myndu vafalaust líka vilja draga úr tryggingarkostnaðinum, en það yrði varla vinsælt, eins og sést á því, að 20 þús. manns skuli þegar fyrir áramót hafa greitt iðgjöld sín í Reykjavík einni. Sýnir þetta, að tryggingarnar eru vinsælar meðal fólksins og að það skilur gildi þeirra.

Auk þess má geta þess, að eitt af því, sem Alþfl. er sérstaklega ákærður fyrir, er það, að hann hafi viljað vinna það til, svo að tryggingunum yrði komið fram, að leggja aðflutningsgjald á nauðsynjavörur, sem fátækur almenningur notar sér til matar. En Alþfl. sá, að ekki var hægt að rýra tekjur ríkissjóðs svo, að þetta fé væri tekið frá honum. Alþfl. hefir aldrei fylgt pólitík hv. 10. landsk. og hans líka, að krefjast stöðugt aukinna útgjalda, án þess að benda á leiðir til að afla fjár til þeirra. Ég man bara eitt tilfelli, þar sem hv. 10. landsk. hefir jafnframt bent á fjáröflunarleið. Það var, þegar hann vildi taka nokkuð af vegafé, til þess að byggja fyrir hlandforir uppi í sveit.

Báðir þessir hv. ræðumenn minntust á skortinn í kaupstöðunum, Þeir minntust á það, að fyrir nokkrum kvöldum hefði verið frá því sagt í útvarpinu, að á Bíldudal væri hvorki til matvæli né eldiviður. Dettur nú þessum mönnum í hug að halda því fram, að þetta sé fyrir aðgerðir ríkisstj.? Þeir hafa báðir gengið fram hjá aðalatriðinu, sem er hinn mikli aflabrestur, sem orðið hefir mörg undanfarin ár. Eða vita þessir menn ekki, að afli á Vestfjörðum, Austfjörðum og jafnvel Faxaflóa, hefir verið svo margfalt minni heldur en nokkru sinni áður. Er það stj. að kenna? Og vita þeir ekki, að viðskipti vor við aðrar þjóðir hafa verið færð í þær viðjar, að vart er mögulegt að snúa sér við? Þeir gengu sem sagt báðir fram hjá því, sem er aðalatriðið, en það eru erfiðleikarnir á viðskiptum vorum við útlönd og hagnýtingu framleiðslunnar úr sjónum. En hvorugur minntist á þetta, ekki einu sinni hv. þm. Vestm., sem maður hefði þó getað gert þá kröfu til. Ég vænti þess ekki af hv. 10. landsk., því að hann sér aldrei neitt nema landbúnað og bændur. En hv. þm. Vestm. hefði átt að minnast á þetta og skýra, hvernig þessum erfiðleikum ætti að mæta.

Hv. þm. Vestm. sagði, að stjórnarflokkarnir hefðu lofað að létta af sköttum, en þeir hefðu þyngt þá; þeir hefðu lofað að minnka atvinnuleysið, en þeir hefðu aukið það; þeir hefðu lofað að létta undir með atvinnuvegunum, en þeir hefðu íþyngt fyrir þeim. Ég hefi í því, sem ég hefi sagt, að nokkru svarað þessum ásökunum, en meginsvarið verður vitanlega að felast í því viðhorfi, sem á hverjum tíma verður til að uppfylla þau gefnu loforð, og ég hika ekki við að segja það, að stjórnarflokkarnir hafa gert allt, sem í þeirra valdi hefir staðið, til þess að uppfylla þessi loforð. Atvinnuleysið í landinu hefir minnkað, frá því sem áður var. Atvinnuleysisskráningarnar, sem hv. þm. Vestm. minntist á, eru enginn mælikvarði fyrir því, hvað atvinnuleysið var áður en stjórnarflokkarnir tóku við völdum, vegna þess að það er vitað, að bæði hér í Reykjavík og annarsstaðar komu menn ekki til skráningar, þar eð þeir vissu, að það hafði enga þýðingu. Nú vita þeir aftur á móti hið gagnstæða. Þeir vita, að stjórnarflokkarnir vinna að því að leysa atvinnuleysisvandræðin, og því koma menn til skráningar, og því er skráningin nú sú rétta, en eins og hún var áður, var hún ekkert nema kák. Það getur líka hver maður sagt sér sjálfur, hvort það ekki hefir áhrif á atvinnuleysið í landinu, að nú er varið 6 millj. kr. úr ríkissjóði beinlínis til verklegra framkvæmda og ýmsrar styrktarstarfsemi við atvinnurekstur landsmanna. Hefðu sjálfstæðismenn haft ráðin, þá er vafalaust, að þetta fé hefði ekki verið svona mikið, vegna þeirrar stefnu, sem þeir fylgja í atvinnumálum, sem er sú, að einkaframtakið sjái að sem mestu leyti fyrir atvinnurekstrinum í landinu. Þeir hefðu því ekki tekið ríkisfé til þess að létta róðurinn í þessu efni. Hefðu þeir gert það, þá hefðu þeir verið ósamkvæmir sinni stefnuskrá, sem byggist á því, að láta einstaklingana sjálfa sjá fyrir atvinnulífi landsmanna. Þessi sami hv. þm. sagði, að stj. hefði ekki létt undir með atvinnuvegunum, heldur íþyngt þeim með sköttum. En það er á fleiri vegu hægt að létta undir með atvinnuvegunum heldur en að létta af þeim sköttum. Og ég veit ekki til að nokkru sinni hafi verið gerðar stórfelldari tilraunir heldur en einmitt nú í tíð núverandi stjórnarflokka til þess að greiða fyrir smáútvegsmönnum um land allt og létta byrðar þeirra. Það hefir verið stofnaður skuldaskilasjóður vélbátaeigenda, til þess að létta skuldir þeirra, veita þeim hagkvæm lán og losa þá við skuldir, sem þeir urðu að dragast með á sínum atvinnurekstri. Þetta gleymdi hv. þm. Vestm. að minnast á. Hann gleymdi líka að minnast á það, að fyrir aðgerðir stjórnarflokkanna hefir margskonar nýbreytni verið tekin upp í verkun, útflutningi og hagnýtingu sjávarafurða, sem nú þegar hefir sýnt það, að með breyttu fyrirkomulagi má draga að verulegu leyti úr þeim vandræðum, sem þjóðfélagið mun komast í við það, að saltfisksalan stöðvast. Eins er það fyrir beinar aðgerðir stjórnarflokkanna, að síldarútvegurinn gat á síðastl. ári skilað jafnglæsilegum árangri og raun er á, því að ef þeir hefðu ekki beitt sér fyrir auknum síldarverksmiðjuiðnaði í landinu, hefði það gull ekki komið inn í landið, sem kom fyrir síldarafurðirnar. Allt þetta gleymdi hv. þm. Vestm. að minnast á, þegar hann hélt sína skörulegu ræðu áðan.

Ég skal svo ekki þreyta þingheim með lengri ræðu. Hv. 10. landsk. finnst mér ég aldrei þurfa að svara neinu. Afstaða hans og hans flokks er þannig hér á Alþ., að það er eiginlega enginn, sem getur tekið tillit til hans. Meðferð hans á öllum málum er sú, að heimta og heimta eingöngu fyrir landbúnaðinn, en aldrei fyrir neitt annað, og koma aldrei með neinar till. til þess að mæta þeim auknu útgjöldum, sem þessi heimtufrekja myndi hafa í för með sér, ef henni væri að nokkru sinnt. Ég þykist því ekki þurfa að fara fleiri orðum um ræðu hans.