24.02.1937
Neðri deild: 8. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 268 í C-deild Alþingistíðinda. (1490)

25. mál, alþýðutryggingar

*Flm. (Gísli Sveinsson):

Herra forseti! Ég get verið fáorður um flest af því, sem fram hefir komið. Ég vil aðeins bæta við það, sem ég hafði að athuga við mál hæstv. ráðh., þar sem hann talaði um, að við flm., og yfirleitt okkar flokkur, værum að hamra á því, að hér væri um brot á þingræði og lýðræði að ræða. Það er vorkunnarlaust að hafa rétt eftir það, sem prentað er í grg. frv., og eins það, sem prentað er í hinni rökstuddu dagskrá, sem við fluttum á þinginu 1935, og í hvorugu tilfellinu er talað um brot á lýðræði og þingræði, heldur beinlínis sagt, að það, að vilja ekki bera þetta mál undir þá aðilja, sem það kemur niður á, sé ekki samkv. réttum lýðræðisreglum. Ef hæstv. ráðh. hefir aðrar reglur um lýðræði heldur en þær, að láta fólk vita um — og greiða atkvæði um í vissum tilfellum — það, sem er að gerast í mikilvægum málum þjóðarinnar, þá væri gott að fá að heyra þær reglur. En að öðru leyti er eðlilegt, að hæstv. ráðh. vilji tala um lýðræði á sérstakan hátt, því að hans flokkur er kominn út á nokkuð hála braut í því efni.

Þá vil ég víkja máli mínu til hv. síðasta ræðumanns, hv. 1. landsk. Þó að hann þættist ekki ætla að tala um málið sérstaklega, þá hnigu hans orð nokkuð að einstökum atriðum málsins. Hann talaði um fullyrðingar í grg. og líka í ræðu minni, að þessi löggjöf hefði þegar í upphafi orðið alræmd. Það hefi ég ekki sagt, en að vissu leyti má segja, að hún hafi orðið illa þokkuð eins og hún var borin fram á þingi, sérstaklega vegna þess, að það varð þegar bert, að hamra átti hana í gegn. Að því er það snertir, sem hæstv. ráðh. sagði, að málið hefði fengið nægan undirbúning, þá er það að segja, að það fékk ekki heldur nægan undirbúning af hálfu þeirrar n., sem átti að fjalla um málið, og á þinginu gafst ekki heldur kostur á að athuga það sem skyldi.

Þetta mál hefir og fleiri hliðar heldur en hina fræðilegu útreikningshlið, og þá kem ég að því atriði í ræðu hv. þm., þar sem hann vildi halda fram, að við bærum hér fram frv. út í bláinn og á sandi byggt. Ég gat þess í tilsvari til hæstv ráðh., að við hefðum eðlilega gengið út frá því, að vegna lækkunar á gjaldinu hlyti jafnframt að rýrna það, sem á móti kæmi. En almenningur, sem rís undir þessum byrðum, telur eðlilegt, að rýrnunin verði síðar bætt með greiðslu úr allsherjarstofnun landsmanna, sem sé ríkissjóði. En hér kemur ekki til greina neinn nýr útreikningur. Það er einfalt mál, að rýrnunin kemur fram á sínum tíma hlutfallslega við það, sem tekjurnar eru rýrðar, og í skrá, sem fylgir þessu máli, er það gefið, hvernig þetta verkar.

Þá skildi hv. þm. sízt í því, að við skyldum koma með breyt. á ellitryggingalögunum, en ekki sjúkratryggingalögunum. En hann verður kannske fyrstur til að koma með breyt. til þess að milda þau gjöld, sem af sjúkratryggingunum leiða. En ég tók það nægilega fram, að við, sem flytjum þetta frv., tækjum einkum þau atriði, sem snertu fólk út um land, en ætluðum kaupstaðafulltrúunum að bera fram breytingar við þau atriði, sem snertu fólk í kaupstöðum landsins. Nú er hv. þm. svo framarlega settur í þessum bæ og yfirleitt í málum landsins, að hann hefði, í staðinn fyrir að ávíta okkur fyrir að koma ekki með nægilegar breyt. í þessu efni átt að koma með breyt. sjálfur, þar sem hann sagði, að öllum forgöngumönnum þessa máls hefði verið ljóst, að þessum lögum þyrfti bráðlega að breyta, Og að sjálfsögðu erum við fúsir til að styðja hverjar þær breyt., sem við sjáum, að eru til bóta. — En hinu trúi ég mátulega, að hann hafi glöggar fregnir frá alþýðunni, verkamönnunum, að allir séu ánægðir og lofi þessi lög. Að vísu játaði hann í öðru orðinu, að þó hefðu komið fram óánægjuraddir, og tel ég það trúlegt.