24.02.1937
Neðri deild: 8. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 270 í C-deild Alþingistíðinda. (1492)

25. mál, alþýðutryggingar

*Thor Thors:

Ég þarf ekki að þessu sinni að blanda mér mikið inn í umr., þess mun síðar gefast kostur. En vegna þess að hv. 1. landsk. hefir tvisvar í ræðum sínum vikið að afstöðu okkar fulltrúa Sjálfstfl. í hv. allshn. til tryggingamálsins, hefi ég kvatt mér hljóðs.

Það er rétt hjá honum, að við vorum sammála hv. andstæðingum okkar um nauðsyn og réttmæti ellitrygginga út af fyrir sig, en við sáum þó nokkra galla á frv. og áttum þátt í því í allshn., að leiðréttir voru ýmsir þeir gallar, sem upphaflega voru á frv. Við höfum nú orðið þess vísari, frá því að lögin komu til framkvæmda, að ýms ákvæði á sviði ellitrygginganna hafa mjög orðið til þess að ala á óánægju almennings. Við höfum fengið þær fregnir víða af landinu, og ég fyrir mitt leyti ekki aðeins úr mínu kjördæmi, heldur einnig ýmsum öðrum, að þau gjöld, sem lögð eru á einstaklingana til þessara trygginga, eru of há, eins og nú árar yfirleitt hjá fólkinu í landinu. Við vitum, að þetta fólk á mjög örðugt með að inna þessi gjöld af hendi. — Það er of sterkt til orða tekið hjá hv. 1. landsk., að brtt. raski að öllu grundvelli ellitrygginganna og sé flutt út í bláinn. Hér er vitanlega ekki um annað að ræða en það, hvernig eigi að fylla það skarð, sem þarna hefir skapazt, — hvernig eigi að ná inn því fé, sem þarna vantar, ef þessar till. ná fram að ganga, til þess að hin upphaflegu hlunnindi ellitrygginganna nái fram að ganga.

Hv. 1. landsk. þarf ekki að undra svo mjög afstaða okkar sjálfstæðismanna gagnvart sjúkratryggingunum, sem sættu miklum andmælum upphaflega frá sjálfstæðismönnum í allshn. Við afgreiðslu alþýðutryggingalaganna var afstaða okkar sjálfstæðismanna í allshn. upphaflega sú, að eins og nú væri komið hag almennings í kaupstöðunum, þá væri þetta óvinsælt mál, þar sem gjöldin til sjúkrasamlaganna væru ofvaxin almenningi. Það kom á daginn, að þetta var rétt, enda neitar því enginn, að sjúkratryggingarnar hafa upphaflega orðið óvinsælar einmitt vegna þess, að gjöldin til þeirra voru hærri en almenningur átt kost á að inna af höndum. Það hafa borizt fregnir um þetta víða af landinu, og þeir, sem kunnugir eru í Rvík, vita, að almenningur kvartar undan þessum háa nefskatti, og ekki sízt ættu þeir, sem standa framarlega í Alþfl., eins og hv. 1. landsk. að hafa fundið greinilega til þess. En ástæðan til þess, að brtt. við sjúkratryggingarnar eru ekki fram bornar með þessu frv., er sú, eins og að nokkru leyti kom fram í ræðu hv. þm. V.-Sk., að þetta mál er nú til endanlegrar athugunar hjá þeim mönnum innan okkar flokks, sem kunnugastir eru framkvæmd sjúkratrygginga hér í bæ. Þær brtt. munu koma fram síðar á þinginu, og þegar þær eru fram komnar og eins þær aðrar breyt., sem væntanlegar eru frá tryggingastofnun ríkisins, þá fyrst liggur þetta þannig fyrir, að við getum rætt lið fyrir lið út í æsar.