25.02.1937
Neðri deild: 9. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 278 í C-deild Alþingistíðinda. (1508)

28. mál, viðgerðir á skipum

*Emil Jónsson:

Þetta mál ber nú nokkuð öðruvísi að en ég ætlaði. Mál þetta lá fyrir síðasta þingi, og síðan hefir Skipulagsnefnd atvinnumála athugað það eftir föngum og aflað sér um það allra gagna frá útvegs- og iðnaðarmönnum, eins og sést í áliti n. Það var tilætlunin, að n. léti flytja frv. um þetta efni, að vísu í nokkuð annari mynd en frv. hv. 3. landsk.

Sú atvinna, sem hér er um að ræða, er mikil, og því fullkomin ástæða til að reyna að tryggja landsmönnum hana eins og hægt er. En munurinn á frv. n. og frv. hv. 3. landsk. er sá, að í því frv., er hér liggur fyrir, er skilyrðislaust gert ráð fyrir, að viðgerðir á skipum fari fram hér, en við ætlumst til, að innlendum skipasmiðastöðvum sé jafnan gefinn kostur á að framkvæma þessar viðgerðir og fái þær að öðru jöfnu. Annars mun ég ekki ræða um þetta frekar að sinni, þar sem frv. mun fara til iðnn., þar sem ég á sæti. En ég vil taka það fram, að ég fylgi aðal„principi“ frv. — að þessi atvinna verði dregin inn í landið, eftir því sem hægt er.

Hv. þm. G.-K. hélt því fram, að útveginum væri íþyngt með iðnaðinum, með því að hann væri neyddur til þess að kaupa innlendar vörur. Hann gat þess þó ekki, hvaða iðnvarningur það væri, sem útgerðin keypti hærra verði en hún fengi þær erlendis. Þær vörur innlendar, sem útgerðin kaupir af þessu tagi, eru vörpur og veiðarfæri, og ég held, að verð á þeim standist alveg samanburð við verðið á erlendum veiðarfærum. Það er því ekki rétt að vera að tala um, að iðnaðurinn sé að sliga útgerðina, enda hefir gjaldeyrisnefnd fylgt þeirri reglu, að veita innflutningsleyfi á þeim útgerðarvörum, sem eru ódýrari erlendis.

Það sannar auðvitað ekki neitt, þótt ekki séu margir menn atvinnulausir hjá skipasmiðastöðvunum, því að þegar viðfangsefni vantar, eru mennirnir látnir fara. Þeir eru auðvitað ekki látnir ganga atvinnulausir á verkstæðunum.

Ég vil að lokum láta þá ósk í ljós, að hv. þdm. komi sér saman um að ganga svo langt í þessu efni sem þeir sjá sér fært.