25.02.1937
Neðri deild: 9. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 284 í C-deild Alþingistíðinda. (1517)

29. mál, talstöðvar í skipum

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Ég get verið sammála hv. flm. þessa frv. um það, að þess er mikil nauðsyn, að talstöðvum sé komið í báta af þessari stærð. Hinsvegar er ég hræddur um, að ekki sé nægilegt það ákvæði, sem hér er gert ráð fyrir í frv., að hvert skip, sem er stærra en 15 smálestir, skuli hafa talstöð, nema samtímis séu gerðar aðrar ráðstafanir, því að eftir því, sem ég hefi ástæðu til að ætla, er ekki viðbúið, að hægt verði að koma því í kring á svona skömmum tíma. Eftir því, sem ég bezt veit, eru talstöðvar komnar í 110 báta af þessari stærð og nokkra báta undir 15 smálestum. Nú eru 30 stöðvar í smíðum, og eru þá komin 140 skip yfir 15 smálestir, sem hafa talstöðvar um borð. Ég hefi ekki nákvæma tölu yfir þá báta, sem eru yfir 15 smál. að stærð, því að í skýrslum Fiskifélagsins er miðað við 12 smál. (PÞ: Þeir eru um 240). Eftir þeim upplýsingum, sem ég hefi fengið, ættu þeir að vera öllu fleiri. En ég ætla, að það séu um eða yfir 100 bátar, sem þyrftu að fá stöðvar.

Ég vildi mælast til við þá n., sem fær þetta frv. til meðferðar, að hún fengi til vitals póst- og símamálastjórann, sem er þessu máli kunnugur. Ég geri ráð fyrir, að það ætti ekki að taka mörg ár, að koma talstöðvum í öll vélskip af þessari stærð, ef landssímanum er heimiluð nóg fjárveiting til þess, en það er ekki unnt að gera það á einu ári.