25.02.1937
Neðri deild: 9. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 288 í C-deild Alþingistíðinda. (1519)

29. mál, talstöðvar í skipum

*Flm. (Páll Þorbjörnsson):

Mér kom að sönnu ekki á óvart þessi niðurbælda gremja hjá hv. þm. Vestm. út af því, að ég skyldi voga mér að flytja þetta frv., og sérstaklega þó, að það skuli vera á svo slæmu máli, að það hneyksli þennan sérstaklega góða íslenzkumann. Honum varð nokkuð tíðrætt um grg. þessa frv. og byrjaði á að hneykslast á því, að ég hafi sagt í grg., að það muni hafa gengið nokkuð treglega að fá þessar stöðvar hjá landssímanum. Hann vildi leggja það svo út, að ég væri með þessu að hnýta í landssímastjóra, en svo er alls ekki. Mér var ekki beinlínis kunn ástæðan fyrir því, að pantanir hafi orðið að bíða a. m. k. heilt ár, eða hvernig stendur á því, að t. d. Vestmannaeyingar, sem mér er kunnugt um, að ekki hafa haft minni áhuga fyrir því en aðrir, að fá þessi tæki í sína báta, eru aðeins búnir að fá tæki í 11 báta, eins og hv. þm. tók fram, en í sumum öðrum veiðistöðvum eru tæki komin í hvern bát. Það er síður en svo, að ég haldi því, fram, að landssíminn hafi tafið málið viljandi.

Þá fannst hv. þm. sérstök ástæða til þess að bæta við upplýsingum um stuðning Bátaábyrgðarfélags Vestmannaeyja, sem honum fannst ófullnægjandi hjá mér. Ég hafði ekki heyrt um forsögu þessa máls og sá ekki ástæðu til þess, þótt hún kynni að vera einhver, að fara að leita fyrir mér um það, hver átti till. á fundi Bátaábyrgðarfélagsins um þetta. En ég skal upplýsa það hér, svo að hv. þingheimur og aðrir heyri, að ástæðan fyrir því, að hv. þm. Vestm. tók sér það svo nærri, að ekki var nánar greint frá þessu, er sú, að hann er ekki í stjórn Bátaábyrgðarfélagsins, en í stjórn Björgunarfélags Vestmannaeyja, og það, sem honum gramdist, er, að hans virðulega nafn skuli ekki nefnt í grg. fyrir þessu frv.

Þá hefir hv. þm. orðið tíðrætt um ýmsa kostnaðarliði í sambandi við frv. Ég sagði, að uppsetningar- og rekstrarkostnaður væri frá 400–600 kr. Ég hefi stuðzt við upplýsingar, sem ég hefi fengið frá ýmsum mönnum, sem hafa haft spurnir af þessu eða látið setja tækin upp. Mér hefir einnig verið tjáð af mönnum í Vestmannaeyjum og annarsstaðar, að það væri allmikill munur á því, hver uppsetningarkostnaðurinn væri. Hv. þm. Vestm. upplýsti, að rafvirkinn í Vestmannaeyjum — en hann hefir einokunarrétt í þessu efni — tæki 700 kr. fyrir uppsetningu. En aftur á móti taldi hv. þm., að kostnaðurinn vari 600 kr. Þarna munar strax 100 kr. Annars mun hann vera minnstur í Rvík. Þeir menn, sem hafa meiri reynslu í þessu efni en bæði ég og hv. þm. Vestm., telja, að hann leiki á 600 kr. og allt niður í 450 kr., og fer það eftir því, hvort þarf að kaupa mikið af lömpum eða önnur óhöpp koma fyrir. Hv. þm. sagði, að Fiskifélagið hefði sett nefnd á laggirnar til þess að prófa, hvort leigan, 120 kr., væri sanngjörn, og nefndin hefði komizt að þeirri niðurstöðu, að hún væri það. Ég vil geta þess, að lengst framan af, og sennilega allt fram á þennan dag, hefir þessi smíði á talstöðvum hjá landssímanum verið tilraunasmíði, sem af eðlilegum orsökum hefir orðið ákaflega dýr, og dýrari en þetta þarf að vera og mun verða í framtíðinni. Hv. þm. Vestm. upplýsti, að landssíminn hefði tekið sér fram um að byrja á byggingu stöðva, sem væru heppilegar, hvað stærð og annað snertir fyrir íslenzka báta. Það hefir eðlilega orðið kostnaðarsamt að byrja þessa smíði og prófa sig áfram. Ég hefi leitað mér upplýsinga um þetta mál, vegna þess að ég hefi haft nokkur afskipti af öryggismálum sjómanna. En ég skal gera hv. þm. Vestm. það til geðs að geta þess, að mér hefir ekki verið falið að útvega stöðvar í báta í Vestmannaeyjum, en það er sennilegt, að hann hafi átt einhvern þátt í því. Mér er líka kunnugt, að svo óánægðir voru menn út af því, hvað það gekk seint að fá stöðvarnar, að það þótti ekki einhlítt að hafa þennan hv. þm., heldur var framkvæmdarstjóri Björgunarfélagsins sendur út af örkinni til þess að fá einhverju áorkað í þessu máli.

Í sambandi við kostnaðinn var hv. þm. að tala um móttökutækin. Ég vil nú benda honum á, að þótt það hafi verið svo fram að þessu, að algengir stofumóttakarar hafi verið notaðir í bátana og landssíminn ekki gert annað en byggja talstöðvar, þá hefir það komið til orða hjá landssímanum að sambyggja þetta, bæði taltækin og móttakarana.

Nú kem ég að því, sem kom fram í ræðu hæstv. atvmrh., og raunar líka í ræðu hv. þm. Vestm., en það er, hvaða möguleiki sé á því, að gera þetta á einu ári. Ég tel, að það muni vera í kringum 90 stöðvar, sem þarf að útvega. Ég hefi ástæðu til að ætla, að það muni vera hægt að fá tæki, hvort sem það er frá útlöndum, eða tæki, sem fela hvorutveggja í sér, bæði móttakara og taltæki, sem ekki þurfa að kosta yfir 1000 kr. Ég hefi fyrir mér nokkuð góðar upplýsingar um, að það muni vera auðsótt mál, að fá þessi tæki frá þekktri erlendri verksmiðju. og ekkert mun vera því til fyrirstöðu, að gjaldfrestur fengist um nokkuð langan tíma. Maður sá, sem ég talaði við, taldi sennilegt, að ekki þyrfti að greiða þetta fyrr en eftir 3–4 ár. Ég tel því ekki ástæðu til þess að óttast um það, að fyrir ríkisstj. sé í of mikið ráðizt, þó að byggðar séu 90–100 stöðvar.

Þá vildi hv. þm. Vestm. gera lítið úr frv., sem hans var von og vísa. Hann hefir haldið því fram, að þessar stöðvar komi, hvort sem er. Ég sveigi hvergi að því í grg. frv., að ég vantreysti útgerðarmönnum, að þeir svo fljótt sem auðið er útvegi sér þessi tæki. Hitt er og alkunna, að menn eru misjafnir, og það, sem einn gerir fljótt og vel, er annar tregur til. Við þekkjum frá síðustu þingum, hvílíka baráttu það hefir kostað að fá í lög leitt, að íslenzk fragtskip, sem sigla landa milli, hafi slík öryggistæki. Ég verð að segja, að þetta frv. inniheldur ákvæði um fleira en það eitt, að skylda báta til þess að hafa talstöðvar. Ég vil beina þeirri fyrirspurn til hv. þm., hvort hann geti hugsað sér, að það geti gengið, að 250 fiskibátar við strendur landsins væru komnir með talstöðvar, og engin hemill væri á notkun þeirra eða reglur, sem fylgja ætti. Það er nauðsynlegt, þegar talstöðvar eru komnar í hvern bát, að þá sé viss tími, sem hlusta á, svo tækin komi að einhverju gagni.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara lengra út í þetta mál að sinni. Ég skil vel, hvað hv. þm. Vestm. var að fara með ræðu sinni. Hann þurfti að fá útrás fyrir innibyrgða gremju, sem hann hefir væntanlega haft gott af að losna við.