26.02.1937
Neðri deild: 10. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 293 í C-deild Alþingistíðinda. (1525)

30. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

*Flm. (Ólafur Thors):

Sumum hv. þdm. finnst náttúrlega eðlilegt, að fjhn. fái þetta mál til athugunar. En að undanförnu hefir samskonar málum og þessu verið vísað ýmist til landbn. eða sjútvn., eftir því, hvort um sérhagsmuni landbúnaðarins eða sjávarútvegsins hefir verið að ræða í þessu efni. Þess vegna legg ég nú til, að málið fari til sjútvn. En jafnframt vil ég beina því til hv. sjútvn., að ef hún ætlast til þess, að fjhn. fjalli um málið, þá taki hún (sjútvn.) málið þegar fyrir, strax og hún hefir fengið það í hendur, og sendi málið svo fjhn. hið fyrsta til athugunar.

Treysti ég hv. sjútvn. til að bera svo góðan hug til þessa máls — og veit, að hún er vel kunnug málinu —, að hún láti það fá skjóta og góða afgreiðslu.