26.02.1937
Neðri deild: 10. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 293 í C-deild Alþingistíðinda. (1528)

31. mál, fiskveiðasjóður Íslands

*Flm. (Sigurður Kristjánsson):

Það ber líkt að um þetta mál og mál það, sem rætt var hér nú næst á undan, að það hefir verið flutt oft áður en nú. Það hefir verið flutt af sömu flm. og það er nú flutt, á þrem undanförnum Alþ. Er það því nú flutt í 4. sinn. Það er að sönnu rétt að geta þess, að frv. er ekki alveg óbreytt. Það hafa verið gerðar ýmsar smábreyt. á því vegna breyttra aðstæðna. En aðalefni frv. er alveg hið sama og verið hefir. Frv. er byggt á þeirri skoðun, að jafnmikilvirkan atvinnurekstur eins og sjávarútvegurinn er megi ekki bresta algerlega stofnlánsfé innanlands. En það má svo að orði kveða, að þessum mikilvirka atvinnuvegi sé alls ekki að neinu leyti — ég segi alls ekki að neinu leyti — séð fyrir stofnlánum. Það má nú kannske segja, að frá þessum orðum mínum megi draga það, að fiskveiðasjóður er þó starfandi. En eins og hv. þdm. er kunnugt, þá hefir hann svo að segja algerlega staðið í stað, síðan hann var endurskapaður með l. frá 1930. Og auðvitað var stofnun sjóðsins þá ekki annað en lagasetning, að heita mátti, um það, hvernig hann skyldi verða til. En sjálfur sjóðurinn varð vitanlega ekki til með þeim l. á þann hátt, sem hann á að verða, ef hann á að verða starfhæfur. Hann var stofnaður þá með þeim eignum, sem gamli fiskveiðasjóðurinn átti, sem var mjög lítilfjörlegt fé. En með l. var svo gerð ráðstöfun til þess að honum skyldi aukast fé, svo að hann gæti fullnægt hlutverki sínu.

Ég vil skjóta því hér inn í, að fallið hefir burt af vangá nafn eins af flm. þessa frv., hv. þm. Vestm. Er það annaðhvort pennafeil eða prentvilla.

Hlutverk sjóðsins er vitanlega það, að sjá fiskveiðaflota landsmanna fyrir nægilegum stofnlánum. Og eftir hugmynd okkar, núverandi flm. frv., þá á sjóðurinn ekki aðeins að geta séð fiskveiðaflotanum fyrir nægum stofnlánum, heldur verður hann að hafa svo mikið fé til umráða, að hann geti einnig lánað fé til þeirra fyrirtækja, sem hafa það hlutverk, að umskapa sjávaraflann og gera úr honum verðmæta útflutningsvöru.

Það er alveg óþarfi fyrir mig að vera að ræða hér um mikilvægi sjávarútvegsins. Það yrði ekki annað en endurtekning, enda hygg ég, að varla sé um það skiptar skoðanir. En það er alveg víst, að sjávarútvegurinn getur ekki orðið það, sem hann hefir að nokkru leyti verið og verða þarf fyrir landið og landsmenn, nema því aðeins að hægt sé fyrst og fremst að sjá honum fyrir fé til eðlilegrar aukningar veiðiskipaflotans og til þess, að veiðiskipafloti landsmanna geti á öllum tímum verið í nýtízku horfi, og í öðru lagi til þess, að með hjálp sjóðsins geti jafnhliða risið upp iðnaður, sem umskapað geti sjávaraflann í þær verðmætustu og seljanlegustu vörur, sem úr honum er unnt að vinna fyrir heimsmarkaðinn. Það er vitanlega ekki auðvelt að segja um það fyrirfram upp á eyri, hvað þetta fé þarf að vera mikið. En það er nú samt hægt að fara dálítið nærri um fyrri liðinn, af því að til er nokkurnveginn yfirlit yfir það, hve mikið fé liggur í skipastóli landsmanna. Eftir því ætti að mega reikna nokkurnveginn út, hvað mikið fé þarf til þess að halda þessum flota í nýtízku horfi og auka við hann eftir eðlilegum þörfum. Hitt er nokkuð erfiðara, að gera sér grein fyrir, hvað mikið stofnfé þarf til þess að koma á fót þeim iðnfyrirtækjum, sem eiga að vinna þær verðmætustu vörur, sem hægt er, úr sjávarafurðunum.

Ég vil taka það fram, þótt þess gerist e. t. v. ekki þörf, að við flm. þessa frv. teljum okkur ekki vera hér að koma fram með neina nýja hugmynd. Við erum aðeins að flytja eldri hugmynd og færa hana til nokkuð meiri fullkomnunar. Með lögum þeim um fiskveiðasjóð, sem nú gilda og orðin eru um 7 ára gömul, er beinlínis stofnað til þess, að fiskveiðasjóður verði a. m. k. þess megnugur, að endurnýja fiskveiðiflotann, því að það er gert ráð fyrir, að sjóðurinn skuli efldur svo, að hann komizt, að því er manni skilst á tiltölulega skömmum tíma, upp í 8 millj. kr. Til þess að auka og efla sjóðinn er fyrst og fremst með lögunum sjálfum ákveðið, að ríkissjóður skuli leggja sjóðnum til eina milljón kr. Ennfremur að taka skuli gjald af öllum útfluttum sjávarafurðum, er renni til sjóðsins. Maður verður nú að skýra frá, hvernig þessi lög hafa verið framkvæmd. Það er því nauðsynlegra að skýra rétt og hispurslaust frá því, þar sem það er farið að verða nokkuð títt, að Alþingi samþ. lög, sem sumpart þykir ekki fært að framkvæma, og sumpart, að því er virðist af ásettu ráði, er látið vera að framkvæma. Á þessu er sjálfsagt að gera breytingu, — þá breytingu, að það geti ekki komið til mála, að Alþingi sé gersamlega hundsað á þennan hátt, þegar það gefur stjórninni sín fyrirmæli.

Eins og ég sagði áðan, er í l. um fiskveiðasjóð frá 1930 fyrst og fremst mælt svo fyrir, að greiða skuli sjóðnum eina millj. kr. úr ríkissjóði. Var strax gefin út reglugerð, sem mælti svo fyrir, að þetta yrði greitt á 10 árum þannig, að ríkissjóður greiddi 100 þús. kr. á ári. Þrátt fyrir það er sjóðurinn ekki farinn að sjá einn einasta eyri af þessari milljón. Að sönnu er til sú smuga, að í reglugerðinni er bætt við, að framlagið skuli að fullu greitt 1. júlí 1941. Þessa átyllu hefir ríkisstj. notað til þess að vanrækja gersamlega þessa greiðslu. En það ætla ég, að hver einasti maður skilji, að þessi greiðsla hefði ekki verið vanrækt þannig ef ekki hefði einmitt verið mikil tilhneiging hjá þeim ríkisstjórnum, sem setið hafa á þessu tímabili, í þá átt að vanrækja mál sjávarútvegsins. Svo margar greiðslur hafa farið fram úr ríkissjóði, bæði samkvæmt lögum, þingsályktunum og sumpart utan lagaheimilda, og það svo stórfelldar greiðslur, að það mun sennilega enginn trúa því, að vanrækslan í þessu efni hafi eingöngu stafað af getuleysi.

Um hitt atriðið, að auka stofnfé sjóðsins með hlutdeild í útflutningsgjaldi af sjávarafurðum, hefir farið ákaflega svipað. Það er við því að búast, að ef ríkisstj. og Alþingi er ekki nógu vakandi fyrir nauðsyn þess, að sjávarútvegurinn sé ekki á sandi byggður, þá verði hann undir í samkeppninni við ríkissjóðinn sjálfan um það útflutningsgjald, sem fært þykir að leggja á útfluttar sjávarafurðir. Enda hefir það verið svo, að fiskveiðasjóður hefir ekki fengið nema að mig minnir ?% af verði útflutningsins, þegar ríkissjóður hefir fengið 1½% til sín. Af þessu leiddi svo það, að fiskveiðasjóður varð að reyna að slá sér lán. Hann fékk frekar dýrt lán, 5½% lán, og þegar sjóðurinn fer að taka á sig áhættu af útlánum, hækkar þetta þannig, að sjóðurinn lánar að sönnu út með 6% vöxtum, en þar við bætist ¼%, sem kallað er áhættugjald, og 1% af lánsupphæðinni, sem kallað er lántökugjald, svo að í raun og veru kosta lánin nokkuð á 7%. Nú var það svo á tímabili a. m. k., að meðal mjög margra, kannske alls almennings, var álitið, að það eina, sem þyrfti til þess að hjálpa atvinnuvegunum, væri nægilegt lánsfé. En síðustu ár hafa fært mönnum heim sanninn um það, að atvinnuvegirnir hafa jafnvel ekki annað en bölvun af lánsfé, sem ekki er við hæfi atvinnurekstrarins. Það er víst, að stofnlán, sem sett eru í fyrirtæki eins og þau, er ég tala hér um, og lán til landbúnaðarins mega alls ekki vera dýr; þau mega sennilega ekki fara fram úr 4%. Nú er engin leið að hafa svo ódýr lán, ef lánsstofnanir eiga að afla fjárins með lánum frá öðrum. Einasta leiðin til þess, að fiskveiðasjóður geti lánað með bærilegum kjörum, er þess vegna sú, að hann starfi eingöngu með eigið fé. Það hefir orðið nokkur ágreiningur um þetta, sem m. a. kemur fram í þeim frv. um fiskveiðasjóð, sem borin hafa verið fram af öðrum en okkur flm. þessa frv., því að í þeim tveimur frv. um fiskveiðasjóð, sem lágu fyrir síðasta þingi, var gert ráð fyrir, að sjóðurinn starfaði mikið með lánsfé. Stjórn sjóðsins hefir nú sagt álit sitt um þessi frv., og má ætla, að það sé gert að mjög yfirlögðu ráði, því að sjóðstjórnin var afarlengi að athuga málið. Og hún sker ákaflega einarðlega úr um það, að það sé ekkert vit í að ætla sjóðnum að starfa með lánsfé. En ef hann á að starfa með eigin fé, sjáum við flm. eigi til þess aðra leið en þá, sem ég hefi drepið á, en hún er sú, að sjóðurinn fái að eflast fyrst og fremst af því framlagi úr ríkissjóði, þótt lítilfjörlegt sé, sem honum er tilskilið með lögum, og svo í öðru lagi af útflutningsgjaldi sjávarafurða. Við höfum því lagt til, að helmingur af núverandi útflutningsgjaldi sjávarafurða gangi til fiskveiðasjóðs, en gerum jafnframt ráð fyrir, að útflutningsgjaldið til ríkissjóðs verði algerlega fellt niður. Ef tækist að fá sjóðinn efldan á þennan hátt gæti hann eingöngu starfað með eigin fé, og þá teljum við vafalaust, að með gætilegum reglum um útlán gæti sjóðurinn veitt lán fyrir 4–4½%.

Frv. þau um fiskveiðasjóð, sem við þessir sömu flm. höfum flutt á undanförnum þingum, hafa að sönnu ekki verið felld. En þau hafa ekki heldur náð fram að ganga, og af því mætti sjálfsagt álykta, að nokkur mótstaða sé gegn málinu. Vil ég ekki heldur neita, að ég lít svo á. En eins og ég tók fram, munu nú flestir verða að viðurkenna það, að sá atvinnuvegur, sem stendur undir jafnmiklum byrðum eins og sjávarútvegurinn, sem heldur uppi meira en nokkur annar atvinnurekstur í landinu atvinnulífi, sem er á beinan og óbeinan hátt mesta tekjulind ríkissjóðs og aðalundirstaðan undir afkomu ríkisins og landsmanna út á við, — að hann ætti í sjálfu sér, slíkur atvinnuvegur, að njóta almennrar velvildar, og menn ættu að sjálfsögðu að leggja sig í líma til þess að sjá honum borgið. Og ég skal ekki efast um, að það sé almennt vilji manna. En hvað er það, sem aðallega tryggir afkomu þessa atvinnurekstrar? Það má segja, að eitt af því sé okkur óviðráðanlegt, nefnilega hvort nokkrir vilja kaupa afurðir hans. En hitt, sem er höfuðatriðið, er það, sem ég talaði um áðan, að tryggja það, að skipastóllinn sé á hverjum tíma í nýtízku horfi, og í öðru lagi, að hægt sé að vinna úr sjávaraflanum þau mestu verðmæti, sem úr honum verða unnin og útgengilegust eru á erlendum markaði. Við það vinnst ekki aðeins það, að miklu meiri erlendur gjaldeyrir skapast, heldur verður það líka höfuðundirstaðan undir atvinnulífinu í landinu. Þótt svo mætti nú virðast eftir þeirri tregðu, sem verið hefir á því, að fá þessu máli framgengt, að nokkuð skorti á skilning Alþingis á mikilvægi málsins, þá eru nú nokkur líkindi til, að eftir þá löngu nótt skilningsleysisins sé nokkuð að rofa til. Vil ég í því sambandi vitna til þess sama, er flm. næsta máls á undan vitnaði til, erindis, sem ég heyrði flutt í útvarpinu í gærkveldi um sjávarútvegsmál landsins. Það var flutt í umboði þeirrar n., sem að lögum heitir skipulagsnefnd atvinnumála og í eru eingöngu stuðningsmenn núverandi stjórnar. Mér þótti á vissan hátt merkilegt að heyra, að það merkasta, sem boðberi þessarar n. hafði fram að færa í þessu mikilvæga máli, var einmitt einskonar útdráttur úr nokkrum frv., sem við sjálfstæðismenn höfum flutt á Alþingi. Hann sagði í fyrsta lagi, eins og hv. þm. G.-K. vitnaði til áðan, að það væri krafa n., að útflutningsgjald af sjávarafurðum yrði fellt niður. En hitt þótti mér ekki síður mikilsvert, að hann taldi það vera höfuðbjargráð smærri útvegsins frá sínu sjónarmiði, og þá um leið, að því er manni skilst, sjónarmiði n. og þeirra flokka, sem að henni standa, að gera rekstraraðstöðu útvegsins hagstæðari með hagkvæmum vöruinnkaupum til útgerðarinnar. Þetta er tekið upp úr frv., sem við sjálfstæðismenn höfum flutt á tveimur undanförnum þingum um rekstrarlánafélög smáútvegsmanna. En um stórútgerðina sagði aftur þessi umboðsmaður stjórnarflokkanna, að mikilvægasta atriðið væri endurnýjun flotans, að séð væri um, að fiskiflotinn gæti endurnýjazt, svo að hann væri alltaf í nýtízkuhorfi. Þetta er í rauninni í fáum orðum sagt efni þess frv., sem við flytjum hér nú. Og af því ég efast ekki um, að þessi maður hefir ekki talað ábyrgðarlaust, heldur farið þarna með skoðun samstarfsmanna sinna í n. fyrst og fremst, og að öllum líkindum líka þeirra flokka, sem að n. stóðu, þá ætla ég, að mér sé leyfilegt að draga af orðum hans þá ályktun, að það séu orðin nokkur sinnaskipti þessu máli í vil innan stjórnarflokkanna, þannig að þetta frv. megi nú eiga von á greiðri götu gegnum þingið.

Ég hirði eigi um að fara út í nein einstök atriði frv., né heldur að endurtaka nema sem allra minnst af því, sem áður hefir verið sagt við flutning málsins, og því ætla ég eigi að hafa þessi orð fleiri. En ég vil gjarnan gera að mínum orðum, og þá niðurlagsorðum í þetta sinn, niðurlagsorð þess manns, sem í gærkveldi var talsmaður stjórnarflokkanna um sjávarútvegsmál í útvarpinu, en hann komst svo að orði, að ef sjávarútvegurinn fengi að njóta jafnréttis við aðra atvinnuvegi í landinu, þá mundi hann geta blómgazt ekki síður en þeir, og ennfremur, að á afkomu sjávarútvegsins ylti að langmestu leyti afkoma þjóðarinnar.

Að lokinni þessari umr. óska ég, að málinu verði vísað til hv. sjútvn.