27.02.1937
Neðri deild: 11. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 302 í C-deild Alþingistíðinda. (1534)

36. mál, vinnudeilur

*Flm. (Thor Thors):

Ég get í raun og veru látið mér vel líka þær umr., sem fram hafa farið um þetta mál. Hæstv. forsrh. hefir tekið þessu máli með skilningi og velvild, eins og áður, og hv. 2. þm. Reykv. tók heldur mjúklega á málinu. Maður verður að láta sér skiljast það, að maður í hans aðstöðu verður að líta til hægri og vinstri. Jafnframt því, sem hann gerir gælur við málið, þarf hann að hreyta í það ónotum og þá, sem málið bera fram. Það er skiljanlegt, að hann verði að gera það, til þess að koma sér vel við báða þá arma, sem deila innan Alþfl..

Hv. 2. þm. Reykv. byrjaði með ónot um það, að þetta frv. væri áframhaldandi tilraunir vinnuveitenda til þess að skerða verkalýðssamtökin.

Hann sagði þó að vísu, að þetta væri sú mildasta tilraun, sem fram hefir komið. En hann leyfði sér að halda fram, að frv. væri eingöngu borið fram til þess að koma á takmörkunum á samtakamætti alþýðunnar. Hann veit það afarvel, að þær takmarkanir, sem þetta frv. setur, ná alveg jafnt til beggja aðilja. Það er um takmarkanir að ræða fyrir því, að skella á vinnustöðvun alveg undirbúningslaust, en þær takmarkanir ná alveg eins til verksviptinga vinnuveitenda eins og til verkfalla verkafólksins.

Hv. þm. staðhæfði, að þetta væri eingöngu tillögur atvinnurekenda, sem hér koma fram. Máli þessu til skýringar vil ég nokkuð víkja að því, hvern undirbúning það fékk innan sjálfstæðisflokksins. — Það var árið 1931, að þetta mál var rætt í félagi ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, og 1932 var samþ. ákveðin till. á sambandsþingi ungra sjálfstæðismanna um, að svipuð vinnulöggjöf og gildir á Norðurlöndum skyldi undirbúin hér. Á Alþingi 1934 hreyfði ég þessu máli innan þingflokks sjálfstæðismanna, og á flokksfundi þeirra var svo skipuð n. til þess að undirbúa þetta mál. Þá barst okkur boð um það, að vinnuveitendur væru að undirbúa till. um þetta í samræmi við þau lög, er giltu um þetta efni á Norðurlöndum. Við hnigum að því ráði, að bíða eftir þessum till. Við tókum þær svo í okkar hendur, fórum yfir þær, breyttum þeim að mörgu leyti og bárum svo fram það frv., sem hér liggur fyrir.

Við mundum að sjálfsögðu sem þingflokkur ekki hafa litið við að bera fram frv., ef okkur hefði fundizt, að hér væru eingöngu teknir til greina hagsmunir annars aðiljans.

Ég hefi margsinnis bent á það, og skora á hv. 2. þm. Reykv. að hrekja það, að nokkuð það sé í þessu frv., sem ekki er fullt samkomulag um milli ábyrgra stjórnmálaflokka á Norðurlöndum. Þegar svo er frá þessu frv. gengið, er vissulega ekki hægt að staðhæfa, að verið sé að bera fram einhliða till. annars aðiljans.

Hv. 2. þm. Reykv. vék að þeirri einkennilegu samþykkt alþýðuflokksþingsins, þar sem því er lýst yfir, að engin vinnulöggjöf skuli sett, nema hún verði til þess að auka og tryggja rétt verkalýðsfélaganna. Ég vil spyrja hv. þm.: Hvað er hægt að hugsa sér meiri rétt verkalýðsfélaganna heldur en þau hafa nú? Og hvað er hægt að hugsa sér meiri rétt vinnuveitenda heldur en þeir hafa nú, þegar þeir vilja skella á vinnustöðvun? Hver einasti atvinnurekandi er sjálfráður, hvenær hann segir verkamönnum upp, og hvert verkalýðsfélag getur stofnað til verkfalls hvenær sem því sýnist. Hvað er hægt að hugsa sér meiri rétt í þessu tilfelli? Og hvað er hægt að hugsa sér meira skipulagsleysi heldur en á sér stað á þessu sviði þjóðlífsins?

Hv. þm. var að tala um, að hver verkamaður ætti að eiga rétt á að ákveða kjör sín. Það er ætlazt til þess samkvæmt þessu frv. Hin viðkvæmu orð hv. þm. eru því töluð út í bláinn. Réttur verkamannanna til þess að gera verkfall helzt, þó að þetta frv. verði samþ.

Ég get svo látið mér vel líka, að hv. þm. er það langt kominn, að hann vill athuga málið. Hann vill taka það til yfirvegunar og athugunar, svo að ég noti hans eigin orð, en hann taldi ýmsar breytingar nauðsynlegar. Ég skal fúslega viðurkenna, að við höfum getið þess, flm. þessa máls, að við værum reiðubúnir til þess að taka hverri skynsamlegri brtt. sem fram kæmi í málinu.

Hæstv. forsrh. talaði hlýlega í garð þessa máls, og er það í fullu samræmi við það, sem hann hefir áður sagt. Ennfremur í samræmi við þá samþykkt, sem flokksþing framsóknarmanna gerði í þessu máli, en hún er svo ákveðin, að ekki verður um villzt. Með leyfi hæstv. forseta vil ég taka upp fyrsta atriðið úr þeirri samþykkt:

„Flokksþingið felur fulltrúum flokksins á Alþingi að vinna nú þegar að setningu nýrrar vinnulöggjafar á þeim grundvelli: . . .“

Svo eru til tekin nokkur atriði, sem öll felast í okkar frv.

Eftir orðum hæstv. forsrh. og með tilliti til þessarar samþykktar æðsta valds Framsóknarfl. getur ekki verið um það að villast, að þetta mál á að ná fram að genga á þessu þingi. Ég vil svo með tilvísun til ræðu hæstv. forsrh. endurtaka það, að við erum reiðubúnir til þess að taka öllum sanngjörnum brtt. — Ég vil svo mælast til þess, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og allshn.