27.02.1937
Neðri deild: 11. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 306 í C-deild Alþingistíðinda. (1537)

36. mál, vinnudeilur

*Flm. (Thor Thors):

Mér þótti það spaugilegt, þegar hv. 2. þm. Reykv. kannaðist ekki við neina baráttu innan Alþfl. og verkalýðsfélaganna milli tveggja arma. Ég veit, að hv. þm., sem ennþá kemur nokkrum sinnum á Dagsbrúnarfundi, a. m. k. þegar eitthvað þykir liggja við, hefir orðið var við ýmislegt frá öðrum arminum. (HV: Heldur hv. þm., að kommúnistar séu innan Alþfl.?) Kommúnistafl. er innan Alþýðusambandsins, og alþýðuflokksþingið hefir boðið alla kommúnista velkomna inn í verkalýðssamtökin til samfylkingar þar. Hv. 2. þm. Reykv. ætti að vita það, að starf hans hefir upp á síðkastið nokkuð snúizt að því, að gera þennan arm innan alþýðusamtakanna máttlausan, með því að koma á sérstöku trúnaðarmannaráði innan Dagsbrúnar, sem þannig er frá gengið, að hv. 2. þm. Reykv. getur ráðið þar lögum og lofum. Þá vék hv. þm. að því, að verkalýðurinn væri mjög andvígur þessu frv. Það bar nokkuð á því í fyrra, að andmæli kæmu til þingsins frá ýmsum verklýðsfélögum vegna þessa máls. Þau andmæli komu fram vegna áróðurs kommúnista. Alþfl. þorði ekki að gera neitt í málinu og lét þetta afskiptalaust. Kommúnistar fengu á frumstigi málsins tækifæri til að spilla svo fyrir því, að það má vel vera, að það verði til þess að tefja eðlilegan og nauðsynlegan framgang málsins. Þar gerðu leiðtogar Alþfl. sig seka um mjög svo vítavert ábyrgðarleysi, ef þeir á annað borð vilja telja sig þingræðislegan sósíalistaflokk í líkingu við sósíalistaflokkana á Norðurlöndum. Þegar sósíalistaflokkarnir á Norðurlöndum hafa unnið sigur, þá telur aðalmálgagn Alþfl. íslenzka það sinn sigur, vegna þess að þeirra flokkur sé alveg eins. Þetta mál er einn af prófsteinunum á það, hverskonar flokkur hinn íslenzki Alþfl. er.

Hv. þm. og raunar hæstv. atvmrh. líka töldu að hér væri bara sá munur, að verkföllin væru að jafnaði bönnuð, nema að undangengnum löggildum undirbúningi, en verksviptingu væri hægt að skella á. Þetta er misskilningur. Þegar vinnustöðvun er framundan á aðra hvora hlið, þá er sáttasemjara, samkvæmt II. kafla laganna, skylt að skerast í leikinn. Þennan ótta alþýðuflokksmannanna má algerlega gera að engu, með því að kveða skýrt á í lögunum um það, hvað sé verkfall og hvað verksvipting.

Hv. þm. vék að því, að hann væri reiðubúinn til að kveða á með lögum um kjör verkalýðsins. Þar er hann einmitt kominn inn á það svið, sem verkalýðurinn er mest andvígur, sem sé að löggjafarvaldið láti sig skipta hagsmunamál verkalýðsins. Við erum því hinsvegar andvígir, að löggjöfin láti nokkuð til sín taka eiginleg hagsmunamál verkalýðsins.

Báðir þessir forráðamenn Alþfl. töluðu um það, að þeir vildu, að þetta mál yrði lagt fyrir verkalýðsfélögin í landinu. Ég veit ekki betur en að þing Alþfl. hafi þegar fjallað um þetta mál, og ég veit ekki betur en að allir aðalforvígismenn Alþfl. eigi sæti hér á þingi, og þeir ættu að vera færir um að ákveða, hvað gera skuli í þessu máli. Þessi ósk, að leggja málið að nýju fyrir verklýðsfélögin, er aðeins tilraun til að gera þetta mál að eilífðarmáli. En ég verð að segja, að ég hygg, að það væri hagkvæmast fyrir Alþfl. að leysa þetta mál á þeim tíma, sem hann hefir jafnmikinn íhlutunarrétt um löggjöfina og nú. — Hv. þm. vitnaði til þess, að aðrar stéttir þjóðfélagsins væru að spurðar, þegar mikil hagsmunamál væri á ferðinni. Hvað var gert við bændastéttina í fyrra á þessu þingi? Fengu bændur að fjalla um jarðræktarlögin? Ég hygg ekki. Það komu fram eindregnar till. um það, að jarðræktarlögin yrðu ekki ákveðin, fyrr en hagsmunasamtök bænda, Búnaðarfélag Íslands, fengju að fjalla um það. En það mátti ekki heyra það nefnt. Svo má ekki setja löggjöf um þetta mál, fyrr en verkalýðsfélögin hafa fjallað um það! Þess er að vænta, að það komi skýrt í ljós, hver hugur alþýðusambandsstjórnarinnar er í þessu máli, því að það vita allir, að hún er einfær um að segja til í þessu máli.

Hæstv. atvmrh. taldi nauðsynlegt, að ekki yrði hrapað að setningu þessarar löggjafar. Ég er honum sammála um það, og tel rétt, að fyrst um sinn sé beðið eftir till. þeirrar mþn., sem starfar að þessu máli, en sé það hins vegar ljóst, að sú n. sé sett á laggirnar einungis í þeim tilgangi, að eyða málinu á þessu þingi, þá verður að reka eftir því á eðlilegan hátt.

Hæstv. atvmrh. vildi draga það í efa, að það væri réttmæli hjá mér, að allir ábyrgir stjórnmálaflokkar á Norðurlöndum væru sammála um vinnulöggjöfina. Ég fullyrði, að svo sé um öll aðalákvæði þessa frv. Hinsvegar er það vitað, að það er einstaka ákvæði um vinnulögglöf Norðurlanda, sem verið hefir deilt um milli einstakra flokka þar; t. d. hefir hið svokallaða tugthúsákvæði norsku og dönsku laganna verið deilumál milli flokka. En þetta ákvæði er ekki til í frv. því, sem hér liggur fyrir. Við vildum sneiða hjá þessu ákvæði, því að við vissum, að það yrði til þess að vekja óþarfa deilur, og við vissum einnig, að framkvæmd slíks ákvæðis yrði mjög slælega framfylgt í okkar þjóðfélagi. En með tilliti til þess samkomulags, sem ríkir milli stjórnmálaflokka Norðurlanda um þetta mál, vil ég vísa til greinar, sem birtist í Alþýðublaðinu, því að sú grein var ekki skrifuð af ritstjóranum, heldur af ungum hagfræðingi. Hann skýrir frá því, að sósíalistískir hagfræðingar á Norðurlöndum hafi nýlega haldið fund til þess að ræða ýms mál verkalýðsins. Einn daginn var rætt um vinnulöggjöfina. Svo er að sjá á greininni, að allir þessir sósíalistísku hagfræðingar hafi verið sammála um nauðsyn slíkrar vinnulöggjafar, en ágreiningur var um það, hvort verklýðsfélögin gætu nokkurntíma sætt sig við gerðardóm. Sumir af hagfræðingunum vildu halda því fram, að það gæti verið verkalýðnum til góðs í einstökum tilfellum að hafa gerðardóm, en um setningu slíkrar almennrar vinnulöggjafar var enginn ágreiningur hjá þeim.

Að því er snertir afskipti verkalýðsforingjanna á Norðurlöndum af vinnumálunum, má minna á, hvernig danski jafnaðarmannaforinginn, Stauning, hefir gripið inn í vinnudeilur. Hann hefir jafnvel látið stöðva vinnudeilur með sérstökum lögum, sem sett voru á einni nóttu í danska þinginu, og hann hefir beitt sér ákveðið fyrir því, að lögreglan væri látin skerast í leikinn til þess að sjá um, að vinna gæti gengið eðlilega fyrir sig. Hæstv. atvmrh. gat þess, að okkar atvinnulíf væri að mörgu leyti ólíkt því, sem á sér stað á öðrum Norðurlöndum. Þetta er rétt. Okkar atvinnulíf er miklu háðara árstíðum heldur en atvinnulíf nágrannaþjóðanna, og þetta sjónarmið ber að hafa til hliðsjónar, þegar gengið verður frá þessari löggjöf, en um það atriði, eins og öll önnur, sem til bóta mættu verða, erum við fúsir til samkomulags.