27.02.1937
Neðri deild: 11. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 308 í C-deild Alþingistíðinda. (1538)

36. mál, vinnudeilur

*Héðinn Valdimarsson:

Það er náttúrlega rétt, að það er óþarft að fara til verklýðsfélaganna til þess að fá álit þeirra um frv. hv. þm. Snæf., því að það er vitað, að öll félögin, sem á annað borð hafa nokkuð skipt sér af þessu máli, eru á móti því. Um það er ekki ágreiningur innan félaganna. Flestir vita, að það eru ekki allt alþýðuflokksmenn, sem í verklýðsfélögunum eru, þótt hv. þm. Snæf. viti það ekki, og jafnvel sjálfstæðismennirnir í verklýðsfélögunum hafa ekki treyst sér til að bera blak af þessu frv. innan félaganna, enda geri ég ekki ráð fyrir, að þetta frv. verði samþ. eins og það er borið fram, heldur muni verða lögð til grundvallar vinna þeirra n., sem starfað hefir að þessu máli, og þá geri ég ráð fyrir, að fram komi ýmislegt í málinu, sem alls ekki hefir verið borið undir félögin, en eðlilegt er, að þeirra álits sé leitað um.

Viðvíkjandi því, sem hv. þm. sagði um Dagsbrún í þessu sambandi, vil ég aðeins leiðrétta orð hans, sem voru villandi. Það, sem gert hefir verið í Dagsbrún, er, að það hefir verið komið á þingræði í félaginu, og á sama hátt og t. d. fulltrúarnir hér á þingi ræða ýms mál fyrir þjóðina, þannig er trúnaðarmannaráðið í Dagsbrún, sem er kosið af meiri hl. félagsmanna, enda hefir kosning þeirra sýnt, hvað verkamenn vilja sjálfir í þessu efni. En ég skil vel, að sjálfstæðismönnum, sem eru ekki þingræðismenn, heldur einræðismenn í raun og veru, sé ekki vel við, að vilji félagsmanna geti ráðið, eins og nú er í Dagsbrún.