03.03.1937
Neðri deild: 13. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 309 í C-deild Alþingistíðinda. (1542)

39. mál, atvinnubótavinna og kennsla ungra manna

*Flm. (Gunnar Thoroddsen):

Það orkar ekki tvímælis, að atvinnuleysið er eitt mesta böl nútímans. Alvinnuleysið hefir gert vart við sig um allan heim meira eða minna, og höfum við Íslendingar komizt í kynni við það eins og stórþjóðirnar. Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um þau áhrif, sem atvinnuleysið hefir á fjárhagslega afkomu manna og lífskjör, hversu lamandi það verkar á hugarfar þeirra og sálarlíf. Áhrif atvinnuleysisins eru að sjálfsögðu mjög alvarleg fyrir heimilisfeður, sem verða að lifa á sinni vinnu, en þótt það sé ískyggilegt fyrir þá, sem hafa fyrir öðrum að sjá, þá verður því ekki neitað, að það er eitt af því háskalegasta, sem kemur fyrir unga menn, að vera atvinnulausir. Vonleysi þeirra og kjarkleysi, sem orsakast af atvinnuleysinu, mannspillir unglingunum og leiðir til margskonar athafna, sem þjóðfélaginu eru háskalegar. Atvinnuleysið er almennt mjög háskalegt, en atvinnuleysi unglinga er eitt hið allra háskalegasta. Ég skal ekki fara um það mörgum orðum, hverjar afleiðingar það hefir í för með sér, en ég vil þó geta þess, að talið er fullsannað, að glæpsamleg afbrot í hinum ýmsu þjóðfélögum séu mjög í hlutfalli við atvinnuleysi unglinga. Og þótt margar ástæður liggi að sjálfsögðu til glæpsamlegra afbrota yfirleitt, þá er atvinnuleysi ungra manna ein hin stærsta ástæða.

Frá þessu sjónarmiði er það frv. flutt, sem hér liggur fyrir. Hér á landi hefir verið gerð tilraun til þess að draga úr atvinnuleysi almennt með atvinnubótavinnu. Ætla ég, að til þess hafi verið á síðasta ári varið hálfri millj. kr. úr ríkissjóði, en gegn atvinnuleysi ungra manna þarf nokkuð aðrar ráðstafanir. Það þarf ekki aðeins að útvega þessum ungu mönnum atvinnu og kaup, það þarf að hafa áhrif á uppeldi þeirra, veita þeim bæði bóklega og verklega fræðslu í sambandi við þá vinnu, sem þeim er í té látin. Þær ráðstafanir, sem gerðar eru í þessu efni vegna ungra manna, þurfa því að vera nokkuð með öðrum hætti en hinar almennu ráðstafanir, og við það er frv. okkar miðað.

Ég vil svo með fáum orðum skýra frá aðalefni frv. Í 1. gr. er bæjarstjórnum veitt heimild til þess að halda uppi að vetrarlagi vinnu fyrir atvinnulausa pilta á aldrinum 14–18 ára, og skal kennsla vera samfara vinnunni. Út af þessu vil ég sérstaklega taka það fram, að okkur þótti rétt að miða þessa heimild aðeins við kaupstaði fyrst um sinn. Auðvitað getur þó í stærri kauptúnum verið full þörf fyrir slíka heimild, og það er alls ekki tilgangur okkar flm., að útiloka kauptúnin, heldur hitt, að vegna þess, hve lítil reynsla enn er fengin í þessu efni, fannst okkur ekki rétt að taka þetta svo vítt, fyrr en reynslan sýnir, að það sé heppilegt. Í frv. er til þess ætlazt, að tveir umsjónarmenn annist þessar framkvæmdir á hverjum stað, annar valinn af atvmrh., en hinn af viðkomandi bæjarstjórn. Bóklega kennslan samhliða vinnunni skal vera í reikningi og íslenzku fyrst og fremst, og svo í leikfimi og verklegu námi, og mun ég síðar koma að því. Eins og áður er sagt, á þessi vinna og nám að ná til unglinga á aldrinum 14 til 18 ára, og er ætlazt til, að 16 til 18 ára unglingar sitji fyrir. Hvað snertir kostnaðinn af þessum ráðstöfunum, þá má hann verða allt að 1 kr. fyrir hvern íbúa kaupstaðarins. Mundi það verða í Reykjavík 35 þús. kr. á ári og í öðrum kaupstöðum landsins í hlutfalli við mannfjölda.

Um efni frv. ætla ég ekki að fara fleiri orðum að svo stöddu. Það má öllum vera ljóst, hversu mikil þörfin er. Ég ætla með örfáum orðum að skýra frá þeirri reynslu, sem fengin er í þessu efni. Ég ætla, að fyrsta tillaga um ráðstafanir vegna atvinnulausra unglinga hafi komið frá bæjarstjórn Reykjavíkur. Á fjárhagsáætlun bæjarins fyrir árið 1935 var sett upphæð allt að 3 þús. kr. í því skyni að bæta úr atvinnuleysi fátækra unglinga. Var þegar á því ári hafizt handa og skipaðir til að sjá um framkvæmdir tveir umsjónarmenn, annar af bæjarstjórn Reykjavíkur, en hinn af atvmrh. Þessi starfsemi hefir staðið í tvö ár, og hefir verið til hennar varið 26 þús. kr. hvort árið, sem að hálfu hefir verið greitt af ríkinu, en að hálfu af bæjarsjóði. Vinna þessi og kennsla hefir farið fram að vetrinum og byrjað í nóvember. Bóklega fræðslan hefir verið 2 stundir annan hvern dag og farið fram í vélstjóraskólanum, og svo hefir verið 2 stunda kennsla annan hvern dag í barnaskólanum fyrir þessa unglinga. Að því er vinnuna snertir, þá var fyrra veturinn unnið að undirbúningi skógræktar, en í vetur er unnið við íþróttavöllinn í Skerjafirði. Þeir unglingar, sem vinna, fá í kaup k. 4,08 á dag og vinna 3 klst.; hafa þeir kaup samkvæmt taxta verkalýðsfélaganna, kr. 1,36 á klst. Um vinnu þessa sóttu í haust 140 unglingar. Var í byrjun helmingur þeirra tekinn í vinnuna, en síðar hefir verið hætt við, og nú eru þeir um 100 alls. Ég skal geta þess, að því er snertir hámarksákvæðið í 6. gr. frv., 1 kr. fyrir hvern íbúa viðkomandi kaupstaðar, að það getur verið nokkurt álitamál, hvort það er hæfilegt. Í Reykjavík mundi það þýða verulega hækkun, ef notað væri til fullnustu, en vel má vera, að það sé of lágt hámark fyrir aðra kaupstaði, en við settum þetta takmark ekki hærra til þess að geta fremur vonað, að málið gengi fram. Ég vil svo að lokum lýsa því yfir, að ég treysti hv. þdm. til þess að sjá nauðsyn þessa máls og ljá því það fylgi, er það á skilið. Óska ég svo, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísa til 2. umr. og menntmn.