03.03.1937
Neðri deild: 13. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 317 í C-deild Alþingistíðinda. (1553)

39. mál, atvinnubótavinna og kennsla ungra manna

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Ég get verið hv. þm. Snæf. sammála um það, sem hann tók fram í ræðu sinni, að einmitt hættulegasti þáttur atvinnuleysisins sé atvinnuleysi unglinga. Hinsvegar get ég ekki verið honum sammála um það, að eftir þessu frv. sé hverju bæjarfélagi í sjálfs vald sett, hversu mikið þau leggja til þessara mála. — Ég vænti þess, að hæstv. forseti hafi ekki á móti því, þó að ég víki örlítið að einstökum gr. frv. Í 6. gr. segir:

„Bæjarsjóður og ríkissjóður bera að hálfu leyti hvor kostnað við þessar ráðstafanir. Heildarkostnaður árlega má ekki samanlagt verða hærri en sem svarar 1 krónu á hvern íbúa viðkomandi kaupstaðar samkvæmt síðasta manntali“.

Það hljóta allir að sjá, að það er bein afturför, að binda svo hendur bæjarstjórnanna, að þær megi ekki verja meira fé í þessu skyni heldur en til er ætlazt eftir frv. Í frv. er ætlazt til, að fé þetta til atvinnubóta unglinga sé veitt umfram venjulegt atvinnubótafé. Það virðist í þessu frv. kveða talsvert við annan tón heldur en venja hefir verið hjá sjálfstæðismönnum, þegar um fjárframlög til atvinnubóta hefir verið að ræða og ég vænti þess, að hv. sjálfstæðismenn minnist þessara umr., þegar farið verður að greiða atkv. um fjárframlög til atvinnubóta. Má þá ef til vill vænta þess af þeim, að þeir, öfugt við það, sem þeir hafa gert, greiði nú atkv. með till. um hækkun á þessum lið, en komi ekki með lækkunartill. við hann, eins og venja þeirra hefir verið.