03.03.1937
Neðri deild: 13. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 318 í C-deild Alþingistíðinda. (1555)

39. mál, atvinnubótavinna og kennsla ungra manna

*Thor Thors:

Hv. 9. landsk. vildi halda því fram, að við sjálfstæðismenn hefðum mikið af honum lært á undanförnum þingum. Ég veit, að þessi hv. þm. hefir mikinn hug á því að verða kennari, en ég vil vara hann við að hefja kennslu, áður en til hans er kallað. Ég fyrir mitt leyti mun ekkert af honum læra og get ekkert af honum lært. — Hv. þm. vildi gera lítið úr þessu frv. okkar, af því að hér væri aðeins um heimildarlög að ræða. En ef maður lítur á það frv., sem hann sjálfur hefir flutt, þá er það ekkert annað en heimildarlög. Hv. þm. vildi skopast að því, að við flm. játum það fúslega, að hér sé ekki um neinar endanlegar till. að ræða, heldur tilboð um að taka málið til athugunar. Ég sé ástæðu til að taka það fram, að einn af þeim mönnum, sem vildi, að þetta mál næði fram að ganga í fyrra, var einmitt hv. 11. landsk., svo að um sinnaskipti hjá honum getur ekki verið að ræða, eins og hv. 9. landsk. vildi vera láta. Annars ætti hv. þm. að beina ákúrum um skilningsleysi á þessu máli til sessunauts síns, hv. 2. þm. Árn., sem áður hefir orðið til þess að hindra framgang þessa máls og nú í sinni síðustu ræðu virðist vera nákvæmlega eins íhaldssamur. Ég vildi því beina því til hv. 9. landsk. að byrja sitt trúboð innan sinna eigin flokka, en láta aðra bíða. (ÓTh: Það mundi þá verða einskonar heimatrúboð.)

Hv. 2. þm. Árn. vildi verja andstöðu sína gegn málinu með því, að halda því fram, að málið væri óhugsað. Það er nú ekki meira óhugsað en svo, að 2 ára reynsla á slíkri starfsemi sem þessari liggur fyrir í Reykjavík og hefir þar orðið til ómetanlegra bóta, þótt á byrjunarstigi væri. Aðgerðir bæjarstjórnar Reykjavíkur í þessum málum hafa haldið mörgum unglingum frá illum verkum og skapað þeim athvarf. Það er því ekki einungis rangt, að málið sé óhugsað, heldur er það reynt og hefir reynzt vel.