04.03.1937
Neðri deild: 14. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 329 í C-deild Alþingistíðinda. (1569)

49. mál, rekstrarlánafélög

*Finnur Jónsson:

Ég vil aðeins gera smáaths. við ræðu hv. 6. þm. Reykv. Þetta frv. var á sínum tíma sent til sjútvn. þessarar hv. d. með tilmælum um, að n. athugaði, hvort hún vildi taka það til flutnings. N. sendi það svo til umsagnar Útvegsbankanum og Landsbankanum, og fékk þá umsögn frá báðum bönkunum, að þar sem ekki væri bent á neina nýja leið í frv. til þess að afla rekstrarfjár handa útveginum, þá væri þetta frv. mjög lítils virði eða einskis virði fyrir sjávarútveginn, þannig að það myndi alls ekki ná tilgangi sínum. Af þeim ástæðum var það, sem þáv. meiri hl. sjútvn. taldi ekki ástæðu til að flytja þetta frv. inn í þingið. Hitt er það, að ef hægt væri að finna einhverja nýja leið í því, að útvega útgerðarmönnum nauðsynleg rekstrarlán, þá væri það í sjálfu sér þarft og nauðsynlegt, en að setja frv. í gegnum þingið aðeins til málamynda er ekkert annað en að gera gys að nauðsynlegri þörf sjávarútvegsins í þessu efni. Ef til vill væri hægt í meðferð málsins í þeirri n., sem fær þetta mál, að koma einhverju því formi á þetta, að það gæti orðið að gagni, og það væri þá rétt, en eins og sakir standa virðist þetta frv. ekki vera annað en nafnið tómt. Það mætti benda á það í þessu sambandi, að það væri sérstaklega nauðsynlegt, að jafnhliða því, sem útvegað væri rekstrarfé, þá yrði gert meira en nú er gert til þess að koma vörum útgerðarmanna í verð, jafnóðum og þær veiðast, því að eftir því sem umsetningin er örari, því minna rekstrarfé þarf útvegurinn, og fyrir þá, sem vilja taka þessa leið, er augljóst að styðja ber að því, að auka bæði veiði og útflutning flatfiskjar, sem selst jafnóðum, þannig að margir þeirra báta, sem annars mundu stunda saltfiskveiðar, gætu breytt veiðiaðferðinni og stundað veiði á þeim fisktegundum, sem seljast nokkurnveginn jöfnum höndum og þær veiðast. Sem stendur er það svo, að saltfiskurinn liggur jafnvel allt árið, og stundum lengur sumt af honum, svo að það er bersýnilegt, að því lengur sem saltfiskurinn liggur, því meiri verður þörf útvegsins fyrir aukið rekstrarfé. En einmitt þessi leið, að beina útgerðinni meira í þá átt, að veiddar séu þær fisktegundir, sem seljast jafnharðan, verður til þess að bæta úr þeirri rekstrarlánaþörf, sem annars hvílir á útveginum. Ég segi þetta til þess að benda mönnum á það, þegar frv. um dragnótaveiði í landhelgi kemur aftur til umræðu, að einmitt með því, að gera verulega breytingu á þeim ákvæðum, sem nú gilda um þetta, er hægt að létta mikið undir með rekstrarlánaþörf útvegsins.