04.03.1937
Neðri deild: 14. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 330 í C-deild Alþingistíðinda. (1570)

49. mál, rekstrarlánafélög

*Flm. (Sigurður Kristjánsson):

Út af því, sem hv. þm. Ísaf. sagði, vil ég geta þess, að það er rétt, að hæstv. ráðh. bað n. um að flytja frv., en það veltur náttúrlega ekki mikið á því, hvor okkar hefir réttara fyrir sér í þessu efni. Hann mætti hér á fundi hjá okkur og hafði engan fyrirvara um það, en annars er það áreiðanlega víst, að það var ekki álit bankanna, sem olli því, að frv. komst ekki lengra áleiðis. Það er óþarft að fara út í það, fyrst og fremst veit ég ekki, hvort nokkur af þeim, sem skárust úr leik um flutning frv., hafa haft svo mikla trú á óskeikulleik bankanna um það að dæma um þetta, og svo var álit bankanna vægast sagt mjög lélegt; í því voru sáralítil rök eða engin. Eina atriðið, sem var á þá leið, að það mátti teljast rök, var einmitt það, að þeir þóttust ekki sjá, hvað þetta gæti aukið möguleika bankanna til þess að hafa nýtt rekstrarfé. En þetta atriði er byggt á misskilningi, alveg eins og hjá hv. þm. Ísaf. Rekstrarféð er lagt fram af bönkunum, en það hefir bara verið sú skipun á þessu, að einstakir menn hafa fengið miklu meira rekstrarfé heldur en fyrir sinn eiginn útveg og gerzt svo kaupendur að aflanum að meira eða minna leyti, en síðan komið var á samsölu á fiski landsmanna, er þetta fyrirkomulag óþægilegt og óþarft. Ég efast um, að bankarnir þurfi að hafa að nokkrum mun meira fé til útlána, þótt þetta fyrirkomulag kæmist á, en það er svo, að bankarnir ganga með vissan ótta við slíka nýbreytni og lífsmark hjá útveginum, af því að þeir hafa á þessum erfiðu árum orðið fyrir miklum áföllum af útgerðinni. En hinsvegar hafa svör bankanna við þeim erindum, sem sjútvn. sendi þeim til umsagnar, ekki orðið þeim til mikils hróss, svörin voru þannig, að það er rétt um það bil, að það sé sæmileg fyrir bankana sú afgreiðsla, sem þau mál hafa fengið. Þau hafa komið seint og þar að auki mjög léleg, það tók, held ég, 2–3 ár að toga út álit frá stjórn Útvegsbankans um nýju löggjöfina um fiskveiðasjóðinn, og með allri virðingu fyrir stjórn þessara stofnana og þeirra starfsemi að öðru leyti, þá er ekki hægt annað en að segja, að afgreiðsla þeirra á þeim málum, sem sjútvn. hafa snert, er ekki til neinnar fyrirmyndar.

Mér hefir eiginlega ekki enn skilizt, hvers vegna hv. þm. Ísaf. getur verið á móti þessu frv., því að ég kalla það ekki nein rök, að segja sem svo, að það sé að gera gys að útveginum, að setja þetta mál fram til málamynda. Ég veit ekki til, að það standi til að hafa það til málamynda. Það hefir staðið til frá upphafi, að það gæti komið útveginum að gagni, og ég geri ráð fyrir, að við flm. getum fært rök fyrir því, að það er tilætlunin, að það verði að gagni.

Ég vil svo að lokum, af því að ég gerði það ekki áðan, rifja það upp fyrir hv. þdm., að hér er ekki á ferðinni neitt persónulegt mál okkar flm., því að þessar óskir um rekstrarlán eru svo almennar og margendurteknar af hálfu útvegsmanna, að það er aðeins eðlilegt, að gerðar séu tilraunir til þess að bæta úr því. Þeir væru varla með þessar sífelldu óskir og umkvartanir, ef þeir fyndu ekki, að þarna kreppir skórinn að, og það er skylt að athuga a. m. k., hvort óskirnar eru á rökum reistar, og í öðru lagi, hvort ekki er hægt að bæta úr því, sem þeir óska eftir að lagfært sé, og ég vil gera mér vonir um, að það verði reynt, ekki sízt vegna þess, að skipulagsnefnd hefir komizt að þeirri niðurstöðu, að bátaútvegsmenn verði að borga 50% álagningu á útgerðarvörum, og ég get ekki skilið, að frá þessu sé skýrt í þeim tilgangi, að telja mönnum trú um, að þetta sé eðlilegt og heppilegt, enda tók sá fram, sem erindið flutti, að það væri að sinni hyggju mikilsverðasta atriðið til hjálpar bátaútvegsmönnum, að finna leið til að skapa þeim skilyrði til þess að fá útgerðarvörur með vægara verði en nú væri. Okkar uppástunga getur einmitt fullnægt þessu, sem hann telur mest um vert, og því vænti ég, að þeir menn a. m. k., sem standa að þessari n., muni ekki snúast gegn málinu á fyrsta stigi þess.