17.03.1937
Neðri deild: 20. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 335 í C-deild Alþingistíðinda. (1582)

57. mál, kaup á hlutabréfum í Útvegsbanka Íslands h/f

*Flm. (Jóhann Jósefsson):

Það kemur mér ekkert á óvart þó að hæstv. fjmrh. mæli á móti frv. þessu, það hefir hann gert fyrr um frv. um sama efni. Það er töluvert annað að mæla gegn frv. í þessu skyni, eða mæla gegn því, að þessir umræddu menn eigi nokkurn rétt til uppreisnar í þessu efni. En það var ekki hægt að finna annað út úr orðum hæstv. ráðh. en að hann teldi þá engan rétt eiga til neinnar hjálpar eða aðstoðar í þessu máli. Það má vel vera, að svo kunni að vera, að frá lagalegu sjónarmiði hafi þessir menn, sem var þröngvað til þess á sínum tíma, að leggja fram helming af sparifjárinnstæðum sínum við Íslandsbanka, engan eða takmarkaðan rétt. En í þessu sambandi virðist mér, að fleiri sjónarmið en aðeins hin lagalegu eigi og að geta komið til greina. Á það má t. d. líta, að þetta umrædda sparifé, sem eigendur lögðu fram til viðreisnar Íslandsbanka, var að þeim forspurðum tekið og lagt í Útvegsbankann. Annars virðist mér líka, að hér á Alþingi eigi engu síður að taka tillit til sanngjarnra ástæðna en lagalegs réttar. Það er Alþingis að meta sanngjarnar kröfur og ákveða þeim lagalegan rétt ef þær eru þess verðar. Hér stendur nú einmitt þannig á, að um miklar sanngirniskröfur er að ræða, sem auk þeirra raka, sem áður hafa verið færð fram, byggjast á því, að ríkið hefir fyrr og síðar tekið ábyrgð á sparifjárinnstæðum manna, svo að þar ekki töpuðust. Líka ber og á það að líta, að það var beinlínis fyrir aðgerðir Alþingis, að sparifjáreigendur við Íslandsbanka þurftu að tapa nokkru af fé sínu þar. Hvort það hafi verið rétt, að láta þá tapa, skal ég ekki deila um, en hinu vil ég óhikað halda fram, að þeir, sem fyrir því urðu, að verða fórnarlömb í þessu tilfelli, eigi sanngirniskröfu um að fá einhverjar uppbætur.

Hæstv. fjmrh. hélt því fram, að hér gætu fleiri komið til greina, og nefndi því til sönnunar, að bæði ríkissjóður og erlendir bankar hefðu lagt fram fé til kaupa á hlutabréfum í Útvegsbankanum. Það er alveg rétt, að ríkissjóður lagði fram fé til þess að stofna Útvegsbankann, — en er það kannske ekki hann, sem hefir öll ráð yfir bankanum? Ég veit ekki betur en að svo sé. Hinir minni hluthafar hafa engin, og hafa aldrei haft nein, áhrif á stjórn bankans. Ríkissjóður hefir þar því bæði töglin og hagldirnar. Þetta út af fyrir sig ætti því að vera ein ástæðan til þess, að eitthvað væri gert fyrir hina minni hluthafa. — Þá minntist hæstv. ráðh. og á, að væri farið að hjálpa hinum minni hluthöfum, þá myndu hinir erlendu gera samskonar kröfur. Þetta er ef til vill teoretiskt rétt, að erlendu hluthafarnir gætu gert kröfur um einhverjar uppbætur sér til handa. En ég veit bara ekki betur en að þeir hafi gert ýmsar kröfur í þessu efni, en þær hafa bara ekki verið heyrðar.

Að endingu vil ég svo vekja athygli á því, að það hefir jafnan verið gerður mikill munur á inneignum manna við bankana, hvort féð er sparifé eða ekki, sést þetta og bezt á því, að t. d. hér hefir ríkisvaldið ekki séð sér annað fært en að vernda sparifjárinnstæður manna við alla banka landsins. Erlendis er það algengt, að ríkisvaldið geri ýmsar ráðstafanir til þess að vernda sparifé manna, og er það af öllum talið óumflýjanlegt, því að afkoma þjóðanna er svo mikið undir því komin, að fólkið spari fé.

Ég vil svo að endingu mælast til þess, að hæstv. fjmrh. endurskoði aðstöðu sína til þessa máls, því að þó að hann geti ekki fylgt frv. í þessu formi, þá veit ég vel, að hann hlýtur að geta fundið aðrar leiðir, sem að gagni mættu verða fyrir þessa menn. Það myndi t. d. mikil bót, þó að ekki væri annað en að bréfin væru gerð veðhæf. Þetta vænti ég, að hv. n., sem málið fær til meðferðar, taki til athugunar, til þess að þær 2 millj. kr. a. m. k., sem hér ræðir um, þurfi ekki að teljast með öllu glataðar.