15.03.1937
Neðri deild: 19. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 337 í C-deild Alþingistíðinda. (1588)

62. mál, byggingarsamvinnufélög

*Flm. (Gísli Guðmundsson):

Mál þetta, sem er á þskj. 73, felur í sér nokkra breyt. á gildandi lögum um byggingarsamvinnufélög og gerir ráð fyrir, að felld verði saman í eitt l. nr. 71 frá 23. júní 1932 og lög nr. 41 frá 19. júní 1933, ásamt þeim breytingum, sem í frv. felast.

Ég skal í stuttu máli gera grein fyrir, hvaða breytingar er hér farið fram á. Ég vænti, að hv. dm. geti fallizt á, að þær séu yfirleitt til bóta á l. frá því, sem þau hafa verið. Fyrsta breytingin, sem þetta frv. felur í sér, er um það, að í hverjum kaupstað eða kauptúni skuli vera aðeins eitt byggingarsamvinnufélag. Kosturinn við það, að hafa aðeins eitt byggingarsamvinnufélag á hverjum stað, er fyrst og fremst sá, að það má gera ráð fyrir, að starfsemin öll fái meiri festu, ef aðeins er um einn félagsskap að ræða á staðnum, heldur en ef fleiri félög eru. Reynslan hefir sýnt, að síðan þessi lög voru samþ., þá hafa t. d. hér í Rvík, þar sem þessi starfsemi hefir aðallega verið undirbúin, verið stofnuð ýms slík félög; sum þeirra hafa verið mjög smá, og sýnilega aðeins mynduð með það fyrir augum, að byggja fyrir þá, sem í félaginu eru á þeim tíma, sem það var stofnað, en ekki um verulega framtíðarstarfsemi að ræða. Ég hygg, að starfsemi sumra félaganna hafi ekki orðið nein. Það fyrirkomulag, sem mér virðist eðlilegt á þessu, er, að það sé einn félagsskapur í hverjum kaupstað eða kauptúni, sem þessa starfsemi hafi með höndum og njóti þeirra hlunninda, sem hið opinbera veitir. Slíkt félag myndi væntanlega verða þekkt stofnun utanlands, sem hefði miklu meira lánstraust og möguleika til þess að útvega starfsfé heldur en mörg smáfélög gætu haft. Það er þá um leið tilgangurinn, að slík félagsstarfsemi verði ekki aðeins augnabliksstarfsemi, sem rísi upp kringum nokkrar byggingar, heldur verði þetta framtíðarstarfsemi í viðkomandi kaupstað eða kauptúni. Hinsvegar verður að tryggja, um leið og slík ákvæði eru sett, að aðeins eitt byggingarsamvinnufélag sé á hverjum stað, að þeir verði ekki fyrir órétti, sem nú þegar hafa gengið í slík félög. Þess vegna eru líka ákvæði í þessu frv. sem koma í veg fyrir það. Þau eru á þá leið, að gert er ráð fyrir því, að það félag, sem fyrst var stofnað eða fyrst hóf starfsemi, sé það félag, sem starfar áfram, en félagsmenn annara félaga, sem til eru á staðnum, hafi rétt til að ganga í þetta félag og komi inn í það í þeirri röð, sem þeir gengu inn í það félag, sem þeir voru upphaflega í, svo að það verði tryggt, þótt menn verði að skipta um félag, að þeir missi ekki neins í af þeim rétti, sem þeir höfðu fengið við að ganga í annað félag. — 2. brtt. er um að fella niður stofnsjóðsgjaldið, sem ætlað var til þess að standast rekstrarkostnað. Þetta ákvæði er óþarft, því að eigendur húsanna standa sjálfir straum af þessum kostnaði. — Í 3. till. er gert ráð fyrir þeirri breyt., sem miðar að því, að innan byggingarsamvinnufélaga í hverjum kaupstað eða kauptúni geti verið sérdeildir. Í l. frá 1933 er ákveðið, að hver sérdeild sé mynduð í sambandi við einstök lán, sem tekin eru til bygginga. Í þessu frv. er ákvæði um, að slík sérdeild geti kosið sér sérstaka stjórn.

Hér er að lokum brtt. þess efnis, að þeir menn gangi fyrir um að fá byggt í félaginu, sem ekki hafa yfir ákveðnar tekjur eða eignahámark. Það var ákvæði um það í eldri l., og það virðist ekki óeðlilegt, að eitthvert hámark sé þar, þannig að þeim sé síður hjálpað á þennan hátt, sem ætla má, að geti komizt af af eigin rammleik án þess að vera í slíkum félagsskap.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fara um þetta fleiri orðum. Ég legg svo til, að málinu verði, að lokinni þessari umr., vísað til 2. umr. og allshn., því að í þeirri n. hygg ég, að málið hafi verið áður.