10.04.1937
Neðri deild: 35. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 343 í C-deild Alþingistíðinda. (1602)

63. mál, bæjargjöld í Vestmannaeyjum

*Sigfús Jónsson:

Út af fyrirspurn hv. 6. landsk. um það, hvenær mætti vænta frv. hans um tekjur sveitar- og bæjarfélaga frá fjhn., vil ég taka það fram, að ég get ekki sagt um þetta upp á dag. Það eru skiptar skoðanir um málið í n., og ég geri ráð fyrir, að þó hún færi að skila málinu frá sér þannig, mundi það ekkert greiða fyrir göngu þess gegnum þingið, heldur verða til þess að vekja deilur, sem e. t. v. mundu stöðva málið til lengri tíma. Í öðru lagi er það vitað, að fyrir hv. Ed. liggur frv. um sama efni. Álítur n. rétt að bíða þangað til það frv. verður afgr. til þessarar d. og athuga þá bæði frv. í sameiningu, ef ske kynni, að sú lausn fengist þá á málinu innan n., sem heppilegt sýndist að leggja fyrir hv. d.

Viðvíkjandi því, að ég hefi skrifað undir nál. með fyrirvara, vil ég segja það, að ég hefi greitt atkv. með þessu máli á undanförnum þingum af því, að ég tel Vestmannaeyinga hafa sérstöðu í þessu efni, þar sem þeir einir bera þau gjöld, sem þeim er hér leyft að leggja á sig. Þeir geta a. m. k. ekki nema að örlitlu leyti lagt þau gjöld yfir á aðra. En fyrirvari minn nú er við það bundinn, að ef líkur væru til, að frv. um tekjur sveitar- og bæjarfélaga næði fram að ganga, og sett yrði þannig heildarlöggjöf um þetta efni, þá álít ég þetta frv. óþarft. En ennþá sem komið er eru litlar horfur á, að svo verði á þessu þingi, og mun ég því greiða atkv. með þessu frv. til 3. umr. a. m. k.