17.04.1937
Neðri deild: 42. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 345 í C-deild Alþingistíðinda. (1610)

67. mál, gengisskráning

Flm. (Hannes Jónsson):

Herra forseti! Nú þegar útvarpsumræður hefjast um gengismálið, vil ég byrja á því, að gera stuttlega grein fyrir aðalefni frv. til l. um gengisskráningu, sem hér er til umr. og ég er flm. að.

Gert er ráð fyrir, að skipuð verði þriggja manna n., sem hafi á hendi skráningu á gengi erlends gjaldeyris. Landsbanki Íslands tilnefnir einn mann í n., og er hann formaður hennar. Hinir tveir skulu tilnefndir af Búnaðarfélagi Íslands og Fiskifélagi Íslands, sinn frá hvoru félagi. Gengi hins erlenda gjaldeyris skal n. skrá með tilliti til þess, að höfuðatvinnuvegir þjóðarinnar, landbúnaður og sjávarútvegur, fái endurgreitt tilkostnaðarverð fyrir útflutningsvörur sínar. N. hefir rétt til að krefjast upplýsinga hjá stofnunum og einstökum mönnum um allt það, er henni þykir þörf á til að geta ákveðið meðaltalstilkostnaðarverð þeirrar vöru, sem seld er á erlendum markaði. Á þennan hátt er aðalvaldið um skráningu gengisins fengið í hendur fulltrúum frá tveimur aðalatvinnuvegum þjóðarinnar, landbúnaði og sjávarútvegi, undir yfirstjórn þjóðbankans. Þessum aðiljum ætti að vera bezt trúandi til að finna hið rétta jafnvægi í atvinnu- og viðskiptalífi þjóðarinnar, sem öll framtíð hennar og velmegun byggist á.

Ég mun nú í fáum dráttum gera nokkra grein fyrir gangi þessara mála síðustu árin eða síðan heimsstyrjöldinni miklu lauk.

Á stríðsárunum fór allt atvinnulíf, viðskipti og fjármálastarfsemi úr réttum skorðum. Afleiðingar þeirrar byltingar komu fyrst verulega í ljós, eftir að stríðinu lauk. Vitanlega var mjög mismunandi ásatt í þessu efni hjá hinum einstöku þjóðum. Þær, sem höfðu tekið þátt í hildarleik ófriðarins, voru með flakandi sárum, en mismunandi mörgum og djúpum. En þær þjóðir, sem utan við stóðu, höfðu orðið fyrir mismunandi áhrifum heimsviðskiptanna og höfðu mismunandi árvekni og þekkingu á því, að stýra fram hjá hættulegustu skerjunum. Á Norðurlöndum mun Svíum hafa tekizt þetta bezt, enda standa þeir nú nágrönnum sínum langtum framar, hvað afkomu atvinnuveganna snertir og um almenna velmegun.

Þegar í stríðsbyrjun fylgdu Íslendingar mörgum öðrum þjóðum í því, að hverfa frá gullinnlausn seðlanna, og hefir svo verið æ síðan. Með hverju ári sem leið fór verðlag hækkandi eða gildi peninganna lækkandi. Þetta hvatti til aukinna framkvæmda, og allt sýndist leika í lyndi. Tvö síðustu árin var þó mjög þrengt að atvinnuvegum landsins með viðskiptahöftum stórþjóðanna og óhagstæðu verðlagi framleiðsluvaranna móts við innfluttar vörur. Þegar þessum höftum létti í lok stríðsins, haustið 1918, færðist nýtt líf í allar framkvæmdir. Verðlag framleiðsluvaranna hækkaði og náði bráðlega jafnvægi við verðlag erlendra vara, og í ársbyrjun 1919 mun íslenzka krónan hafa verið í jafnvirði við gull. En Adam var ekki lengi í Paradís. Þjóðin ætlaði sér of mikið. Og enginn varð til þess að benda á hættuna. Krónan fór þegar að falla, og hélt áfram að falla þangað til í árslok, að hún var komin niður í 71,76% af gullverði. Undir árslokin 1919 fór að minnka eftirspurn á íslenzkum afurðum, og var reynt að halda uppi verðinu með því, að draga söluna fram á árið 1920. En það fór öðruvísi en ætlað var. Á árinu 1920 byrjaði hið mikla verðhrun og breiddist síðan út um allan heim. Verð framleiðsluvaranna lækkaði stórkostlega, og varð verðlag þeirra mjög óhagstætt í samanburði við verð innfluttu varanna, og ekki bætti um það verðfall, sem varð á hinum óseldu framleiðsluvörum frá fyrra ári. Krónan fór hraðfallandi, og var í nóv. komin niður í 50% af gullverði. Árið 1921 er haldið uppi hækkandi gengi, og er það orðið síðari hluta ársins 58% af gullverði. Árið 1922 er enn haldið uppi hækkandi gengi. 60,28% af gullverði í ársbyrjun, 66,27% af gullverði í árslok. Strax í ársbyrjun 1923 fellur krónan og heldur áfram að falla fram til 13. marz 1924, en þá er hún skráð á móti £ 33,95. Meðalgengi sterlingspunds í marzmánuði er 33,49, og gullgengi krónunnar er þá aðeins 47,72%.

Á árunum 1919–1922 er allt á reiki og engin föst stefna tekin. Gengisfallinu 1919 var varla veitt eftirtekt. Danska krónan var það ár í jafngildi við íslenzku krónuna. Það eitt létu flestir sér lynda. En á árinu 1920, þegar íslenzka krónan er farin að ganga kaupum og sölum undir verði dönsku krónunnar, fóru menn fyrst að vakna. Var ekki trútt um, að sumum fyndist hér vera framin svik gagnvart íslenzku þjóðinni. Föst gengisskráning hefst ekki fyrr en í júlímánuði 1922, og þá tekin upp sú stefna, að reyna að fylgja sterlingspundinu, eins og raunar var gert að mestu leyti árið áður. Sterlingspundið var hækkandi gagnvart gulli, en þá hækkun þoldi ekki íslenzka krónan.

Kaup og sala á erlendum gjaldeyri utan við bankana við talsvert hærra verði heldur en skráða gengið sýndi eykst og margfaldast, og fór svo, að Landsbankinn sá sig neyddan til að fella gengi krónunnar í ársbyrjun 1923, og var þá sterlingspundið skráð á 28,50, og helzt það þangað til í júní–júlí, að krónan er enn felld og pundið skráð á 30,00. Vegna vaxandi eftirspurnar á erlendum gjaldeyri fer íslenzka krónan enn lækkandi, þangað til hún nær lágmarki sínu 13. marz 1924, eins og ég hefi áður sagt.

Á þessu tímabili er uppi talsvert ákveðin skoðun um það, að krónan verði að hækka upp í sitt upphaflega gullgildi eða a. m. k. verða ekki lægri heldur en krónur hinna Norðurlandaþjóðanna. Mun hin fyrsta hugsun í þessu efni aðallega verið sprottin af metnaði fremur heldur en umhyggju fyrir hagsmunum einstaklinga eða þjóðarinnar í heild. Það er sérstök ástæða til að veita þessu eftirtekt sökum þess, hve margvíslegum breytingum forsendur þeirra manna taka, sem vilja hækka eða halda uppi óeðlilega háu gengi peninganna.

Á Alþingi er þetta mál fyrst flutt árið 1923, og eru nú hagsmunir innstæðueigenda mjög bornir fyrir brjósti. Þá er og talað um, að gengishækkun létti greiðslu erlendra skulda. Till. til þál. um hækkun krónunnar í upprunalegt gullgengi náði ekki samþykki þingsins. En frá 1923 til 1931 var á hverju þingi hreyft við þessu máli, en á mismunandi grundvelli og með mismunandi forsendum.

Á tímabilinu frá 13. mars 1924 til 27. okt. 1925 er sú stefna ráðandi í gengismálinu, sem varð mjög áhrifarík um alla afkomu atvinnuveganna í landinu. Á þessu tímabili hækkaði krónan gagnvart sterlingspundi þannig, að frá því að vera skráð á 33,95 er pundið 27. okt. 1925 skráð á 22,15. Á sama tíma hækkar sterlingspundið gagnvart gulli úr 88% í rúmlega 99%. Hækkunin á krónunni móti gulli verður því talsvert meiri heldur en hún var gagnvart pundinu, eða úr 47,72% í 81,41% af gullverði. Á sama tíma sem sterlingspundið hækkar gagnvart gulli um 12%, hækkar íslenzka krónan um 70%.

Það má nú vera flestum ljóst, hvaða feiknaörðugleika þessi gífurlega gengishækkun hefir leitt yfir atvinnuvegi landsins, enda varð mörgum þetta þegar í upphafi ljóst. Og það eina, sem bjargaði því, að ekki fór allt í rústir þá þegar, og um leið var notað sem ástæða fyrir hækkuninni, var nokkur hækkun framleiðsluvaranna, sérstaklega landbúnaðarafurða, framúrskarandi gott árferði og aflasæld. Það gat ekki farið vel að stýra eftir þessum óvenjulegu ástæðum fyrir bættri afkomu atvinnuveganna inn á brautir hágengisins, enda kom það strax í ljós á árinu 1926. Framleiðslan var sett í spennitreyju, sem ekki leyfði eðlilegan vöxt og þroska. Og þó keyrir fyrst algerlega um þverbak um og eftir 1930. Mótstöðukraftur framleiðenda var gersamlega þrotinn, og þeir flutu út á fen skulda og óreiðu, eins og þjóðin hefir fengið að heyra af þeim útvarpsumræðum, sem hér hafa farið fram á Alþingi í vetur.

Hvað mundu nú aðrar þjóðir hafa gert? Hvað gerðu Englendingar? Á árinu 1925 hófst gullinnlausn sterlingspundsins. Danir fylgdust með og nokkrar aðrar þjóðir. Í Noregi var gullinnlausn ekki tekin upp fyrr en 1. maí 1928. Englendingum var það mikið áhugamál að halda pundinu í gullgildi. Þeir höfðu þar mikilla hagsmuna að gæta. Allar inneignir þeirra erlendis skiptu tugum milljarða sterlingspunda, og allar stríðskuldir þeirra við Bandaríkin voru í gulltryggðum dollurum. En samt var gullinnlausnin upphafin í Englandi 21. sept. 1931, og pundið fellt um 22%. Og enn hefir það fallið svo, að gildi þess gagnvart gulli er nú neðan við 60%.

Hvers vegna hafa nú Englendingar farið svona að? Það var af þeirri einföldu ástæðu, að atvinnuvegirnir þoldu ekki hið háa gengi, og með samtaka vilja þjóðarinnar er sterlingspundið sjálft látið finna jafnvægið í viðskipta- og atvinnulífi þjóðarinnar. Við Íslendingar förum öðruvísi að. Við hnýtum okkur blindandi aftan í aðra þjóð. Gengi peninga okkar er ekki skráð eftir innri þörf, heldur eftir því ástandi, sem nú er ríkjandi í viðskipta- og atvinnulífi Englendinga.

Andstæðingar réttlátrar gengisskráningar hafa á undanförnum árum hrökklazt úr einu víginu í annað. Þeir byrjuðu á því, að tala um þann sjálfsagða metnað, sem þjóðin ætti að hafa í því, að hækka gengi krónunnar. Þessi ástæða er löngu horfin, og nú dettur engum í hug, að nokkru sé fórnað fyrir þann metnað, og allra sízt eftir að Englendingar féllu frá gullinnlausn 1931. — Hagsmunir sparifjáreigendanna var næsta vígið. Nú er mönnum farið að skiljast það, að hagsmunir þeirra eru svo nátengdir afkomu atvinnuveganna, að ekki verður á milli skilið. Sparifjáreigendum er enginn greiði gerður með því, að innstæður þeirra týnist í töpum atvinnuveganna. Þau töp gætu orðið svo mikil, að innstæðurnar færu veg allrar veraldar. A. m. k. ætti mönnum að vera minnisstætt, hvernig fór með Íslandsbanka og innstæður manna þar. Það er eftirtektarvert, að síðan 1931 og til ársloka 1935 höfðu innstæður í sparisjóðum aukizt um 25%, meðan stórfelld töp eru að sliga atvinnuvegina. Hvernig eru þessar innstæður tryggðar? Gæti ekki svo farið, að sagan endurtæki sig og þessar innstæður týndust í skuldatöpum bankanna að meira eða minna leyti, ef ekkert væri aðhafzt? Og enginn hreyfir neinni óánægju yfir því, að innstæður manna hafa rýrnað að verulegu leyti síðan 1931 vegna verðfalls sterlingspundsins. — Síðasta vígið eru hagsmunir verkamanna og launamanna. Fulltrúar verkamannanna í Englandi hafa séð betur en stéttarbræður þeirra á Íslandi. Þeim varð það strax ljóst, að því aðeins gat verkamönnunum vegnað vel, að atvinnuvegirnir gætu tekið við þeim og veitt þeim örugga atvinnu, þótt það kostaði hækkandi verðlag fyrir neytendur og framleiðendur. Þetta eru jafnaðarmenn hér farnir að sjá líka, þótt þeir fari hægt og geri ófullnægjandi till. í þá átt. En að þessu mun ég víkja síðar.

Fyrir dómstóli þjóðarinnar skal ég nú leiða nokkur vitni í máli þessu og byrja þá á Framsfl. Mun formaður hans sennilega fús að staðfesta framburð flokksins með eiði, ef krafizt verður.

Í „ávarpi til þjóðarinnar“, sem birtist í „Tímanum“ 26. marz 1934 bendir flokkurinn á nokkur verkefni, sem hann segist ætla að leysa, ef hann fengi til þess atkvæðamagn hjá kjósendum. Þar stendur m. a.:

„Að láta fara fram ýtarlega rannsókn um viðhorf aðalatvinnuveganna (landbúnaðar og sjávarútvegs) til gengismálsins og ákveða síðan verðgildi krónunnar í sem fyllstu samræmi við niðurstöðu þeirrar rannsóknar.“

Og á nýafstöðnu flokksþingi Framsfl. var samþ, svo hljóðandi till.:

„Flokksþingið ályktar að Framsóknarflokkurinn beiti sér fyrir því, að skipuð verði n. til að athuga, á hvern hátt því verði bezt fyrir komið, að gildi peninga verði framvegis miðað við framleiðsluvörur landsmanna í stað þess að fylgja peningagengi annara þjóða. Sé lögð áherzla á, að n. skili áliti og tillögum sem fyrst.“

Sem nokkurskonar fskj. með þessum ávörpum flokksins mætti sennilega taka álit sænska hagfræðingsins Lundbergs, sem árið 1935 var fenginn til þess að leiðbeina stj. út úr þeim ógöngum, sem þjóðinni hefir verið siglt í. Hann segir, þar sem hann víkur að gengismálinu, m. a.: „Rökræður leiða að sjálfsögðu skjótlega að mismunandi ráðum um fyrirkomulagsatriði, skipting á tekjum o. s. frv., þar sem ólík pólitísk viðhorf hljóta að gera vart við sig. En þótt þetta sé óhjákvæmilegt, hygg ég, að áður en að þessum efnum sé komið, sé um að ræða stórt sameiginlegt svæði, þar sem beita megi viðræðum, er ólitaðar séu af stjórnmálaviðhorfi, en reistar séu á vísindalegum grundvelli. Og slík greinargerð er nauðsynleg til þess að fá nokkurt vit í stjórnmálaumræðurnar, er á eftir hljóta að koma.“

Ennfremur segir hann: „Fjárhagsvandræði Íslands eru skyldari vandkvæðum landanna, sem miða gjaldeyri sinn við gullgildi — Frakklands, Sviss, Hollands og Þýzkalands. Þau glíma við, hvernig jafnvægi í viðskiptalífinu við aðrar þjóðir verði haldið, þrátt fyrir gjaldeyri, sem er of hátt metinn.“

Ennfremur segir hann, að hér hafi verðmæti útfluttra afurða lækkað um 40–50% frá 1929 til 1935. Í hverju öðru landi en Íslandi hefði þetta leitt til afarmikillar kauplækkunnar, en hér hafi kaupið ekki lækkað, heldur jafnvel hækkað.

Enn segir hann: „Eins og drepið hefir verið á, er hið lága erlenda verð að nokkru leyti fólgið í því, að útflytjendur fá minna fyrir hinn erlenda gjaldeyri, er þeir afla, heldur en hann er landinu virði. Afleiðingin er, að bæði landbúnaður og útvegur eru að miklu leyti reknir með tapi. ... Við þetta bætist enn hitt, sem drepið hefir verið á um innflutninginn, að mikils er um vert að koma á verðhækkun á íslenzkum framleiðsluvörum í hlutfalli við erlendar.“

Og að lokum segir hann: „Menn fá mikið meira í raunverulegum verðmætum með því að verja gjaldeyrinum beint ytra en með því, að flytja hann heim og selja þar fyrir íslenzkar krónur, vegna þess að núverandi viðurkennt verð hans er lægra en hið raunverulega verð. Auk þess skekkist öll lánveitingastarfsemi; hún verður ekki starfræn að því leyti, að veitt sé fé til ríkis- eða einkafyrirtækja, er beri arð, heldur verður hún óstarfræn, er féð fer til þess að greiða töp, sem stafa af háum launum og lágu verði erlendis. Bankarnir fjötrast í frosnum lánum, sem afskrifa verður.“

Maður skyldi ætla, að allt, sem Framsfl. hefir sagt um þessi efni, og það, sem hann hefir við að styðjast frá þessum sænska hagfræðingi, væri nægilegt til þess, að hann léti frekar frá sér heyra í málinu heldur en hann hefir hingað til gert. Þó er ekki örgannt um, að hann hafi látið nokkuð til sín heyra í þessu efni. Nú þegar séð er, að stj. hlýtur að hrökklast frá völdum, sendir flokkurinn frá sér þáltill. inn í þingið um skipun mþn. til að endurskoða bankalöggjöf landsins, þar sem segir m. a.: „Jafnframt er fjmrh. heimilt að fela n. sérstaka athugun á því, hvernig verðskráning íslenzkrar krónu verður bezt fyrir komið.“ Og í grg. þessarar till. stendur: „Engin ábyggileg rannsókn hefir heldur farið fram á því, hvaða gengi væri hæfilegt, miðað við vöruverð, framleiðsluverð og þarfir atvinnuveganna yfirleitt, þótt ekki hafi vantað staðhæfingar, lítt eða ekki rökstuddar, um þetta efni.“ Þetta er það eina, sem Framsfl. hefir borið fram viðvíkjandi gengismálinu. Eftir að fyrirsjáanlegt er, að flokkurinn muni hrökklast frá völdum, sendir hann frá sér þessa þáltill.

Þá vil ég leiða hér fram annað vitni, hv. þm. V.-Ísf. Hann lét, að því er mér er sagt, nokkur orð falla um gengismálið við umr. hér í gærkveldi, og ég hefi áður deilt nokkuð við hann um þetta mál. Ég hefi heyrt, að hann muni taka þátt í þessum umr., og ætla ég þá að gefa honum tækifæri til þess að glíma við sjálfan sig. Í 63. tölubl. af tímanum árið 1931 segir hann: „En um framleiðslu og afurðaverð féll allt áframhaldandi á ógæfuhlið.“ — Þetta er í Englandi. Hann er búinn að skýra frá, hvernig samsteypustjórnin snerist við fjárhagserfiðleikunum þar í landi. — „Traustið brast, og erlendar kröfur um innlausn skuldbindinga streymdu inn yfir Lundúnabankana. Þá var það, að Englandsbanki og Bretastjórn gerðu tillögu um afnám gullinnlausnar á seðlum, og núverandi foringi jafnaðarmanna, Henderson, reis upp í þinginu og mælti með tillögum stjórnarinnar um ráðstafanir gegn yfirvofandi hættu, þótt afnám gullinnlausnar þýddi hækkandi verðlag jafnt fyrir neytendur sem framleiðendur. Það verður gleggst á krepputímum, að þessir tveir aðiljar eiga sameiginlegra hagsmuna að gæta. Afurðir landanna og sala þeirra er undirstaðan undir öllu, hvað sem líður deilunni um skiptingu arðsins. Þegar litlum eða engum arði er lengur að skipta, fallast hagsmunirnir í faðma, og þá er þörf sameiginlegra átaka um að blása því lífi í atvinnuvegina, að a. m. k. verði einhverju að skipta milli svangra manna og arðlauss fjármagns.“ Hann segir ennfremur: „En þegar heimskreppan leggur viðjar sínar um öll lönd, þá beygja Englendingar sig heldur en að brotna, og engum stjórnmálaflokki þeirra kemur til hugar að nota ástandið í flokkslegu eiginhagsmunaskyni. Englendingar hafa tekið skjótar ákvarðanir um fjárlög og gengi, og með því aukið álit sitt sem ein hin þroskaðasta þjóð í stjórnmálalegu tilliti.“ Ennfremur segir hann: „Englendingar hafa kippt stoðum gullsins undan gjaldeyri sínum um hríð, og látið pundið sjálft prófa eðlisþyngd sína á úthafi alþjóðaviðskiptanna.“ Og svo endar hann greinina með þessum orðum: „Það er eitt víst þótt sumum kunni að þykja það harður boðskapur, að kreppunni léttir ekki á annan hátt en með hækkandi verðlagi og þarafleiðandi fjörkippum í lömuðum atvinnuvegum.“

Nú geta landsmenn gert það upp við sjálfa sig, hvort þeir vilja heldur trúa Ásgeiri Ásgeirssyni sem ráðh. 1931, sem er fullvitandi um þá ábyrgð, sem á honum hvílir, eða Ásgeiri Ásgeirssyni, hv. þm. V.-Ísf., sem gengur nú á biðilsbuxunum fyrir framan herbúðir sósíalista, þótt hann sé nú allvel genginn úr hárum eftir ekki lengra samstarf við þá.

Þá vil ég enn leiða til vitnis þá sósíalistana. Þeir hafa að undanförnu barizt fast gegn allri leiðréttingu á gengismálunum. Nú bera þeir fram frv. á þskj. 131 um verzlunarráðuneyti, utanríkisverzlun og eftirlit með verðlagi. Í 16. gr. þess er komizt svo að orði: „Verzlunarráðuneytinu er heimilt að innheimta gjald af öllum innflutningi til landsins, er getur orðið allt að 15% af innkaupsverði, mismunandi eftir vöruflokkum, og ákveður ráðuneytið gjaldið fyrir hvern flokk til eins árs í senn. Skal af því stofnaður verðlagssjóður, sem varið skal þannig ...“ Svo er talið upp, til hvers á að verja þessum sjóði, og er 3. liður þeirrar upptalningar þannig:

„Til verðuppbótar til framleiðenda, og má verja allt að einum þriðja þess, eða 15% innflutningsgjaldsins, til uppbótar á verð útfluttra sjávarafurða, en ?, eða 30% innflutningsgjaldsins, skal varið þannig, að verðlag innlendrar vöru á innlendum markaði geti lækkað móts við verðlag erlendrar vöru, án þess að framleiðendur beri minna úr býtum.“ Hér koma sósíalistar fram með ráðstafanir, sem verka nákvæmlega eins og gengislækkun gagnvart neytendunum, en ekki nema að litlu leyti gagnvart útflytjendunum. Aðeins lítinn hluta af innflutningsgjaldinu á að nota til að bæta upp verð sjávarafurða, en landbúnaðinum er alveg sleppt; bændurnir eiga aðeins að bera byrðarnar af þessari dulbúnu gengislækkun, en ekki njóta hagnaðarins af henni.

Ég hefði gjarnan viljað leiða ennþá eitt vitni úr Sjálfstfl., en hann hefir ekki mikið látið til sín heyra. Ég vil þó benda á, að frá útgerðarmönnum hafa komið nú í vetur ákveðnar áskoranir um gengislækkun. Voru þær samþ. á fundi fiskframleiðendafélagsins með langsamlegum meiri hluta atkv. Og ýmsir af leiðtogum og starfandi mönnum Sjálfstfl., þar á meðal formaður flokksins, hafa barizt vel fyrir þessu máli. Formaður flokksins barðist t. d. vel móti gengishækkuninni 1924 og 1925.

Háttvirtir þingmenn! Góðir tilheyrendur! Ég hefi nú skýrt þetta frv. mitt um gengisskráninguna. Ég hefi gefið stutt sögulegt yfirlit yfir gang gengismálsins frá stríðsbyrjun. Ég hefi sýnt, hvernig andstæðingar réttlátrar gengisskráningar hafa hrökklazt úr einu víginu í annað og eru nú að veikjast í vörninni í því síðasta. Ég hefi einnig rifjað upp ýmis ummæli innlendra manna og útlendra, sem ég tel einna bezt hafa kynnt sér gengismál okkar.

Mér hefir verið það mikið áhyggjuefni undanfarin ár og því meira, sem lengra hefir liðið, hve erfið er og hefir verið afkoma aðalatvinnuveganna, landbúnaðar og sjávarútvegs. Báðir atvinnuvegirnir hafa um mörg ár verið reknir með stórfelldu tapi. Báðir hafa þeir orðið að fá stórfellda uppgjöf skulda. Það, sem er allra alvarlegast, er þó, að þeir eru enn báðir reknir með tapi, og fólkið flýr frá atvinnurekstrinum. Þetta vita allir og viðurkenna, jafnvel skipulagsnefnd atvinnumála (sbr. skýrslu bls. 186, 188 og 494). Sumar af þeim ástæðum, sem þessu valda, eru okkur óviðráðanlegar, svo sem sölutregða erlendis fyrir afurðir okkar, en sumar getum við ráðið við. Það er engin vafi, að aðalatvinnuvegirnir hafa beðið stórtjón af því, að þeir hafa ekki fengið fullt verð fyrir erlenda gjaldeyrinn, sem útfluttu afurðirnar hafa lagt fram. Ég hefi styrkzt í þessari skoðun við álit sænska hagfræðingsins Lundbergs, sem telur, að við fáum 40% of lágt verð fyrir hann. Ég hefi talið mér skylt að gera mitt til að ráða bót á afkomu atvinnuveganna. Ég hefi því borið fram þetta frv. þing eftir þing. Ég get búizt við, að eitthvað í því mætti betur fara til að ná því marki, sem því er ætlað. Þeir, sem betur kunna, munu betur gera. Öllum till., sem til bóta horfa, mun ég taka með þökkum. Ég hefi viljað knýja þingið til að taka málið til alvarlegrar íhugunar og afgreiðslu, en hinir flokkarnir hér á þingi, sem aldrei sitja á sáttshöfði, hafa verið sammála um að þegja þetta mál í hel. Ég hefi því orðið að fá útvarpsumræður til þess að knýja þá til umr. um málið. Það, að koma rekstri atvinnuveganna á fjárhagslega tryggan grundvöll, er mál málanna, sem allt velgengi þjóðarinnar byggist á. Bændafl. stendur óskiptur að þessu máli. Hinir flokkarnir hafa ekki að mínum dómi bent á öruggari leið til lausnar en ég hefi gert hér. Ég legg því óhræddur mál mitt undir dóm þjóðarinnar og skora á alla áheyrendur að kynna sér málið sem bezt og fylgjast með afstöðu flokkanna. Atvinnuvegirnir verða að komast á réttan kjöl. Ég sé ekki aðra beinni leið til þess en hér er bent á, en „heilsa með fögnuði vagninum þeim, sem eitthvað í áttina líður“.