17.04.1937
Neðri deild: 42. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 376 í C-deild Alþingistíðinda. (1617)

67. mál, gengisskráning

*Emil Jónsson:

Hv. þm. G.-K. hóf mál sitt á því, að lýsa yfir, að hann talaði ekki við hv. 9. landsk. um þessi mál. Aftur á móti taldi hann sig gjarnan vilja tala við mig, og er ég honum auðvitað mjög þakklátur fyrir þá upphefð, en vegna þeirra, sem hlusta, en ekki þekkja takta þessa hv. þm., vil ég upplýsa, af hverju hv. þm. G.-K. vildi ekki tala við hv. 9. landsk., heldur mig. Það var af því, að ég hafði ekkert sagt um þessi mál, og þess vegna var auðvelt að tala við mig um þau, en hv. 9. landsk. hafði haldið góða og skýra ræðu, sem erfitt er að vefengja. Þess vegna er það skiljanlegt, að hv. þm. vildi ekki við hann tala.

Hv. þm. G.-K. lagði fyrir mig nokkrar spurningar, t. d. þá, hvort verðfelling frankans í Frakklandi undir forustu Leons Blums hefði verið réttlát. Þessu er til að svara, án þess að farið sé langt út í þau stórpólitísku mál, að frankinn féll ekki með sterlingspundinu árið 1931.

Svo er annað, sem hér kemur til greina, að ásamt með þessari gengislækkun í Frakklandi hafa fylgt launahækkanir, sem vel hafa fyllt upp þessa gengislækkun. Því höfum við sósíalistar ekki sett okkur á móti gengislækkun, ef á móti kæmi tilsvarandi kauphækkun. Annars hefir hv. þm. V.-Ísf. svarað bæði þessari spurningu og eins spurningunni, sem hv. þm. G.-K. lagði fyrir mig um Stauning og hans gengislækkun, svo að ég tel ekki þörf á að fara frekar út í það, en mun koma að ræðu hv. þm. G.-K. síðar, ef tími vinnst til.

Þetta mál, sem hér liggur fyrir, gengismálið, er að því leyti örðugra viðfangs en flest önnur, að það er miklu flóknara, torskildara og yfirgripsmeira, þannig að það er fáum gefið öðrum en einstaka fagmönnum að hafa fullkomið yfirlit yfir það. Áhrifa og afleiðinga gjaldeyrisskráningarinnar gætir svo að segja í öllum viðskiptum á einhvern hátt, beinlínis eða óbeinlínis, og er það hin mesta nauðsyn að athuga það svo vel, svo rólega og svo gaumgæfilega sem kostur er, til þess að óvæntar afleiðingar fljóthugsaðra ráðstafana verði ekki of dýru verði keyptar og beri ekki ofurliði þann stundargróða, sem menn hyggjast að ná með þessum ráðstöfunum. Þess vegna er kannske meir í þessu máli en öðrum ástæða til að hlusta vel eftir því, hvað sérfræðingar segja, sem hafa kynnt sér málin hér heima. Ég finn þess vegna ástæðu til að rekja hér umsagnir hins eina erlenda hagfræðings, Eriks Lundbergs, sem hér á staðnum hefir kynnt sér fjármál okkar Íslendinga og látið í ljós álit sitt á þeim og gengismálinu sérstaklega. Og það er því meiri ástæða til að gera þetta, þar sem hv. flm. þessa máls og hans flokkur, Bændafl., hefir bæði í ræðu og riti látið liggja orð að því, og beinlínis sagt það, að þessi hagfræðingur hafi verið fylgjandi gengislækkun. Hv. flm. kallaði þetta vitni fram, eins og hann orðaði það í fyrstu ræðu sinni hér í kvöld, en það var eftirtakanlegt, að í öllum þeim fimm köflum, sem hann tók upp úr álitum Lundbergs, var hvergi einu orði minnzt á gengislækkun. Ég vek athygli á þessu, til þess að hv. þm. og hlustendur rugli því ekki saman, sem Lundberg segir um gengið, og því, sem hann segir um gengislækkun.

En áður en ég fer út í að greina frá áliti þessa manns, þykir mér rétt að kynna hann nokkuð fyrir hv. þdm. og öðrum hlustendum, þar sem hann er ungur maður og því lítt þekktur. Lundberg var fenginn hingað á vegum skipulagsnefndar atvinnumála, kom hingað haustið 1935 og dvaldi hér þrjá mánuði tæpa og skilaði n., áður en hann fór, ýmsum mjög merkum till. eftir að hafa kynnt sér ástandið eftir föngum. Að valið féll á hann, kom til af því, að prófessor Gunnar Myrdal í Stokkhólmi, sem margir hér kannast við og leitað var til um aðstoð í þessum efnum, gat ekki komið sjálfur vegna annríkis, en mælti með Lundberg sem bezta manninum, sem hann þekkti og völ væri á, en Lundberg var þá starfsmaður í hagfræðideild ríkisbankans sænska og fékk aðeins stutt frí til að fara hingað. — Áður en Lundberg fór hélt hann fyrirlestur á vegum norræna félagsins, sem hann nefndi: „Ísland og viðhorf hagfræðinnar“, og af því að hann kemur þar fyrst inn á þetta mál, sem hér liggur fyrir, skal ég leyfa mér að lesa hér nokkrar línur úr þessu erindi, með leyfi hæstv. forseta: „Séu innflutningsvörur 1929–1930 reiknaðar með núverandi innflutningsverði, mundu þær nema samtals 55–60 millj. kr. Andspænis þessari raunverulegu innflutningsþörf, sem nemur þá eitthvað yfir 55 millj. kr., er gjaldeyrir fyrir eitthvað yfir 40 millj. kr., og til þess að láta þetta fé standast á við eftirspurnina, yrði að hækka erlenda gjaldeyrinn að mati um 40%, og væri það mælikvarði á, hversu íslenzka krónan er nú of hátt metin. – Að sjálfsögðu eru þetta aðeins drög að reikningi, en gæti þó gefið hugmynd um, hversu miklu nemur þessi mismunur á greiðslureikningnum. Og þessar tölur sýna berlega, hversu miklu máli skiptir um starf gjaldeyrisnefndar, og þá jafnframt um þá feiknaörðugleika, sem á því hljóta að vera fyrir henni, að skera niður innflutninginn, þegar verðimegund þrýstingsins er jafnmikil og tölur þessar sýna.“ Síðan bætir hann við: „En þótt reiknað sé á þann hátt sem hér hefir verið gert, þá er ekki sjálfsagt, að í því felist, að rétt sé að lækka verðgildi krónunnar. Fyrir Ísland sem hagfræðilega heild eru slíkar ráðstafanir í sjálfu sér gagnslausar. Hið sama gengi (växelkurs) er falið í hlutfallinu milli verðsins í útlöndum á íslenzkum afurðum og verðsins á innfluttum vörum, og þetta hlutfall kemur ekki við verði krónunnar í hlutfalli við annan gjaldeyri. Hinsvegar skiptir gengið miklu máli innanlands um skiptinguna á tekjunum.“ Og síðar í erindinu segir hann: „Segja má, að í gengislækkun íslenzkrar krónu sé ekki annað falið en há tollvernd, þar sem tollurinn renni þó ekki í ríkissjóð, heldur greiðist útflytjendum.“ Þá segir hann á einum stað í áliti sínu til n.: „Eins og ástandið er nú á Íslandi, mundu — svo framarlega, sem ríkið skærist ekki í leikinn — allar nýbyggingar og ný fyrirtæki vera nærri óhugsandi, skattar mundu lækka og launalækkanir mundu verða knúðar fram. Að öðrum kosti mundi íslenzka krónan lækka um 20–30%, til þess að framleiðslan til útflutnings geti borið sig og verð innflutningsins hækki.“ Svo bætir hann við: „En hvorug þessi leið getur komið til greina, bæði vegna þess, að þetta er allt of mikil blóðtaka fyrir þjóðina félagslega skoðað, eins og reynsla annara landa hefir sýnt og sannað, og líka vegna þess, að búast má við því, að ef lagt er í ýms ný fyrirtæki til framleiðslu (nýja togara, verksmiðjur til þess að vinna úr útlendum hráefnum o. s. frv.), mundi það laga fjármál landsins út á við, þegar til lengdar lætur.“

Þetta er í stuttu máli álit Lundbergs. Og ég get bætt því við, að mér er mjög vel kunnugt um það af persónulegri kynningu minni við hann, en við unnum saman nærri daglega, meðan hann var hér, að það var mjög fjarri því, að hann teldi það vænlegt fyrir íslenzkt fjálmálalíf, að lækka gengi íslenzku krónunnar. Álit hans á íslenzku fjármála- og atvinnulífi var í stuttu máli þetta: Hann viðurkenndi, að íslenzka krónan væri hærra skráð en vera mundi, ef hún væri frjáls, en taldi ekki rétt að lækka hana af ástæðum, sem þegar hafa verið teknar fram. Hann vildi hafa sterka innflutnings- og gjaldeyrisnefnd, sem takmarkaði innflutninginn við gjaldeyri þann, sem fyrir hendi væri. Hann vildi annaðhvort með álagningarskatti eða með sölu gjaldeyrisleyfa eða með ríkisverzlun takmarka kaupmáttinn á útlendu vörunni. Hann vildi, að ríkisvaldið hefði íhlutun um hina aðþrengdu atvinnuvegi og styrkti þá eftir þörfum, bæði með beinum fjárframlögum, rentulágum og jafnvel rentulausum lánum, og með stofnsetningu nýrra atvinnutækja. Hann var loks mikið á móti háu verði á innlendu framleiðsluvörunum, til þess að eftirspurnin eftir þeim ykist á kostnað útlenda varningsins. — Þetta voru í stuttu máli hans till., og skipulagsnefnd hefir tekið þær allar upp og gert að sínum till., enda er þetta sú fjármálastefna, sem núverandi hæstv. ríkisstj. hefir fylgt, að einu atriði þó undanskildu, en það er verðlagning innlendu framleiðsluvörunnar fyrir innlenda markaðinn. Það hefir verið farið inn á þá óheillabraut að mínu áliti og okkar alþýðuflokksmanna, að halda of háu verði á framleiðsluvörum landbúnaðarins með aðstoð ríkisvaldsins, til skaða bæði fyrir neytendur og framleiðendur, en ég skal ekki fara frekar út í það hér; það gefst kannske tækifæri til þess síðar.

Ég hefi með vilja verið svona margorður um afstöðu þessa erlenda sérfræðings til þessa máls, bæði vegna þess, að hann er síðasti erlendi fræðimaðurinn, sem hefir kynnt sér þessi mál eins og þau standa nú, og eins vegna hins, að ég er þess fullviss, að hann var fullkomlega hlutlaus í dómum sínum og byggði þá á fræðilegum grundvelli. Og síðast en ekki sízt hefi ég gert það vegna þess, að ýmsir menn, og sérstaklega formælendur þessa máls hér á hv. Alþ. og blað þeirra, hafa verið svo óvandaðir að málflutningi, að þeir hafa talið Lundberg vera fylgjandi gengislækkun, þó að sannleikurinn sé sá, að hann hafi verið ákveðinn andstæðingur hennar.

Þá leiddi hv. flm. frv. annað vitni í þessu máli, og það var vitanlega ég sjálfur og það frv., sem ég hefi borið fram um verzlunarráðuneyti o. fl. Taldi hann, að í því frv. fælist ráðstafanir til gengislækkunar. Þetta er þveröfugt, því að í frv. eru gerðar ráðstafanir til þess að hindra það, að til gengislækkunar þurfi að koma, þar er gert ráð fyrir því, að leggja á vöruskatt, sem að nokkru leyti renni til útflytjenda. Þetta hefir engin áhrif á laun launþeganna og afkomu þeirra.

Ég þarf að sleppa mörgu, því að mér er sagt, að minn ræðutími sé bráðum á enda, en áður en ég lýk máli mínu, vil ég benda á, að það hefir verið lærdómsríkt fyrir hlustendur að veita eftirtekt afstöðu flokkanna til þessa máls. — Hv. þm. G.-K. hélt því fram, að þetta mál væri ekki flokksmál hjá neinum flokki nema Bændafl. Ég get lýst því yfir f. h. Alþfl., að Alþfl. hefir allur og óskiptur hin síðari ár staðið á móti gengislækkun og gerir það óhikað að sínu flokksmáli. Bændafl. hefir líka tekið afstöðu til málsins, en hinir flokkarnir tveir, Sjálfstfl. og Framsfl., hafa enga heildarstefnu í þessu máli. Það er vitað um marga innan þessara flokka, sem eru ákafir fylgismenn gengislækkunarinnar, og það var ekki laust við, að það skyni út úr ræðu hv. þm. G.-K. hér áðan, að gengislækkun væri ekki svo voðaleg, jafnvel launamenn hefðu gott af henni. En auðvitað voru þetta hrein falsrök, en því miður er ekki hægt að fara út í þau hér. Það verður kannske gert annarsstaðar. Hvor stefnan verður ofan á í báðum þessum flokkum, er algert vafamál. Þeir kjósendur, sem vilja hafa hreina línu í málinu, á móti gengislækkun, tryggja það bezt með því að styðja Alþfl. Hinir geta brugðizt til beggja vona báðir tveir.

Annars er náttúrlega eitt öruggt ráð fyrir fulltrúa þessara flokka til þess að hrinda af sér slyðruorðinu, og það er að gefa við þessar umr. skýra og ótvíræða yfirlýsingu um afstöðu flokkanna til málsins. Geta kjósendur reitt sig á, að þeir hafa þá á ákveðnum stað, eða geta þeir það ekki?

Eitt af þeim fáu fyrirtækjum, sem mundu græða verulega á gengislækkun, er hlutafélagið Kveldúlfur, sem á þann hátt fengi bætt hlutfallið á milli eigna sinna og skulda. Væri á þann hátt handhægast að framkvæma þá eftirgjöf, án þess að mikið bæri á. Og kemur þetta ekki eftir kosningarnar, ef þeir fá ráðin? Því fær formaður Sjálfstfl. og Kveldúlfs tækifæri til þess að svara hér á eftir. Það, sem gerir þennan grun enn sterkari, er, hvað þessi þm., hv. þm. G.-K., hefir verið hikandi og lítið sagt um þetta mál, en látið Bændafl. beita sér fyrir því, til þess að afstaða hans væri ekki eins áberandi. Ekkert nema skýlaus yfirlýsing gæti hreinsað flokkinn af þessum grun, og væri æskilegt, að sú yfirlýsing væri svo skýr og ótvíræð, að enginn gæti villzt á henni.