22.03.1937
Neðri deild: 24. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 388 í C-deild Alþingistíðinda. (1631)

73. mál, útgerðarsamvinnufélög

*Flm. (Bergur Jónsson):

Þetta mál hefir verið flutt á tveim undanförnum þingum. Við flm. væntum þess því, að það fái afgreiðslu nú. Tilefni frv. er það, að 1934 hafði verið gert mikið að því, að veita útgerðarsamvinnufélögum í ýmsum bæjum og hreppum ríkisábyrgð. En þingið sá, hvílík hætta var í þessu fólgin fyrir ríkissjóð, og því var tekið fyrir þetta. En með þessu frv. er tilgangurinn sá, að svo rækilega sé frá þessum félögum gengið, að óhætt sé að veita þeim meiri lán en öðrum útgerðarfyrirtækjum. Þetta á að tryggja einkum með sjóðstofnunum og eftirliti með félögunum.

Það er vilji okkar flm., að þetta frv. gangi fram óbreytt, þótt við tökum auðvitað vinsamlega öllum bendingum um breytingar til bóta. Við viljum með þessu frv. bæta úr því misrétti, að aðeins félög á einstökum stöðum á landinu fái ríkisábyrgð, en ætlumst til, að frv. hafi þau áhrif, ef það verður að lögum, að allsstaðar á landinu séu möguleikar til þess, að félög geti fengið ódýrari lán en önnur útgerðarfyrirtæki.