22.03.1937
Neðri deild: 24. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 391 í C-deild Alþingistíðinda. (1649)

80. mál, iðnlánasjóður

*Flm. (Emil Jónsson):

Tilgangi þessa frv. er lýst í fám orðum í 1. gr., þar sem segir svo: „Tilgangur iðnlánasjóðs er að efla og styðja iðnað og iðjustarfsemi landsmanna með hagfelldum lánum. Skal lánveitingum úr sjóðnum hagað með það fyrir augum, að sem beztur gjaldeyrisjöfnuður náist á hverjum tíma.“

Síðar í frv. er gerð grein fyrir þessu. Eitt aðalvandamál iðnaðarins er að afla sér rekstrarfjár. Aðrir aðalatvinnuvegir landsmanna hafa sína eigin banka, en iðnaðurinn á hvergi athvarf. Á Alþingi 1934 var samþ. frv., er fór í svipaða átt, en gekk þó skemmra. Þá var samþ. að stofna sjóð, er næmi 250000 kr., sem ríkissjóður legði fram á 10 árum. Þetta framlag hefir verið greitt síðustu 2 árin. Lánum úr þessum sjóði átti að verja til þess að hjálpa handverksmönnum til að kaupa vélar. Þetta frv. er allmiklu viðtækara, og samkvæmt því er lánastarfseminni einnig ætlað að ná til iðjustofnananna. Ég get ekki sagt um það án frekari upplýsinga, hve mikil rekstrarlánaþörfin er, en víst er, að hún er mjög mikil. Ætlazt er til, að höfuðstóll þessa sjóðs verði myndaður með 1 millj. kr. framlagi úr ríkissjóði og 1% gjaldi af innfluttum iðnaðarvörum. Það virðist eðlilegt og sanngjarnt, að ríkissjóður hjálpi til við stofnun þessa banka eins og bankanna fyrir hina atvinnuvegina. Það þótti líka rétt, að innfluttur iðnvarningur hjálpaði til þessa, með því að taka af honum 1% gjald, sem lagt yrði í sjóðinn. Er gert ráð fyrir, að það muni nema um 200000 þús. kr. árlega. Myndi sjóðurinn þannig fá um 500 þús. kr. fyrsta árið, en síðan um 200 þús. kr. árlega næstu ár. Þá er gert ráð fyrir, að sjóðurinn geti tekið lán, allt að tvöfaldri höfuðstólsupphæðinni.

Þá eru hinar 3 gr. frv., sem skiptast í 3 kafla og skýra frá 3 mismunandi starfssviðum sjóðsins: stofnlánum, rekstrarlánum og vélakaupalánum. Stofnlán er gert ráð fyrir, að veita megi gegn 1. veðrétti í húsum og vélum. Má lánsupphæðin nema allt að 60% af virðingarverði húsa og véla fyrirtækisins, og má veita lánin til allt að 20 ára til bygginga, en allt að 10 ára til vélakaupa. Þá er gert ráð fyrir, að veita megi rekstrarlán til þeirra fyrirtækja, sem heimilt er að veita stofnlán úr sjóðnum, gegn 2. veðrétti í húsum og vélum fyrirtækisins, svo og birgðum þess af fullunnum framleiðsluvörum. Þá er þriðji flokkurinn, vélakaupalánin. Ákvæðin um þetta eru tekin nálega óbreytt úr l. frá 1935 um iðnlánasjóð.

Ég sé ekki að svo stöddu ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta mál, sem allir vita, að er nauðsynjamál, sem atvinnuvegunum getur riðið á miklu að vel verði leyst.

Frv. er samið af skipulagsn. og að tilhlutun sérfræðings, er hér dvaldi, Erik Lundbergs. Fylgir frv. grg. hans. Var við samningu frv. stuðzt við norsk l. um sama efni.

Vænti ég, að hv. dm. taki vel undir frv. og leyfi, að því verði vísað til iðnn.