31.03.1937
Neðri deild: 28. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 392 í C-deild Alþingistíðinda. (1654)

81. mál, Landsbanki Íslands

*Flm. (Héðinn Valdimarsson):

Þetta frv. er flutt í sambandi við frv. um gjaldþrotaskipti á búi h/f Kveldúlfs, en er sjálfstætt, þó að á vissu sviði sé um skylt atriði að ræða. Það kom að nokkru leyti til umr. í útvarpsumr., og tel ég því ekki nauðsynlegt að hafa langa framsögu fyrir því.

Grg. frv. skýrir frá, hver tilgangur frv. sé, en hann er að breyta kosningarfyrirkomulagi til landsbankanefndar og bankaráðs Landsbankans þannig, að í staðinn fyrir að n. er nú kosin í 3 hlutum, verði hún framvegis kosin í einu lagi og með hlutfallskosningu. Er þá öruggt, að landsbankanefnd, sem að l. er æðsta yfirstjórn Landsbankans, sé í samræmi við þingviljann á hverjum tíma. Það hefir komið fyrir og er þannig nú, að ekki er samræmi milli þess, og þannig getur það orðið meðan kosningafyrirkomulagið er eins og það er nú l. samkvæmt.

Í öðru lagi er lagt til, að breytt verði l. um kosningar í bankaráð, þannig að í staðinn fyrir að kjósa aðalmennina í tvennu lagi, skuli þeir kosnir í einu lagi, en formaður eftir sem áður skipaður af fjmrh., en þó ekki til lengri tíma en aðrir í bankaráðinu, þannig að gera megi ráð fyrir, að bankaráðið sé í samræmi við landsbankanefndina og meiri hl. þjóðarinnar á hverjum tíma.

Þá er einnig það ákvæði, að ef menn eru forfallaðir úr landsbankanefnd, þá skuli þeirra þingflokkar tilnefna menn í þeirra stað, og að ef vafaatriði um þessi efni koma fyrir, skuli n. skera úr þeim með atkvgr. Þá er einnig rétt að geta þess í sambandi við bankaráðsstöðuna, að við leggjum til, að niður falli dýrtíðaruppbót sú, sem nú er goldin bankaráðsmönnum.

Þá flytjum við brtt. við, hvenær bankanefndarfundur sé lögmætur. Nú þarf til þess ? hluta nm. Það hefir áður komið fyrir, að átt hefir að gera fund ólögmætan með því að mæta þar ekki. Nær engri átt, að það sé hægt, og því leggjum við til, að fundur teljist lögmætur, ef meiri hl. nm. sækir fundinn, en ef meiri hl. mætir ekki, skuli boða til fundar á ný með löglegum fyrirvara, og sé þá sá fundur lögmætur, þótt ekki mæti meiri hl. nm.

Þá leggjum við til, að vald landsbankanefndar sé nokkuð aukið frá því, sem nú er. Að vísu er það óljóst orðað í l., en við viljum gera það skýrt, að n. geti tekið til meðferðar mál, sem hún telur mikilsverð um hag bankans, þó að eigi liggi fyrir ósk um það frá bankaráði eða ríkisstj.

Þá kemur kafli, sem felur í sér ákvæði um lánveitingar. Þau einu takmörk eru á lánveitingum í bönkunum nú, að ekki megi lána ríkissjóði meira en ¼ hluta af stofnfé þeirra. En sá hluti af stofnfé Landsbankans er nú 3600000 kr. Að öðru leyti eru þessar lánveitingar í höndum bankastjórnarinnar, án þess að bankaráð hafi þar afskipti af, fyrr en svo stendur t. d., að ákveða þurfi, hvort skuldir séu ótryggar eða ekki. Með þeirri ákaflega miklu fjármagnsþörf, sem er hér á landi, þá er auðvitað ekki rétt, að bankarnir geti lánað mikinn hluta af sínu starfsfé til einstakra mjög fárra fyrirtækja, þannig að það sé eingöngu á valdi bankastjórnarinnar sjálfrar, án þess að það sé víst, að það sé aðkallandi þjóðarþörf til þess. Auk þess vita allir, að það er miklu meiri áhætta því samfara, að láta mikinn hluta fjármagns bankanna fara í fáa staði, heldur en með því að dreifa því meira. Og það hefir sýnt sig með Íslandsbanka, að töp hans urðu aðallega á stórum lánum til fárra viðskiptamanna. Í nágrannalöndum okkar munu venjulega vera ákvæði til að hindra þetta, sumstaðar kannske ekki í löggjöf, heldur þannig að bankaeftirlitsmenn eiga að hafa gát á þessu og jafnvel hafa heimild til þess að stöðva það. Í Danmörku eru föst ákvæði um, að ekki megi lána út til eins fyrirtækis meir en ákveðinn hluta af eigin fjármagni bankanna sjálfra. Ég held, að það sé 35%, sem þannig má lána í hæsta lagi án sérstaks leyfis, en að með sérstakri löggjöf megi hækka þetta takmark upp í 50%, en fram yfir það alls ekki. Nú er það till. okkar í frv., að miðað verði við það, að ekki sé hægt að lána neinu fyrirtæki einstöku meir en ¼ hluta af starfsfé bankans, sem frv. fjallar um, og þar með talin öll lán úr bankanum, bæði úr seðlabankanum, sparisjóðsdeild og veðdeild til samans, en að þó gildi þetta ekki um lánveitingar bankans til annara banka eða sparisjóða. Þó viljum við leyfa undanþágur frá þessu, ef um sérstök stór fyrirtæki er að ræða, sem hafa þýðingu fyrir og ná yfir allt landið, og tökum við þar til SÍS og SÍF, og þar að auki gætu komið samskonar landssamtök, en þó því aðeins, að landsbankanefnd leyfi slíkar undanþágur. Og svo að lokum, að til þeirra fáu fyrirtækja, sem nú hafa lán frá bankanum, sem eru yfir þessu hámarki, séu ekki stöðvaðar lánveitingar þegar í stað, heldur verði þeim leyft að halda sínum lánum í því trausti, að hægt verði að lækka þau niður fyrir það takmark, sem ég hefi nefnt.

Þá er og ætlazt til þess, að framkvæmdarstjórn bankans gefi bankaráði og landsbankanefnd skýrslur vikulega um samanlagða lánshæð viðskiptamanna bankans, er standa í meiri skuld við bankann á hverjum tíma en um getur í 8. gr. frv. og ég hefi getið um hámarkið fyrir. Þetta ákvæði er gert til þess, að sem auðveldast sé að fylgjast með þessu.

Við leggjum svo til, að ef frv. nær fram að ganga, verði í fyrsta sinn kosið í landsbankanefnd og landsbankaráð samkvæmt þessum lögum nú á þessu Alþ. og svo að sjálfsögðu næst þegar verða kosningar til Alþ.

Ég vil svo aðeins geta þess, að Alþfl. er reiðubúinn til að semja nánar um samþykkt þessa frv., og ef einstök atriði væru, sem menn kynnu að vilja hafa öðruvísi, einnig að semja um það. En við alþýðuflokksmenn álítum það ákaflega mikils vert, bæði fyrir fjárhag bankans og þá ekki síður fyrir þá meginreglu, hver eigi að ráða í landinu, hvort það á að vera Alþ. eða bankastjórarnir, að frv. eins og hér er um að ræða eða svipað verði samþ. Vil ég svo að lokum óska, að frv. verði vísað til 2. umr. og fjhn.