31.03.1937
Neðri deild: 28. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 394 í C-deild Alþingistíðinda. (1655)

81. mál, Landsbanki Íslands

*Jakob Möller:

Af því að hv. 1. flm. lýsti því beinlínis yfir, sem raunar er vitað, að þetta frv. er einn þáttur í þeirri herferð, sem sósíalistar hafa hafið gegn Landsbanka Íslands og h/f Kveldúlfi í sameiningu, þá þykir mér hæfa, að vakin sé athygli á því af öðrum og því beint til hv. þm., að gera sér grein fyrir því, hvaða meðferð hæfir slíku máli sem þessu. Það liggur í hlutarins eðli, að engin þörf er að gera breyt. á landsbankal. Þau atriði, sem hv. 2. þm. Reykv. lýsti, eru þannig vaxin, að þau geta vel komið undir reglugerðarákvæði. Það atriði, að stofna beri til þess, að landsbankanefnd og landsbankaráð verði alltaf í samræmi við þjóðarviljann, er náttúrlega hæpin staðhæfing. Og reynslan hefir raunar sýnt, að fjármálalífið er svo heilbrigt, að þegar á reynir, þá verður það svo, að það verður nú stjórn fjármálanna, sem ræður meira en skipun Alþ. eða flokkaskipting í landinu.

Það er kunnugt, að þetta frv. er fram komið í sambandi við það, að sósíalistar töldu nauðsyn á, að Alþ. tæki fram fyrir hendur á þeim mönnum, sem stjórna bankamálunum. Reynslan hefir verið sú, að Alþ. hefir ekki fengizt til þess, og það er nægileg sönnun fyrir því, að þessi breyt., sem hér er farið fram á, að skipa landsbankanefnd og landsbankaráð á hverjum tíma í samræmi við þingviljann á Alþ., er ekki líkleg til að bera tilætlaðan árangur, vegna þess að þeir, sem fara með stjórn þessara mála, bankamálanna, láta ekki að jafnaði stjórnast af ofbeldishneigð né æsingatilraunum, sem ráðið hafa þó mestu í sambandi við aðgerðir kommúnista í þessu efni og Kveldúlfsmálinu á þingi. Það hefði farið bezt á því, að Kveldúlfs frv. hefði verið lagt á höggstokkinn við atkvgr. til 2. umr. Þannig væri líka langeðlilegast að fara með þetta frv. En ég geri ekki ráð fyrir, að samstarfsflokkur sósíalista vilji beita slíku harðræði. En þetta frv. mun þó að sjálfsögðu ekki verða látið ná fram að ganga á þessu þingi.