31.03.1937
Neðri deild: 28. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 396 í C-deild Alþingistíðinda. (1657)

81. mál, Landsbanki Íslands

*Flm. (Héðinn Valdimarsson):

Ég bjóst aldrei við því, að hv. 3. þm. Reykv. mundi verða með þessu frv. frekar heldur en með annari þeirri löggjöf, sem miðar að því, að koma fjármálum landsins á heilbrigðan grundvöll. Það þýðir náttúrlega ekkert, að við förum að deila um þau efni, sem við erum á eins andstæðri skoðun um eins og það, hvar bezt sé, að valdið í landinu sé, þar sem ég álít bezt sé, að það sé hjá Alþ., en hann álítur aftur á móti, að hið leynda fjármálavald bankanna eigi að vera mest ráðandi valdið, og telur það heilbrigt og eðlilegt, að stjórnir bankanna ráði meira en Alþ.

Að fara út í Kveldúlfsmálið aftur, sé ég ekki ástæðu til. Það hefir verið gert og mun einnig veitast tækifæri til þess síðar. En ég vil þó benda á það atriði í sambandi við þetta mál, að eitt félag hefir haft e. t. v. 8–10% af sparifénu í Landsbankanum undir sér, á meðan hundruð eða jafnvel þúsundir manna sækja stöðugt um lán í bankanum gegn góðum tryggingum til fyrirtækja, sem gera má ráð fyrir, að ekki verði tap á. Þetta er ekki það, sem hægt er að mæla með frá almennu sjónarmiði, þó að hv. 3. þm. Reykv. álíti það hollt. Sem sagt, það verður hver flokkur að hafa sína skoðun um þetta atriði, og þýðir ekki að deila um það. Eins er um það atriði, að hægt sé að setja og beri að setja í reglugerð bankans ákvæði um það, hvað veita megi há lán og að ekki megi veita eftirgjafir, en að það eigi ekki að takmarka það, eins og hér er gert ráð fyrir í frv., nefnilega með löggjöf, að ef það er gert þá er það ekki komið undir löggjafanum heldur þeim, sem ákveða reglugerð bankans. Það er ekki minni ástæða fyrir okkur að setja l. um þetta heldur en t. d. Dani. Við höfum sannarlega ekkert betri reynslu af þessum málum en Danir. Það sem væri eðlilegast frá vissu sjónarmiði, væri, að þessi atriði gildi ekki aðeins um Landsbankann heldur um Útvegsbankann líka. En varla munu aðrir bankar en Landsbankinn hafa misnotað þetta vald.

Hv. 3. þm. Reykv. lýsti því yfir, að frv. þetta mundi ekki ná fram að ganga. Ég býst við, að hann hafi lýst því yfir fyrir hönd Sjálfstæðisfl. En sá flokkur ræður nú ekki hér á Alþ. Hæstv. fjmrh. lýsti ekki yfir annari afstöðu til þessa frv. en að það mundi verða athugað í n., og hann tók fram, að það væru tvö atriði í frv., sem Framsfl. væri á sama máli og flm. frv., að um þau þyrfti að setja löggjöf svipaða eða eins og hér er farið fram á.

Það er rétt, að bankamálin hafa ekki verið mikið rædd á síðustu þingum. En þau hafa verið rannsökuð. Skipulagsn. atvinnumála hefir tekið bankamálin fyrir til rannsóknar, með aðstoð sérfræðings frá Svíþjóð. Og niðurstöður um hennar athuganir liggja frammi hér á Alþ. En ég vil þó ekki segja, að ekki sé hægt að gera frekari athuganir á þeim málum heldur en þar hafa verið gerðar.