31.03.1937
Neðri deild: 28. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 403 í C-deild Alþingistíðinda. (1662)

81. mál, Landsbanki Íslands

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Hv. þm. G.-K. sagði, að það væri álit flestra lögfræðinga, að skilningur minn á landsbankalögunum, að því er snertir valdsvið landsbankanefndar og vald ráðh. til þess að skjóta málum til hennar, sé rangur. Ég veit ekki, hvað hann hefir fyrir sér í þessu, en ég get sagt honum það, að þeir lögfræðingar, sem ég hefi borið þetta undir, telja engan vafa á, að skoðun mín um þetta efni sé rétt.

Hv. þm. fór út í þá skoðun mína, að sú breyting væri réttmæt, að leitað væri álits landsbankanefndar, þegar um uppgjafir skulda um eða yfir 100 þús. kr. væri að ræða. Hann færði þau rök gegn því, að fulltrúarnir í landsbankanefnd væru svo illa að sér í bankamálum, að þeim væri ekki trúandi til að taka slíkar ákvarðanir, og auk þess væri hætta á, að slíkt vald yrði misnotað af pólitískum ástæðum. Ég býst nú við því, að það sé fremur sjaldgæft, að um uppgjafir skulda yfir 100 þús. kr. að upphæð sé að ræða, og ég tel það fyllsta vantraust á landsbankanefnd, að treysta henni ekki til að taka slíkar ákvarðanir, og að kalla fulltrúa þingsins í n. pólitískt verkfæri, eins og hv. þm. G.-K. gerði, tel ég alls ekki sæmandi. Hann taldi ástæðu til þess að ætla, að meðferð bankamálanna í landsbankanefnd yrði pólitískari en í bankaráði. En við vitum vel báðir, að bankaráðsmennirnir eru pólitískir, og ég legg ekkert upp úr þeirri röksemd, að landsbankanefndin verði pólitískari en bankaráð, af því að hún er fjölmennari. En með því að báðir þessir aðiljar fjalli um stórfelldar eftirgjafir, ætti að vera alveg tryggt, að þær fari ekki fram, nema sérstök ástæða sé til. Annars býst ég ekki við því, að minn flokkur taki afstöðu til þess, hversu skipta skuli valdi milli þessara aðilja, fyrr en n. hefir athugað málið.