20.03.1937
Neðri deild: 23. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 406 í C-deild Alþingistíðinda. (1672)

83. mál, ríkisborgararéttur

*Garðar Þorsteinsson:

Ég hefi litlu við að bæta. — Þar sem hv. 2. þm. Reykv. sagði, að hver maður, sem sækti um íslenzkan ríkisborgararétt, ætti í sjálfu sér ekki að fá réttindin, þótt hann uppfyllti skilyrðin, þá er ég honum sammála um það, þó því aðeins, að tekin séu upp strangari ákvæði um það, hverjir fái íslenzkan ríkisborgararétt, en inn á það hefir ekki verið gengið og það veit hv. þm.

Þessu er þannig háttað núna, að umsóknir um íslenzkan ríkisborgararétt eru ásamt vissum opinberum skjölum, sem krafizt er, að látin sé í té, sendar til stjórnarráðsins, og það sendir þær síðan til allshn Alþ., og þær gera í raun og veru ekki annað en athuga, hvort viðkomandi umsóknir uppfylli skilyrði l. Ef tilætlunin væri sú, að gerðar væru um það strangari kröfur en þessi „formellu“ skilyrði l., þá mundi ég geta fallizt á það. En mér er ekki kunnugt um þau ár, sem ég hefi setið á Alþ., að spurt hafi verið um annað en það, hvort viðkomandi maður uppfyllti skilyrði l. Ég vil benda á, að núna sótti maður um ríkisborgararétt, sem vinnur hjá Reykjavíkurbæ og uppfyllir skilyrði l. að öðru leyti en því, að hann hefir ekki unnið nægilega lengi hjá íslenzkri ríkisstofnun. Þessi maður er ekki talinn hér með, af því að þetta „formella“ skilyrði var óuppfyllt. Þessi maður, sem starfar hjá Reykjavíkurbæ, hefir ekki það starf með höndum, sem íslenzkur ríkisborgari getur innt af hendi.

Ef hv. 2. þm. Reykv. vill taka málið á þeim grundvelli, að sett séu önnur og strangari skilyrði, þá verður Alþ. að setja um það l., eða einhverjar beinar reglur, sem fylgt er, en allshn. eða einstakir þm. mega ekki koma með neitt slíkt til þess að fella mann frá því að fá réttinn, er hann uppfyllir hin sömu almennu skilyrði, sem sett eru gagnvart öðrum.