20.03.1937
Neðri deild: 23. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 407 í C-deild Alþingistíðinda. (1673)

83. mál, ríkisborgararéttur

*Héðinn Valdimarsson:

Það er mikill munur á þeim mönnum, sem í frv. eru taldir. Sá fyrsti er búinn að starfa hér svo lengi, að hann er í raun og veru orðinn Íslendingur. Hinn fjórði er íslenzk kona sem hefir við giftingu í Þýzkalandi misst ríkisborgararéttinn, en er alflutt hingað fyrir mörgum árum og er því jafnmikill Íslendingur og hver annar innfæddur borgari. Þriðji umsækjandinn er sonur þessarar konu, sem uppalinn er að mestu hér, þótt hann sé útlendur í föðurætt. En annar umsækjandinn í röðinni sækir um ríkisborgararétt í þeim tilgangi fyrst og fremst, að geta haldið því starfi, sem hann hefir og nóg af ísl. mönnum er til í. Ég álít ekki, að hver maður, sem sækir um íslenzkan ríkisborgararétt, eigi að fá hann, þótt hann uppfylli skilyrðin. Það verður að gera greinarmun á þessu, eftir því hvaða menn eiga í hlut.